Raforkulög

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 18:47:52 (4970)

2003-03-13 18:47:52# 128. lþ. 99.13 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 64/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[18:47]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í enda þessarar umræðu sem nú hefur farið fram í allmarga klukkutíma. Ég vil árétta það enn og aftur að ég held að það fari best á því, eins og ég hef raunar gert tillögu um, að frv. verði sent til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu og komið með heildstæða lausn á haustdögum eða fyrir næstu áramót, þess vegna 30. desember 2003. Það er aðallega hræðsla mín við að dreifbýlið verði skilið eftir með óafgreiddan pakka innan þessa orkugeira sem veldur hikinu. Það yrði algjörlega óásættanlegt. Ég er sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni í því að nefnd til þess að taka á því máli hefur engan veginn það afl sem hv. Alþingi hefur til þess að gera það því að það er pólitísk ákvörðun hvernig fara á með félagslega þáttinn og jöfnunina á verðinu. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af framhaldinu ef þetta verður keyrt í gegn svona, óafgreitt með veigamestu þáttunum.

Það er nefnilega svo, virðulegi forseti, að það er ekki nægjanlegt í nýju ljósi fyrir dreifbýlið að það geti búið við svipað orkuverð og er í dag. Það er hróplega ósanngjarnt nú þegar, eins og ég rakti í minni fyrri ræðu. Það getur ekki verið ásættanlegt fyrir dreifbýlið að við skulum vera með þann háttinn á í gegnum Orkubú Vestfjarða og Rarik að þéttbýlisstaðirnir úti á landi skuli borga allan jöfnunarþáttinn. Við verðum að gera það öll, fólkið hér á þéttbýlissvæðunum við Faxaflóa og einnig norður á Akureyri. Ég nefndi í minni fyrri ræðu þær formúlur sem eru notaðar til þess að framkalla slíka jöfnun. Það er tiltölulega einfalt að gera, hvort sem menn vilja fara í einhvers konar auðlindagjald sem yrði notað til niðurgreiðslunnar eða ekki.

Það stendur margri atvinnustarfsemi fyrir þrifum úti á landi hversu hátt orkuverðið er. Ég kom í þjónustuskála við þjóðveginn á Snæfellsnesi um daginn og þar voru mér sýndir orkureikningar fyrir lítið fjölskyldufyrirtæki sem ég hefði ekki trúað ef ég hefði ekki séð þá svart á hvítu, orkureikningar sem byggðu á verði upp á 10 kr. á kílóvattstund sem er algjörlega út úr öllu korti. Þetta tengist náttúrlega líka í sjálfu sér stóriðjustefnunni og kappinu við að framleiða orku til stóriðju. Við stóðum frammi fyrir því, við skulum segja með stóriðju utan við sviga, að Landsvirkjun gat orðið skuldlaus á næstu 15 árum og skapað möguleika til verulegrar orkulækkunar í landinu. En stóriðjustefnan og það að Landsvirkjun leggur áherslu á orkuframleiðslu til stóriðju girðir fyrir þessa möguleika vegna þess að, eins og mönnum er kunnugt, Kárahnjúkavirkjun og þær virkjanir sem Landsvirkjun hyggst fara í hafa bakstuðning og baktryggingu í Landsvirkjun og þar með Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ og hjá ríkinu. Þetta hefur margoft komið fram í mínum ræðuhöldum um orkumál.

Þetta er ósanngjarnt hvað varðar landsbyggðina. Það er ekkert frekar mál, við skulum segja, Dalvíkinga eða Sauðkrækinga að greiða niður orku fyrir óarðbæra þáttinn inn til dala en Akureyringa eða Reykvíkinga. Og ég held að þegar menn tala um þetta hér séu þeir í raun og veru allir sammála um þetta en hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert gert í því að lagfæra þetta óréttlæti. Ég held að allir sjái að þetta er mjög mikið óréttlæti og það munar gríðarlega mikið um þennan orkuþátt í öllum iðnaði úti um land.

