Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 18:12:19 (4969)

2003-03-13 18:12:19# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[18:12]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Nú stendur yfir 2. umr. um frv. til raforkulaga. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í hv. iðnn., hefur gert grein fyrir í nál. sínu afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði til frv.

Það hefur komið skýrt fram í þessum umræðum hversu gjörólík sjónarmið eru gagnvart stöðu og þýðingu raforkumála fyrir íbúa landsins milli stjórnmálaflokka. Ef marka má þá sem hér hafa tekið til máls er Framsfl. einn flokka að troða í gegn breyttu frv. til raforkulaga sem skilur þó eftir óafgreidd öll meginatriði málsins sem snerta almenna raforkunotendur vítt og breitt um landið. Hér hljóta að liggja einhver annarleg sjónarmið að baki. Ekki getur það bara verið löngunin til þess að beita yfirgangi ein saman.

Í frv. til raforkulaga er talað um markmið og gildissvið. Þar er í fyrsta lagi talað um að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Þetta er fyrsta markmiðið, þ.e. að koma á samkeppni í vinnslu á raforku og það er í raun eina atriðið sem á að keyra í gegn.

[18:15]

Atriði númer tvö sem talið er upp í markmiðunum er að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku. Það skiptir afar miklu máli að sjálfsögðu fyrir allt atvinnulíf og búsetu í landinu og neytendur um allt land.

Í þriðja lagi er það að tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Að sjálfsögðu, annars værum við ekkert að framleiða þetta rafmagn ef ekki ætti að hafa hagsmuni neytenda í huga.

Í fjórða lagi á að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti. Við þekkjum nú framkvæmd þeirra sjónarmiða í höndum hæstv. iðnrh. Framsfl. hvað lýtur að umhverfissjónarmiðum og raforkuvinnslu þannig að það þarf ekkert að búast við neinu sérstöku í þá veruna.

Herra forseti. Oft og allt of oft gleymist, bæði á hinu háa Alþingi og í meðförum framkvæmdarvaldsins, sú staðreynd að Íslendingar eru fámenn þjóð í stóru landi. Stærsti hluti íbúanna er saman kominn á suðvesturhorninu í þéttbýli en úti um hinar miklu dreifðu byggðir býr síðan hinn hluti þjóðarinnar, sá minni. Ísland hefur þannig algjöra sérstöðu gagnvart öðrum Evrópuþjóðum í búsetu og þjóðfélagsgerð hvað þetta varðar.

Vissulega erum við aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og höfum gengist undir ýmsar skuldbindingar hvað varðar þá aðild. Fulltrúar Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins samþykkja hinar og þessar tilskipanir, lög og reglur og síðan er lagt að aðildarþjóðunum að taka þær upp. Það er þó ekki svo að þær séu skuldbundnar til þess að taka þær upp athugasemdalaust. Hvert þjóðþing hefur það í sínu valdi hvort það tekur upp þessar tilskipanir eða ekki svo fremi sem þær ganga ekki fullkomlega í berhögg við aðra alþjóðlega samninga sem þjóðin hefur gert. Þetta hefur hvað eftir annað verið staðfest á hv. Alþingi, m.a. af hæstv. forsrh. sem hér hefur ítrekað varað við því að menn verði of gírugir að yfirfæra og staðfesta tilskipanir Evrópusambandsins athugasemdalaust inn í íslensk lög. Ég minni þó jafnframt á, herra forseti, að hæstv. forsrh. er nú samt verkstjóri þessarar ríkisstjórnar og ber ábyrgð á gjörðum hennar sem slíkur.

Þær tilskipanir sem Evrópusambandið setur t.d. í raforkumálum geta vel hentað á hinum þéttbýlu svæðum Mið-Evrópu. En hér í hinu dreifbýla Íslandi er það alls ekki einboðið. Ég held því að það hafi verið algjör mistök, og reyndar vöruðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við því á sínum tíma, að Alþingi samþykkti að gangast undir þessa tilskipun Evrópusambandsins sem laut að raforkumálum og dreifingu raforku.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem hér talaði einnig fyrr í dag viðurkenndi og lagði áherslu á að þetta hefðu verið hrein mistök af Íslands hálfu.

