Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:20:55 (5018)

2003-03-13 22:20:55# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:20]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni að þetta væri ekkert flókið mál. Ég þekki engan iðnrh., þar sem ég hef lesið um verk þeirra í nágrannalöndum, sem telur það ekki flókið mál að verja iðnað viðkomandi lands. Ég held nefnilega að þetta sé gríðarlega flókið mál og vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort ráðherranum finnist ekki flókið mál þegar önnur lönd fara að skilgreina Ísland sem heimamarkaðssvæði. Þó að hér sé um að ræða sement getur það gengið yfir allar aðrar iðnaðarvörur. Verður dæmið þá æ flóknara að mínu mati.

Svo er það spurning: Ef hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir því hvernig landið liggur varðandi samkeppni og þá áráttu fyrirtækja að sölsa undir sig markað með þeim meðulum sem þau hafa, þar á meðal undirboðum, hefur hæstv. iðnrh. þá aldrei velt fyrir sér að nota þau meðul sem t.d. Samtök iðnaðarins stungu upp á, þ.e. að setja lágmarksverð á sement í landinu um stundarsakir meðan samkeppnisstaðan er skoðuð eða auka hlutafé verksmiðjunnar t.d. eins og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði til, meðan væri verið að skoða stöðuna? Augljóslega var farið allt of seint í að skoða mál verksmiðjunnar, stöðu hennar og það hvert ríkisstjórnin ætlaði með verksmiðjuna. Því spyr ég hæstv. iðnrh.: Átti að fljóta sofandi að feigðarósi með þetta fyrirtæki ef ekki hefði verið bryddað upp á málefnum verksmiðjunnar af krafti á síðustu mánuðum? Þetta eru grafalvarleg mál og er alls ekki svo að hér sé ekki um flókið mál að ræða. Þetta er stórmál fyrir íslenskan iðnað.