Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:29:28 (5022)

2003-03-13 22:29:28# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:29]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við 1. umr. og vil því fara nokkrum orðum um þetta frv. við 2. umr. Flestir vita að Sementsverksmiðjan hefur átt í verulegum erfiðleikum á undanförnum missirum, erfiðleikum sem hafa stafað fyrst og fremst af tvennu, í fyrsta lagi mjög verulegum samdrætti í sölu vegna samdráttar á byggingarmarkaði og í öðru lagi vegna innflutnings og undirboða. Við teljum að innflutta sementið sé selt hér langt undir eðlilegu verði og það hefur leitt til þess að Sementsverksmiðjan hefur orðið að lækka sitt verð og stenst það ekki til lengdar. Það þarf því nýtt fé inn í þetta fyrirtæki.

[22:30]

Við afgreiddum við fjárlagagerðina fyrir jólin heimild til fjmrh. til að kaupa mannvirki verksmiðjunnar í Reykjavík. Það eitt og sér dugar ekki til og því er með þessu frv. gert ráð fyrir því að einkaaðilar komi að rekstrinum, komi inn með nýtt hlutafé. Það hefur verið heimild til þess í fjárlögum í allmörg ár að selja 25% af hlutafénu í Sementsverksmiðjunni. Við lögðumst gegn því á sínum tíma, þingmenn af Vesturlandi, að þessi heimild yrði hærri, en nú er í frv. gert ráð fyrir sölu alls hlutafjárins, hvort sem sú heimild verður nýtt til fulls eða ekki.

Ég er sammála þessu uppleggi að því gefnu að verksmiðjan verði rekin áfram. Fari ekki svo að verksmiðjan verði starfrækt áfram er enginn vafi á því að sementsverð mun stórhækka hér á landi, það er ekki nokkur spurning. Ég er þess vegna ánægður með þá auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í gær og hefur verið gagnrýnd hérna nokkuð, fyrst og fremst vegna tímasetningar. En það sem ég er ánægður með í þessari auglýsingu er það sem segir, með leyfi forseta:

,,Leitað er að fjárfesti sem hefur áhuga á að viðhalda rekstri fyrirtækisins, efla það og stuðla að virkri samkeppni á íslenskum byggingamarkaði.``

Mér finnst mjög skýrt hvað stjórnvöld eru að fara þarna, með hvaða hætti þau vilja selja hlutafé í fyrirtækinu, og væntanlega verður valinn sá aðili sem tilbúinn er að ganga að þeim skilmálum sem þarna eru settir. En mér skilst að það séu nokkuð margir aðilar sem hafa áhuga á að kaupa hlutafé í þessu fyrirtæki.

Ég held að þetta fyrirtæki eigi ágæta möguleika. Verksmiðjan er í mjög góðu ástandi þrátt fyrir háan aldur. Hún er nú að verða 45 ára, blessunin, en viðhald á þessu fyrirtæki hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Það hefur verið mjög gott skipulag á öllum viðhaldsmálum og verksmiðjan er í ágætu standi.

Það eru tvímælalaust miklir möguleikar fyrir þetta fyrirtæki í eyðingu úrgangsefna. Verksmiðjan hefur núna um alllangt árabil endurnýtt nær allan olíuúrgang sem fellur til í landinu og yrði annars að flytja til annarra landa. Einnig hefur verksmiðjan eytt leysiefnum og framköllunarvökva og hefur mjög mikla möguleika á því sviði vegna þess að hægt er að hita ofn verksmiðjunnar í 1.450°C sem veldur því að efnin brotna niður og valda ekki hættu eða mengun fyrir umhverfið þó að brennt sé t.d. plasti, hjólbörðum og slíku.

Flestar sementsverksmiðjur á Vesturlöndum eru komnar í þennan bransa, þ.e. að sjá um eyðingu og endurnýtingu úrgangs. Það er auðvitað mjög gagnlegt að nota þessi fyrirtæki til þess úr því að þau hafa þetta mikla hitastig í ofnum sínum. Það er því svo að við framleiðslu sements hér á landi á ókomnum árum má búast við því að hlutverk verksmiðjunnar við endurvinnslu úrgangsefna verði stöðugt mikilvægara. Það má t.d. nefna að í nánustu framtíð verður ekki leyft að farga með urðun baggaplasti, hjólbörðum og slíku drasli eins og nú er gert. Þarna liggja því mjög stór tækifæri fyrir þessa verksmiðju.

Umræðan um Sementsverksmiðjuna hefur á margan hátt verið mjög undarleg að undanförnu. Einn vill brjóta mannvirki verksmiðjunnar niður og flytja starfsemi hennar upp á Grundartanga. Nú hefur það verið reiknað lauslega að það muni kosta 500--600 millj. að eyða byggingum Sementsverksmiðjunnar ef út í það þyrfti að fara, og ef byggja ætti síðan upp aðra verksmiðju á Grundartanga er ég ansi smeykur um að þetta dæmi sé verulega óraunhæft.

Það sem verra er, þjóðkunnur ritstjóri hélt því fram í spjalli á Stöð 2 nýlega að Sementsverksmiðjan framleiddi ónýtt sement og tók sem dæmi að það hefði ekki hvarflað að mönnum að nota það í virkjanir landsmanna. Ég hef heyrt þennan sama ritstjóra segja þetta áður í sjónvarpsspjalli. Þarna eru hrein og klár ósannindi á ferðinni. Allar virkjanir landsmanna eru byggðar úr íslensku sementi sem hefur reynst frábærlega vel og það er erfitt að skilja hvað vakir fyrir mönnum að halda fram slíkum ósannindum. Staðreyndin er nefnilega sú að íslenska sementið stenst fyllilega samanburð við erlent sement.

