Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 21:34:59 (5011)

2003-03-13 21:34:59# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[21:34]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður iðnn. talar um veruleikann eins og hann er í dag. Það er tekist á um þessi mál, hvernig Aalborg Portland kemur sér inn á markað. Það er á ákaflega lágu verði og þetta eru þekktar aðferðir úti um allan heim.

Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki skapað verksmiðjunni sömu möguleika og samsvarandi verksmiðju úti í Danmörku, m.a. með því að gefa verksmiðjunum hlutverk við förgun á orkuríkum úrgangsefnum og fá fyrir það peninga. Það eru þessi grunnatriði sem tekist er á um. Við höfum látið þetta fyrirtæki algjörlega afskiptalaust, sinnt því illa og glutrað niður þeim möguleikum sem hingað til hafa verið til að styrkja rekstur verksmiðjunnar á sama grundvelli og aðrar þjóðir gera, þar á meðal Danir sem eru að ryðjast hér inn á markað. Þetta hefur ekkert með eðlileg viðskipti og samkeppni að gera. Hér er verið að olnbogast áfram. Það segja allar skýrslur og greinar sem samkeppnisaðilinn hefur sent frá sér varðandi þetta mál.