Fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:16:33 (4975)

2003-03-13 20:16:33# 128. lþ. 100.91 fundur 503#B fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:16]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í tilefni orðaskipta hv. 15. þm. Reykv. og hæstv. ráðherra er rétt að rifja það upp þannig að það fari ekki á milli mála að það var hæstv. ráðherra sjálf í einu og öllu sem hafði frumkvæði að þessum starfslokasamningum. Hún hafði það á orði hér að stjórn Byggðastofnunar og yfirmenn í Byggðastofnun hefðu séð um þetta. Það var ekki svo. Það var hæstv. ráðherra sjálf sem í einu og öllu tók þær pólitísku ákvarðanir sem lutu að því að leysa viðkomandi starfsmenn frá störfum, sérstaklega þann síðari, og hún tók einnig pólitíska ákvörðun um það sjálf hversu háar þær greiðslur yrðu. Það kemur því afskaplega mikið á óvart að það skuli standa í hæstv. ráðherra að svara því hikstalaust, og raunar í fyrstu umferð máls, hvað það kosti ríkissjóð að ganga til slíkra samninga. Það undrar mig.

Ég vil minna á, herra forseti, að sá frestur sem hér er mikið um ræddur er hámarksfrestur þannig að það er engin frágangssök að hæstv. ráðherra svari fyrr. En af því að við erum að ljúka þingstörfum og mér heyrist á hæstv. ráðherra að það standi eitthvað í henni að leita á skrifborðinu hjá sér um þessar upplýsingar, þá geng ég a.m.k. út frá því sem vísu að ráðherra sendi þessi svör með öðrum hætti til þingmanna þó að þingið verði farið heim því ekki trúi ég því að hún vilji liggja á þessum upplýsingum.