Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 18:09:46 (4968)

2003-03-13 18:09:46# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[18:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. eða þess vegna í öðrum nefndum þingsins er enginn sérstakur fulltrúi BSRB. Það gætu alveg eins verið fulltrúar Framsfl., Sjálfstfl., Samfylkingar eða Frjálslyndra. Þetta hefur ekkert með flokkspólitík að gera, alls ekki. En mér finnst það áhyggjuefni ef í hinum stöðluðu útsendingarlistum iðnn. er BSRB ekki að finna sem við vitum að eru samtök sem hafa verið mjög gagnrýnin á einkavæðingu almannaþjónustunnar. Þetta er á allra vitorði hefði ég haldið. Þess vegna finnst mér mjög undarlegt að það þurfi að leita eftir því með þessum hætti. Ég vil taka það fram að samtökin buðust til að senda fulltrúa á fund nefndarinnar til þess að gera ítarlega grein fyrir máli sínu, eins og fram kemur í bréfi samtakanna, en ekki var orðið við þeirri beiðni eða því tilboði. Síðan kemur hv. þm. hér og veifar blaði og segist ætla að vera svo góður að láta mig fá þetta blað til aflestrar, einhver súlurit. Ég hef verið að auglýsa eftir því að menn settust niður með þessi gögn sem ég hef verið að vísa í um raforkuverð í Evrópu, á Norðurlöndum, Nýja-Sjálandi og víðar og færu rækilega yfir þetta. Ég hef ítrekað sagt að þær breytingar á verðlagi raforku sem hafa verið til lækkunar eru að því er ég best veit og mér er sagt samkvæmt upplýsingum innan úr verkalýðshreyfingunni ekki sprottnar af einkavæðingunni heldur öðrum orsökum. Staðreyndin er sú að eftir að raforkan var einkavædd á Norðurlöndum hefur orðið verðsprenging þar í raforku.