Fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 20:22:44 (4980)

2003-03-13 20:22:44# 128. lþ. 100.91 fundur 503#B fyrirspurn um starfslokasamninga hjá Byggðastofnun# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[20:22]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef verið að fylgjast með þessum umræðum. Ég hef ekki tekið eftir því að nokkur einasti maður hafi misst sig í salnum. Ég veit ekki hvernig það mundi lýsa sér í salnum. En eins og þetta virkar á mig og blasir við mér, þá er það þannig að hv. þm. kom of seint með fyrirspurnina vegna þess að augljóst var þegar hún var lögð fram að það var skemmri tími en tíu virkir dagar eftir af þingtímanum þannig að hv. þm. tók áhættuna af því að fyrirspurnin væri allt of seint fram komin.

Þessi starfslokasamningur, ef ég man þetta rétt, er svo gamall að þingmönnum var í lófa lagið, ef áhuginn var fyrir hendi, að koma löngu fyrr með þessa fyrirspurn þannig að hv. þm. tók áhættuna af því að fá ekki svar og við því er ekkert að segja. Það hefur enginn misst sig í málinu, ekki nokkur maður nema kannski þingmaðurinn sem missti af tækifærinu af því að hún kom of seint fram.