Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:31:43 (5009)

2003-03-13 21:31:43# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:31]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin sem ég vil spyrja hv. formann iðnn. er eiginlega sama eðlis. Þetta er raunar framhald af þeirri vinnu sem fram hefur farið í dag. Vinnubrögðin kristallast í þessu máli. Það virðist sem framkvæmdarvaldið, með nefndarformenn sem framlengingu af sér, líti á það sem algjört aukaatriði hvað fram fer í þessum sölum. Mér finnst grafalvarlegt hvernig farið er í málin.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann að öðru. Hann lagði í framsögu sinni mikla áherslu á að það væri ósk manna að koma á samkeppni á sementsmarkaði. Ég veit ekki betur en að verið hafi opin samkeppni á sementsmarkaði alla tíð á Íslandi. Ef ég veit rétt dró Aalborg Portland sig út af sementsmarkaði á Íslandi þegar Sementsverksmiðjan tók til starfa, um það bil ári síðar. Árið 1958 tók verksmiðjan til starfa og Aalborg Portland fór af markaði 1959, ef ég man rétt. Þannig hefur alltaf verið samkeppni á sementsmarkaði.

Það sem Sementsverksmiðjan hefur hins vegar þurft að kljást við að undanförnu eru nýjar aðferðir sem kallaðar eru ,,dumping``. Það er allt annars eðlis. Það er til að komast inn á markað að nýju og ryðja út af markaði þeim sem hafa verið á markaðnum.

Ég vil leiðrétta þetta, hafi hv. þm. ekki gert sér grein fyrir því, að hér hefur aldrei verið einokun á sementssölu.