Það er dapurlegt að gera mistök, ekki síst í afdrifaríkum málum sem snerta hag heillar þjóðar, íbúa alls landsins, svo verulega eins og skipan raforkumála. Ég held í þessu sambandi, herra forseti, að hér hefði ríkisstjórn og framkvæmdarvald ásamt Alþingi átt að beita sér fyrir því að fá þessa samþykkt afturkallaða, að sækja um að vera undanþegið kröfum Evrópusambandsins hvað varðar tilskipanir í raforkumálum sem hér er verið að hafa sem skálkaskjól fyrir þessu lagafrv.

Það getur ekki verið að allar gjörðir mannsins hvað þetta varðar séu óafturkallanlegar. Það er ekki í samræmi við skynsemi mína að svo geti verið. Það væri þá meira ómannúðlega umhverfið og umgerðin sem við værum búin að búa okkur ef ekki væri hægt að afturkalla með rökum og eðlilegri vinnu mannleg mistök eins og þessi. Ég hefði því talið miklu vitlegra ef menn hefðu sameinað krafta sína hér til þess að fá þetta samþykki afturkallað sem Íslendingar gerðu hér vanhugsað frekar en að prjóna vandræðin hver ofan á önnur í framhaldi af þeim.

Herra forseti. Eins og kemur fram í minnihlutaáliti hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar er það mat flestra orkufyrirtækja hér á landi að verði þetta frumvarp að lögum hafi það í för með sér umtalsverðan nýjan kostnað og muni það valda hækkun orkuverðs en ekki lækkun eins og ýmsir hafa haldið fram. Þessi kostnaðarauki stafar m.a. af auknum kostnaði vegna mælinga, eftirlits og uppgjörs og arðsemiskröfu vegna flutnings- og dreifikerfa. Því er haldið fram að leitað verði allra leiða til þess að minnka þennan kostnað og hefur meiri hlutinn með breytingartillögum sínum gert ráðstafanir til að lágmarka þennan kostnaðarauka. Með leyfi forseta, vil ég vitna áfram í ágætt álit 2. minni hluta iðnaðarnefndar sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson stendur að. Þar er lögð áhersla á ,,að verði þetta frumvarp að lögum muni það leiða til hækkaðs orkuverðs í landinu og því getur hann ekki stutt frumvarpið.``

Formaður iðnn., hv. þm. Hjálmar Árnason, vitnaði hér í reynslu Evrópulandanna um að þessi tilskipun hefði leitt til lækkunar orkuverðs þar. Vel má vera að þær aðstæður séu í hinum þéttbýlu Mið-Evrópulöndum að þessi tilskipun hafi leitt til þess þar. Það má vel vera. En það eru bara gjörólíkar aðstæður þar og hér. Hið mikla dreifbýli sem við búum við hér t.d. er algjörlega frábrugðið þeirri skipan sem er í Mið-Evrópu.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson svaraði því reyndar til að lækkun á orkuverði í Evrópulöndunum á grundvelli þessarar tilskipunar hefði fyrst og fremst orðið vegna þess að á ýmsum stöðum og í ýmsum löndum hefði verið umframorka til staðar sem ekki hefði nýst en með þessari samtengingu hefði hún nýst betur og það hefði leitt til lækkaðs orkuverðs. Það var ekki svo að tilskipunin sem slík hefði leitt til þess eins og hér hefur verið látið að liggja. (Iðnrh.: Jú, jú, einmitt.) Alls ekki, hæstv. ráðherra, því að hér er ekki um slíkt að ræða. Hérna eru orkuverin öll í eigu opinberra aðila og hefði verið hægt að beita þeim samræmt á markaði ef þannig bæri undir.

Herra forseti. Það er upplýsandi að lesa umsögn Rafmagnsveitna ríkisins um þetta frv. Rafmagnsveitur ríkisins hafa axlað þá ábyrgð að standa að dreifingu raforku úti um hinar dreifðu byggðir ásamt Orkubúi Vestfjarða á sínu svæði og ættu því að þekkja mjög vel til hvað geti verið fram undan. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég til umsagnar Rariks um frv.:

,,2. Flutningskerfið er þjóðbraut raforkunnar um landið og aðgengi að því er forsenda fyrir samkeppni á markaðnum. Það er skoðun Rariks að ekki sé rétt að fresta gildistöku III. kafla laganna um flutning raforku og setja á fót sérstaka nefnd til að fjalla um ágreining um þann kafla heldur verði frumvarpið í heild afgreitt samhliða frumvarpi um jöfnun kostnaðar við flutning og dreifingu raforku.``