Við umfjöllun um málið komu á fund iðnn. fulltrúar starfsmanna, Verkalýðsfélags Akraness og bæjarstjórnar auk framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Þessir aðilar lögðust ekki gegn frv. en lögðu mjög ríka áherslu á áframhaldandi starfsemi verksmiðjunnar. Sementsverksmiðjan hefur auðvitað skipt gríðarlega miklu máli fyrir Akranes og nærsveitir undanfarna áratugi. Fyrirtækið hefur veitt mjög mörgum vinnu og verið eftirsóttur vinnustaður. Starfsaldur manna þar er hár. Yfirleitt hætta menn ekki nema vegna aldurs eða veikinda. Fyrirtækið hefur haft afskaplega góða starfsmenn og trausta sem hafa verið hollir fyrirtækinu. Það hefur kannski verið einn helsti styrkleiki þess að hafa þetta stöðuga og ágæta vinnuafl. Þarna hefur átt sér stað alveg gríðarleg hagræðing. Fyrir ekki mörgum árum voru þarna milli 180 og 190 starfsmenn. Í dag eru þeir 70--80.

Fyrirtækið skiptir mjög mikið við þjónustuaðila, bæði á Akranesi og í nærsveitum, og það hefur verið talað um það í sambandi við þau frv. sem við höfum rætt að undanförnu, varðandi álverin fyrir austan og á Grundartanga að fyrir hvert starf mætti reikna með einu og hálfu afleiddu starfi, þ.e. þjónustu og slíkt. Ég hygg að það eigi einnig við um Sementsverksmiðjuna því það er mjög mikil þjónusta við þetta fyrirtæki, bæði á Akranesi og í hreppunum í kring. Þess vegna skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir þetta svæði, Akranes og Borgarfjarðarsvæðið, hvað verður um þetta fyrirtæki.

Hæstv. iðnrh. fundaði með starfsmönnum áður en málið var lagt fram á Alþingi og ég vil hæla ráðherra fyrir það. Það á auðvitað að gera þetta með þeim hætti. Það er ekki gott fyrir menn að heyra kannski fyrst í fréttum að það eigi að grípa til róttækra ráðstafana í fyrirtæki þeirra og ég tel að hæstv. ráðherra hafi gert hárrétt með því að fara og skýra þetta fyrir starfsmönnunum og eiga við þá ágætar viðræður.

Eitt af því sem þarf að athuga við sölu á þessu fyrirtæki er hvernig gengið verður frá málum við Akraneskaupstað varðandi lóð verksmiðjunnar. Bærinn lét á sínum tíma lóð undir verksmiðjuna og lagði götur endurgjaldslaust, að mér skilst, en með því skilyrði eins og segir í plöggum frá þeim tíma að þar yrði reist og rekin sementsverksmiðja. Það sýnir náttúrlega hversu mikla áherslu Akurnesingar lögðu á að fá þessa starfsemi til Akraness að lóð í hjarta bæjarins skyldi lögð undir hana. Verksmiðjan hefur reyndar verið eitt af táknum bæjarins í 45 ár, ekki síst skorsteinninn sem er eitt af hæstu mannvirkjum landsins og má geta þess til gamans að hann nýtist Akurnesingum vel sem veðurviti. Við þekkjum það, ég og hv. þm. Gísli Einarsson sem situr hérna gegnt mér, að ef við ætlum á sjó lítum við fyrst á skorsteininn til að gá á hvaða átt hann er og hvað reykurinn fer langt niður með skorsteininum en út frá því reiknum við vindstigin. Ég legg sem sagt áherslu á að gengið verði frá málum við bæinn. Það þarf að hafa svona hluti á hreinu og það verður vonandi gert.

Í því samkeppnisumhverfi sem við búum við núna held ég að eina leiðin til þess að framleiða íslenskt sement og markaðssetja það sé að gera það í fyrirtæki sem er í einkaeigu, þ.e. ekki í eigu ríkisins. Ég held að það standist varla þá samninga sem Íslendingar hafa gert um samkeppni á fjölmörgum sviðum, þar á meðal þessu, að ríkið eigi og reki verksmiðju eins og þessa í harðri samkeppni við aðra aðila. Þess vegna held ég að það skref sem hér er verið að stíga sé heillaskref og sjálfsagt og eðlilegt og ekki hægt að gera þetta með öðrum hætti.

Ég styð því þetta frv. og vona bara að öflugir aðilar komi að rekstri fyrirtækisins, aðilar sem eru staðráðnir í að reka þetta fyrirtæki og tryggja að sement verði áfram framleitt á Íslandi, enda er hér nánast um alíslenska framleiðslu að ræða. Uppistaðan í sementinu er skeljasandurinn úr Faxaflóa, líparítið úr Hvalfirði, kísilrykið af Grundartanga, raforkan, vatnið og ekki síst vinnuaflið. Þá má náttúrlega minna á það aftur að Sementsverksmiðjan nýtir úrgangsolíuna sem til fellur hér á landi sem annars yrði að flytja úr landi með ærnum tilkostnaði. Hér er því hið ágætasta mál á ferðinni sem ég tel nauðsynlegt að verði samþykkt á Alþingi fyrir þinglok því málið þolir enga bið. Staða fyrirtækisins er slík að þetta mál þarf að fást á hreint á allra næstu dögum.