Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:05:17 (5000)

2003-03-13 21:05:17# 128. lþ. 100.28 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef bent á það áður að frá 1970 hafa skapast hér á landi um 1.500 störf að meðaltali árlega. Aðeins brotabrot af þessu er í tengslum við þungaiðnað. Við erum að tala fyrir því einmitt að stoðunum í efnahagslífinu verði fjölgað. Við vörum við því að á þessum tveimur meginstoðum, sjávarútvegi og álframleiðslu, hvíli allt efnahagslífið. Og ég bendi á rannsóknir sem sýna að sveiflan í hagkerfinu verður enn þá meiri fyrir bragðið. Hagfræðingar hafa einfaldlega sýnt fram á þetta.

Varðandi Seðlabankann tjáði hann sig um þessi efni, og það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að Seðlabankinn taldi að hægt væri að halda utan um efnahagskerfið, þrátt fyrir þessa miklu innspýtingu, með því að hækka vexti og skera niður útgjöld. Það er þetta sem þessi virðulegu samtök eru nú (Gripið fram í.) --- um 20% talaði hann um, að skera niður útgjöld um 20%, jú, eitt árið og færa það til, það er alveg rétt, en það mundi koma sem sagt niður á opinberum framkvæmdum sem þessu nemur og þá draga úr möguleikum til þess að skapa þar störf.

Seðlabankinn tók hins vegar enga afstöðu til þess hvort þetta verkefni væri arðsamt eða ekki. Seðlabankamenn sögðu að það gæti allt eins fjallað um að reisa pýramída á Sprengisandi. Þetta væri ekki spurning um arðsemi starfseminnar. Og það er meginmálið, að auðvitað skapar álframleiðsla gjaldeyri vegna þess að álið er selt úr landi. Hins vegar er spurningin hvað situr eftir í íslenska efnahagskerfinu. Og það er þar sem við höfum miklar efasemdir og höfum spurt um það sem hagfræðingar kalla vinnsluvirði starfseminnar. Arðurinn fer allur úr landi. Hann situr ekki í íslenska hagkerfinu eins og hann hefur gert í sjávarútveginum. Þar er aldeilis ekki saman að jafna.