Hérna er vikið að því að í þessu lagafrv. er einmitt gert ráð fyrir því að fresta ákvæðum sem lúta að öllum þessum meginþáttum, þ.e. flutningskerfinu, dreifingu á raforkunni, jöfnuði verðs og verðákvörðunum. Öllu því skal fresta, þessum meginatriðum sem lúta að almennum raforkuneytendum í landinu. Þessu mótmælir Rarik og ég leyfi mér að vitna áfram til umsagnar þeirra:

,,Því er það tillaga Rariks að ákvæði VII og VIII til bráðabirgða verði felld út.`` --- Rarik vill bara fá þetta á hreint, ekki skilja neitt eftir óafgreitt: --- ,,Ótækt er að Alþingi samþykki lög sem varða jafnmikilvæga hagsmuni án þess að hafa heildaryfirsýn yfir hverjar afleiðingarnar gætu orðið fyrir raforkufyrirtækin og viðskiptamenn þeirra. Jafnframt vill Rarik leggja áherslu á að verðlagning flutnings orkunnar í flutningskerfinu er mikilvægt tæki til að jafna aðstöðu fyrirtækja og notenda á markaðnum.``

En þessu er sleppt. Það er sleppt að taka afstöðu til þess hvernig þarna skuli að staðið í þessu frv. eða það látið liggja óafgreitt. Ég vitna áfram, virðulegi forseti, í umsögn Rariks:

,,Það er skoðun Rariks að jöfn staða notenda og framleiðenda gagnvart flutningskerfinu sé afar mikilvæg, enda sett fram sem ein meginröksemdin fyrir breytingum á skipulagi orkumála. Tillaga Rariks í þessu efni er því skýr: Sama gjald skal taka fyrir mötun og úttekt í öllu flutningskerfi raforkunnar í landinu eins og það er skilgreint í frumvarpinu, þ.e. niður í 30 kílóvatta spennu ...``

Herra forseti. Þarna er undirstrikað af þessum aðila að með því að skilja þessa veigamiklu þætti eftir er forsendan fyrir frv. brostin. Hún er í raun brostin, herra forseti, og hefði því átt að vísa því frá og vinna það betur áður en það kemur fyrir þingið.

Herra forseti. Áfram segir í áliti Rariks um þetta frv.:

,,4. Í IV. ákvæði til bráðabirgða er tímasetning um opnun markaðar. Markaðsopnunin hefur í för með sér mun flóknari raforkumælingar og uppgjör en í núverandi kerfi. Þessir þættir eru lykilatriði í frjálsum viðskiptum með raforku. Nauðsynlegt er að koma upp viðamiklu kerfi sem annast orkumælingar og útreikninga, m.a. á tímamældum aflgildum og notkunarferlum notenda. Slík uppgjörskerfi eru mjög flókin og dýr, bæði í stofnkostnaði og rekstri. Miðað við reynslu erlendis frá er ljóst að þessi kerfi verða að öllum líkindum ekki tilbúin á þeim tíma sem frumvarpið gerir ráð fyrir að opnun markaðarins eigi sér stað. Reynsla grannþjóða okkar segir okkur jafnframt að slík mistök eru mjög afdrifarík. Í ljósi þessa er lagt til að frelsi til að kaupa raforku af öðrum en viðkomandi dreifiveitu verði seinkað um ár frá því sem fram kemur í IV. ákvæði til bráðabirgða.``

Herra forseti. Það eru mörg varnaðarorð dregin upp varðandi þessa lagasetningu.

Í lok umsagnar sinnar segir Rarik, með leyfi forseta:

,,d) Það breytta rekstrarumhverfi sem frumvarpið gerir ráð fyrir kallar á verulegan nýjan kostnað og þar með hækkun á raforkuverði.``

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þessu orðalagi í umsögn Rariks, sem ætti að þekkja þarna best til, þ.e. að hið breytta rekstrarumhverfi sem frv. gerir ráð fyrir kallar á verulegan nýjan kostnað og þar með hækkun á raforkuverði.