Tökum bara nauðsynlega þjónustu, t.d. bakarí á litlum stað. Orkureikningur fyrir bakarí, lítið fjölskyldufyrirtæki, hleypur á hundruðum þúsunda á ári eftir yfirtöku Rafmagnsveitna ríkisins á Rafveitu Sauðárkróks. Fatahreinsun sem notar mikla orku eyðir fleiri hundruð þúsundum, kannski hálfum árslaunum, í orkukostnað núna.

Við getum líka farið í stærri skala og tekið rækjuverksmiðjur sem kaupa rándýra orku, upp í 10 kr. kílóvattstundina. Sums staðar hefur maður séð hærra verð, allt upp í 12 kr. Jafnvel verðið frá 6 og upp í 10 kr. er algjörlega óásættanlegt. Að ekki skuli vera tekið á þessum hlutum með myndarlegum hætti boðar ekki gott. Nefnd mun ekki gera það, það er helst að gera það hér á hinu háa Alþingi með tillöguflutningi sem er algjörlega naglfastur í heildarfrv. (SvanJ: Rétt fyrir kosningar.) Og sennilega væri best að gera það rétt fyrir kosningar, eins og gripið er fram í hér af hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur.

Þeir sem hafa úttalað sig hér í kvöld um þetta mál eru eiginlega allir á einu máli um að stefna beri að því að hafa heildarpakkann undir við afgreiðslu þessa máls. Það er kallað eftir því að málið verði sent til ríkisstjórnarinnar aftur, óafgreitt héðan, þannig að hægt sé að setja þetta dæmi saman og sjá heildstæða mynd. Það er algjörlega nauðsynlegt. Ég held að við verðum að fara fram á það við hæstv. iðnrh. að þannig verði staðið að málum, málið sé ekki það aðkallandi enda búið að vinna grunnvinnuna. Og eins og ég sagði áðan vil ég halda því til haga að ég held að þetta mál hafi verið mjög vel unnið og vel kynnt í nefnd og farið í gegnum það á mjög fagmannlegan hátt. Eiga embættismenn ráðuneytisins góðar þakkir skildar fyrir það, þetta var mjög vel matreitt. Það vantar ekki, en það sem við erum að tala um hér, það sem út af stendur, er bara pólitísk sýn á það hvernig á að standa að málum. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Ég held að við gerum okkur ekki grein fyrir því almennilega hvað þessi orkumál hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni, samanber þessi dæmi sem ég var að nefna. Þetta er svo ótrúlega stór þáttur í þessum fyrirtækjum, nauðsynlegum þjónustufyrirtækjum fyrir okkar dreifðu byggðir og inni í litlum bæjum og byggðum hringinn í kringum landið, mjög nauðsynlegur. Og það sem verra er er að framleiðsluiðnaðurinn okkar ætlar ekki að komast í þá stöðu að geta notið lægra orkuverðs, og getum við þá tekið síldarbræðslurnar sem dæmi.

Ég vil loka þessu máli enn og aftur með kröfunni um það, eins og ég setti fram í nál. mínu, að frv. verði ekki keyrt fram til atkvæðagreiðslu og samþykkt í þeim búningi sem það er. Því verði vísað til ríkisstjórnarinnar, hagsmuna landsbyggðarinnar verði gætt í hvívetna með afgreiðslu á heildardæminu. Það verði ekki sett í nefnd sem er skipuð fulltrúum utan þings. Slík nefnd hefur ekki það vægi að hún geti gætt hagsmuna landsbyggðarinnar. Af reynslu veit ég að hún mun ekki geta það. Hún hefur ekki það afl. Eina aflið sem getur keyrt fram réttlæti á þeim nótum sem ég hef verið að tala um er hér, hið háa Alþingi. Hér eru kraftarnir til þess og þá á að nota.