Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 18:07:39 (4967)

2003-03-13 18:07:39# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[18:07]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Leiðarljósið sem hv. þm. talar um er að verið er að vísa í ýmsar leiðir sem menn hafa farið í Evrópu. En ég segi enn og aftur að meginmarkmiðið með þessu er að innleiða samkeppni, þ.e. ekki villta samkeppni því það er meira að segja sett hámark á arðsemiskröfurnar sem ekki gengur m.a. ef þetta er í einkaeign. Ef kemur til þess að selja þá er það sjálfstæð ákvörðun Alþingis. Það ekki verið að fjalla um það hér.

Hins vegar átti ég eftir að svara spurningum frá hv. þm. og árétta það að hér er verið að innleiða samkeppni og að reynslan í Evrópu er sú að orkuverð hefur lækkað vegna samkeppninnar --- það eru staðfestar tölur --- og því meir hefur það lækkað sem lengra er liðið frá því að þessi samkeppni var innleidd. Ég skal afhenda hv. þm. þetta skjal sem sýnir það í öllum regnbogans litum.

En ég átti eftir að svara hv. þm. hvers vegna ekki var leitað álits hjá BSRB. Í rauninni kann ég ekki skýringu á því. Eins og hv. þm. veit eru yfirleitt staðlaðir útsendingarlistar hjá nefndum Alþingis og síðan er hverjum hv. þm. í hverri nefnd heimilt að koma með ósk um að fleirum verði bætt á slíkan lista og það hefur greinilega gleymst hjá öllum í iðnn., þar með hv. fulltrúa Vinstri grænna og auðvitað ber að harma það. Ég vísa því hins vegar á bug að það sé vegna þess að menn hafi óttast gagnrýni BSRB. Í rauninni vissi ég ekki hver afstaða BSRB var né veit svo sem hver hún er núna. En ég tel að hv. þm. hafi töluverð rök fyrir máli sínu. Þetta eru fjölmenn samtök og ég lýsi yfir vilja mínum, hafandi haft samráð við hæstv. iðnrh., að flytja brtt. milli 2. og 3. umr. þar sem BSRB verði boðin þátttaka í þessari samráðsnefnd.