,,Þeir þættir sem valda kostnaðarauka eru m.a. við mælingar og orkuuppgjör vegna viðskipta á gerbreyttum markaði, eftirliti með honum, við að koma á bókhaldsaðskilnaði starfsemisþátta innan fyrirtækja og að skipta dreifiveitum upp í gjaldskrársvæði. Þá verður gerð aukin krafa um arðsemi flutnings- og dreifikerfa. Enn er þá ótalinn kostnaður við eftirlitskerfi, sem ævinlega hefur hneigð til að þenjast út.

e) Eigi er með neinni vissu hægt að draga þennan kostnaðarauka saman í tölum en talið er að hluti hans sé ný fjárfesting í búnaði fyrir mælingar og orkuuppgjör sem geti verið um einn milljarður króna.``

Herra forseti. Reynslan sýnir að í áætlunum sem við gerum um uppbyggingu eftirlitsiðnaðarins förum við ekki með lægri tölur en reyndin verður.

Hvers konar braut erum við hér að fara inn á? Hver á að borga þennan kostnað? Að sjálfsögðu verða neytendur að borga hann. Eins og málinu er nú varið og þar sem það er skilið eftir í uppnámi þá þurfa fyrst og fremst neytendur hinna dreifðu byggða að bera uppi þennan kostnað. Er þetta nú hægt fyrir Framsfl.? Ætlar hæstv. iðnrh. að fylgja eftir þingmönnum sínum um Vestfirði og hjálpa þeim að rökstyðja stefnu Framsfl. í raforkumálum, rökstyðja þá stefnu að þeir láti hjá líða að afgreiða á Alþingi hvernig staðið skuli að flutningskerfi og dreifingu raforku, jöfnuði á verði og verðlagningu? Ætli það geti ekki vafist fyrir hæstv. iðnrh. Framsfl. að fylgja sínum þingmönnum eftir um Norðvesturland og skýra stefnu Framsfl. í raforkumálum?

[18:30]

Raforkumálin voru metnaðarmál á árum áður og hluti af uppbyggingu hins félagslega þjónustukerfis úti um allt land. Þá var Framsfl. félagshyggjuflokkur og vildi byggja upp almannaþjónustu á félagslegum grunni, og ríkið styddi þar við til þess að sem mestur jöfnuður næðist um allt land. En nú eru breyttir tímar, herra forseti, hjá Framsókn. Þegar tekið er eitt viðamesta frv. eins og raforkulagafrv. sem kemur til með að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir samkeppnishæfni, búsetu og atvinnulíf um allt land er það hlutskipti iðnrh. Framsfl. að skilja eftir í uppnámi allt sem lýtur að hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, allt sem lýtur að verðjöfnun og verðlagningu í raforku til neytenda, allt þetta er skilið eftir í nefnd. Skipuð er einhver nefnd, nefnd þingflokkanna. Þingflokkarnir eru á Alþingi og geta tekið á málinu þar og óska eftir því að fá að taka á málinu. Þingflokkar sem eiga sæti á Alþingi óska eftir því að það sé afgreitt og tekið sé á þessum málum. Eini fulltrúi Sjálfstfl., varaformaður fjárln. og fjármálasérfræðingur flokksins, sem hefur talað í umræðunni mælir afdráttarlaust gegn þessum vinnubrögðum og framkvæmd og því hvernig að málum er staðið og þau skilin eftir í uppnámi hvað þetta varðar.

Samfylkingin varar einnig við þeirri málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Það er einn flokkur hér, flokkur sem eitt sinn kenndi sig við félagshyggju, sem keyrir þetta mál fram af jafnmikilli hörku sem raun ber vitni hér.

Herra forseti. Maður fer að velta því fyrir sér hvort þetta mál njóti þinglegrar meirihlutameðferðar á Alþingi. Það væri a.m.k. ástæða til að heyra viðhorf fleiri þingmanna Sjálfstfl. heldur en þess eina, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem hér flutti sköruglega og ákveðna ræðu og lýsti sjónarmiðum sínum. Aðrir þingmenn Sjálfstfl. hafa ekki sagt orð. (Iðnrh.: Þeir eru ekki að tefja umræðuna.) Hvar eru þeir?

