Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:03:02 (4999)

2003-03-13 21:03:02# 128. lþ. 100.28 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:03]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Seint verðum við hv. þingmaður sammála um þetta, en aðalatriðið í þessu máli er auðvitað að skapa verðmæti, auka útflutningsverðmæti þjóðar. Út á það gengur öll hagfræði vegna þess að ef við getum ekki skapað verðmæti verður hér bara þjóðhagslegt gjaldþrot. Það er atvinnustefna sem ég hygg að allir aðrir flokkar en Vinstri grænir séu þá sammála um, að auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar.

Auðvitað eru menn hugsandi yfir því þegar svona mikil fjárfesting, eins og virðist vera í pípunum núna, kemur hér blessunarlega yfir og leggur grunninn að varanlegri velferð okkar. Þá hafa menn auðvitað áhyggjur af þessu, allir þeir hagfræðingar sem ég nefndi áðan frá Samtökum atvinnulífsins, ASÍ og Seðlabankanum o.s.frv. En þeir benda allir á það og eru sammála um að með styrkri ríkisstjórn sé hægt að hafa hömlur á þessari þenslu með réttum aðgerðum í ríkisfjármálum. Það hefur hin ágæta ríkisstjórn sem nú er við völd þegar sýnt með því t.d. að færa framar verkefni af samgönguáætlun sem voru áætluð 2005--2006 og slá þannig á atvinnuleysið sem er núna.

Niðurstaðan í þessu er auðvitað sú að þetta snýr að útflutningsverðmætum. Þau leggja grunninn að velferðarkerfinu og því fleiri sem stoðirnar eru, þeim mun minni líkur verða á sveiflum í atvinnulífinu. Ef verður brestur í fiskstofnum eru þó aðrar stoðir sem geta tekið þær inn í og því fleiri sem slíkar stoðir eru, þeim mun meiri stöðugleiki. Út á það gengur málið. Ég vil enn einu sinni vekja athygli hv. þingmanns á því að í samstarfi við álverin á Grundartanga og í Straumsvík hafa sprottið upp fjölmörg fyrirtæki, nýsprotafyrirtæki sem eru líka að flytja út afurðir sínar. Og sýnir það að álver leiða til fjölbreytileika.