Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:00:46 (4998)

2003-03-13 21:00:46# 128. lþ. 100.28 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin en staðreyndin er sú að hann hefur ekki komið auga á aðalatriði málsins. Hagfræðingarnir sem hafa rannsakað þessi efni hafa bent á að eftir að sjávarútvegurinn varð margbreytilegri í vöruþróun sinni hefði hann síður orðið háður þessum miklu sveiflum en áður var, stoðirnar innan sjávarútvegsins, sjávarafurðirnar, væru orðnar fjölbreyttari en áður var. Þetta kom fram í niðurstöðum þeirra. Þegar á heildina er litið töldu þeir, og það var hreinlega sýnt fram á það, að þessir stóru póstar, sjávarútvegur og álframleiðsla, lytu svipuðum lögmálum.

Það sem við höfum verið að benda á er að stoðirnar undir atvinnulífinu þurfa að verða miklu meiri. Við skulum ekki gleyma því að það sem Framsfl. er að mæla fyrir er að álið muni nema rúmlega þriðjungi af umfangi efnahagsstarfseminnar. Það er þetta sem um er að tefla. Og það erum við sem tölum fyrir því að stoðir atvinnulífsins verði miklu fleiri og miklu fjölbreytilegri en þetta.

Síðan er það misskilningur hjá hv. þingmanni að hann eigi skoðanabræður í öllum þeim samtökum sem hann taldi upp. Það vakti athygli mína að sum þeirra samtaka, eins og Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins, sem samþykktu þessar ráðagerðir allar á upphafsstigum áður en nokkrar forsendur lágu fyrir til að meta málið eru núna farin að gagnrýna þær afleiðingar sem við höfum varað við, hátt raungengi og háa vexti. Þetta er nú staðreynd málsins. Og ég heyri ekki betur en að fulltrúar frá greiningardeildum bankanna og fulltrúar margra þeirra aðila sem hann taldi upp séu að vara við þessu núna, á þessu síðbúna stigi málsins, því miður.