Hæstv. forseti. Ja, ég veit að hæstv. ráðherra finnst það tafsamt að þurfa að leggja mál fyrir Alþingi. Henni finnst það óþarfi, hæstv. ráðherra, Alþingi eigi ekkert að hafa um svona mál að segja. Nei, þegar ég spyr eftir því hvort það sé bara einn sjálfstæðismaður sem hafi skoðun á þessu máli sem snertir dreifingu á raforku, verð á raforku um allt land, flutningskerfið og hv. þm. er á móti því. Enginn annar þingmaður Sjálfstfl. hefur tekið til máls. (HBl: Einhvers staðar stendur: Þögnin getur verið fróðleg þó að hún sé ekki einhlít í einstökum atriðum.) En hún má þó opinberast með formlegum hætti. Ég mundi alveg taka því vel, herra forseti, að hv. þm. Sjálfstfl. kæmu hér í ræðustól og þegðu og létu þannig í ljós skoðanir sínar. Það eru tjáskipti og ég met þau. Kannski fáum við að sjá, herra forseti, hv. þingmenn Sjálfstfl. koma hér upp í ræðustól með hendur í skauti sér og þegja í fimm mínútur eða svo og það væri þeirra innlegg í málið, að undanskildum hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.

Mér finnst allt of stórt mál vera hér á ferð til að hæstv. ráðherra Framsfl., iðnrh., geti komið og sagt: Æ, farið þið ekki að hætta að tala um þetta. Mér finnst það. Verið er að gjörbylta grundvallaralmannaþjónustu í landinu sem raforkumál eru. Í hugum okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, er raforka hluti af almannaþjónustu sem myndar grunn fyrir samkeppnishæft atvinnulíf og búsetu um allt land. Raforkuframleiðslan sjálf hvað þetta varðar á ekki að vera arðsemisatvinnurekstur fyrir saltfisk með það að höfuðmarkmiði að skaffa eigendum sínum arð af því fjármagni sem þeir hafa lagt í uppbyggingu þeirrar þjónustu. Arðurinn af slíkri þjónustustarfsemi á að koma fram í arði samkeppnshæfs atvinnulífs um allt land. En það virðist ekki vera megintilgangur frv.

Herra forseti. Ég get ekki annað en verið á vissan hátt dapur yfir hlutskipti Framsfl. í þessu máli. Ég hafði taugar til félagshyggjuhugsjóna Framsfl. á sínum tíma. Þegar Framsfl. birtist hér hins vegar sem harðasti markaðshyggjuflokkurinn, sá flokkur sem gengur harðast gegn félagshyggju í landinu, sá sem gengur harðast í því að brjóta niður þá félagslegu uppbyggðu almannaþjónustu í landinu, einkavæða hana eða markaðsvæða, hlýtur maður að verða dapur.

Herra forseti. Í ákvæði til bráðabirgða VII í frv. er klykkt út með því að skipa skuli nefnd til þess að fjalla um veigamestu þætti málsins sem frv. tekur á, og á að taka á, þar sem eiga sæti fulltrúar allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi og ,,í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti fimm fulltrúar frá Samorku, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum. Þá skal fjármálaráðherra skipa einn fulltrúa í nefndina og iðnaðarráðherra tvo og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar.`` Alla þá vinnu sem nefndinni er ætlað að vinna væri hægt að inna af hendi innan þingsins og er meira að segja hlutverk þingsins að vinna að með þeim hætti. Á þingi eru þingmenn allra flokka og þingnefndin gat vel kallað til og ráðfært sig við og tekið tillit til ráða þeirra samtaka sem þarna eru talin upp.

Reyndar var það athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við ein fjölmennustu launþegasamtökin í landinu, samtök sem flestir starfsmenn raforkugeirans eiga aðild að, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, skuli ekkert samráð vera haft á neinu stigi í meðferð þessa máls. Það læðist að sá grunur að það hefði getað þótt óþægilegt en þarna eru þó gríðarlegir hagsmunir, ekki síst þess starfsfólks sem þarna á í hlut, að fá að eiga aðild að nefndinni.

