Fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:12:13 (4972)

2003-03-13 20:12:13# 128. lþ. 100.91 fundur 503#B fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna fyrirspurnar sem ég á hér inniliggjandi til hæstv. viðskrh. um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun þar sem ég hef óskað eftir skriflegu svari. Frestur til að svara rennur út á morgun sem mun verða síðasti dagur þingsins ef við höldum dagskrá sem ég geri ráð fyrir.

Hæstv. ráðherra hefur tjáð mér í samtali að líklega muni ekki vera hægt að svara þessari fyrirspurn vegna þess hversu viðamikil hún er. Ég fer því fram á það hér, herra forseti, að hæstv. ráðherra svari a.m.k. þeim spurningum sem hún hefur svör við fyrirliggjandi nú þegar. Hæstv. ráðherra hlýtur a.m.k. að vita hver heildarkostnaður ríkissjóðs er við þá starfslokasamninga sem hæstv. ráðherra hefur gert við fyrrverandi forstjóra Byggðastofnunar og einnig hversu kostnaðarsamur sá hluti er sem varðar lífeyrisgreiðslurnar í þessum starfslokasamningum. Því fer ég fram á að hæstv. ráðherra svari á morgun þeim spurningum sem hún hefur tök á að svara áður en þingi lýkur fyrir vorið.