Orkustofnun

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:13:40 (5002)

2003-03-13 21:13:40# 128. lþ. 100.31 fundur 544. mál: #A Orkustofnun# (heildarlög) frv. 87/2003, BH
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:13]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. iðnn., hv. þm. Hjálmar Árnason, gerði grein fyrir, standa þingmenn Samfylkingarinnar í hv. iðnn. að þessu máli, þ.e. sú sem hér stendur og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir. Við stöndum að báðum þeim nál. sem koma vegna þeirra mála sem hér eru til umræðu, frv. til laga um Íslenskar orkurannsóknir og frv. til laga um Orkustofnun.

Við styðjum markmið frv. og teljum mjög mikilvægt að farið verði í það sem lagt er til í þessum frv., að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýsluhlutverki sem stofnuninni hefur verið falið með lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það er mjög nauðsynlegt til þess að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra sem mögulega skapast og óneitanlega hljóta að skapast vegna þess aukna stjórnsýsluhlutverks sem stofnuninni hefur verið falið.

Það var nokkur umræða um frv. til laga um Íslenskar orkurannsóknir, sérstaklega það, í hv. iðnn. Það má eiginlega segja að svolítið einkennileg leið sé farin í þessu frv. hvað varðar skipulag stofnunarinnar. Hún er í raun og veru, eins og fram kemur í frv., sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn iðnrh., en ráðherra skipar fimm menn í stjórn Íslenskra orkurannsókna og ákveður stjórnarlaun. Hins vegar er stofnuninni ætlað að starfa alfarið á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði og afla sér tekna með sölu á rannsóknum, ráðgjöf, þjónustu og upplýsingum eða öðrum verkefnum á starfssviði Íslenskra orkurannsókna. Það má því velta fyrir sér, herra forseti, hvort ekki hefði verið eðlilegra að stíga skrefið til fulls og gera þessa stofnun alfarið sjálfstæða í stað þess að hafa hana áfram sem ríkisstofnun því hún starfar óneitanlega á viðskiptalegum grundvelli eins og henni er ætlað en lýtur valdi ráðherra sem skipar menn í stjórn án nokkurrar tilnefningar og án nokkurra skilmála, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég tel að það hafi verið mjög til bóta að gera þá breytingu sem iðnn. gerði á frv. hvað varðar forstjóra Íslenskra orkurannsókna. Það var gert ráð fyrir því í upphaflega frv. að ráðherra mundi skipa forstjóra til fimm ára, en hv. iðnn. komst að þeirri niðurstöðu að það væri eðlilegra að forstjórinn væri ráðinn af stjórninni beint þannig að stjórnin hefði alfarið með það að gera hver væri ráðinn forstjóri hjá fyrirtækinu, frekar en að ráðherravaldið réði því.

Að öðru leyti, herra forseti, getum við fallist á frv. og teljum það vera skref í rétta átt. Hins vegar má vissulega velta fyrir sér hvort það fyrirkomulag sem hér er lagt til, að sérstök ríkisstofnun sé búin til þar sem stjórnin er alfarið skipuð af ráðherra en eigi að síður eigi hún að starfa á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði, reynist ekki flókið í reynd þegar til stykkisins kemur. Að öðru leyti, herra forseti, teljum við hv. þm. Samfylkingarinnar í iðnn. að þessi frv. séu til bóta og kannski sjálfsögð og eðlileg breyting í framhaldi af því hlutverki sem Orkustofnun hefur verið falið, hinu aukna stjórnsýsluhlutverki.