Fyrir nokkru voru afgreidd á Alþingi lög um hlutafélagavæðingu á Norðurorku, að mig minnir. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðumst gegn því að verið væri að hlutafélagavæða almannaþjónustuna á þann hátt eins og þar var gert og jafnframt þeim flausturslegu vinnubrögðum sem þar voru viðhöfð. Nú er hér á Alþingi verið að flytja frv., góðu heilli, sem tekur á réttindum starfsfólks þessa fyrirtækis sem hafði gleymst að taka á í meðförum frv. á sínum tíma eða styrkja réttarstöðu þess sem hefði mátt gera í því frv. sem þá var lagt fram. Ekki veit ég hvað hæstv. iðnrh., hv. formaður iðnn. og meiri hluti Alþingis sem stendur að þessu frv. hafa ætlað sér að standa að samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og þá hagsmuni sem starfsmenn þess gætu átt í þeim kúvendingum sem hér er verið að taka í raforkumálum. En það hefði þó verið lágmark að eiga frumkvæði að því að hafa samband við þau samtök, fá sjónarmmið þeirra og heyra frá þessu máli. En vinnubrögðin voru ekki á þeim nótum.

Herra forseti. Ég ítreka að þetta frv., eins og hér er ætlunin að keyra það í gegnum þingið, er að mínu mati móðgun við þingið. Í markmiði laganna eru talin upp þau meginatriði sem frv. er ætlað að taka á og snerta raforkumálin, sem er megintilgangur frv. Síðan í viðauka er lagt til að afgreiðslu þessara meginatriða, endalegri afgreiðslu af hálfu þingsins, sé frestað en málið samt keyrt í gegn. Meira að segja er klykkt út með hlutverki nefndarinnar sem skal vinna að þessu skuli vera, ,,að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings á raforku, þar með talið um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnunar skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá skal nefndin móta tillögur um uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku. Jafnframt skal nefndin móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna flutnings og dreifingar raforku.`` Allir þessir veigamestu þættir sem lúta að raforkumálum í landinu eru settir í vinnu hjá nefndinni. Hins vegar er svo sett á hana skrúfstykki. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrv. til iðnrh. eigi síðar en 31. desember 2003, annars eins og hv. þm. Hjálmar Árnason gat um koma öll þau ákvæði óbreytt til framkvæmda eins og lögin kveða á um. Sem sagt fullkomin hótun í þessu máli.

Þetta eru líka enn furðulegri vinnubrögð fyrir það, herra forseti, að þetta þing er nú á sínum síðustu dögum. Eftir tæpa tvo mánuði verður gengið til kosninga og þá verður vonandi núverandi ríkisstjórn rekin frá völdum. Þess vegna er það enn meiri vanvirða við Alþingi að keyra svona mál inn á síðustu dögum þingsins þar sem allur meginhluti þess er skilinn eftir í uppnámi. Málið snertir hina veigamestu þætti sem lúta að samkeppnishæfni atvinnulífs, búsetu og lífskjörum um allt land og þeim grundvallarhugsunum sem hefur mótað íslenskt samfélag um að almannaþjónusta skuli boðin og rekin á félagslegum grunni um allt land með stuðningi ríkisvaldsins. Málið er keyrt fram á síðustu dögum þingsins, á síðustu klukkutímum þess, en samt skilið eftir óafgreitt hvað þetta varðar en með hótun um að frv. nái fram að ganga að fullu hafi ný nefnd ekki skilað af sér tillögum fyrir 31. desember 2003.

Ég teldi, virðulegi forseti, þau vinnubrögð miklu eðlilegri og sanngjarnari að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu. Það mætti setja þessa nefnd á stofn ef mönnum þætti einhver huggun í því, sem um er rætt, og hún skilaði þá niðurstöðum og tillögum sínum fyrir næsta þing. Gott og vel með það ef menn treysta ekki því þingi sem hér situr til þess að taka á málinu. En eðlilegast væri að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og því frestað.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það verður ekki skemmtilegt að þurfa að bera boðskap þessa frv. út um hinar dreifðu byggðir landsins hvað varðar hugmyndafræði fyrir þessa almannaþjónustu, raforkuframleiðsluna til hinna almennu neytenda vítt og breitt um landið. Við erum ekkert að hlakka yfir því að verða að segja að Framsfl. hafi hér gengið fullkomlega af stefnu sinni og fallist á takmarkalausa einkavæðingu og arðsemis- og markaðsvæðingu þessarar grunnalmannaþjónustu, við komum ekki til með að hlakka yfir því. Við vildum svo sannarlega og við viljum það enn og vonum að frv. verði ekki afgreitt hér og því verði vísað til ríkisstjórnarinnar en ekki afgreitt á þessu þingi.