Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 22:40:21 (5023)

2003-03-13 22:40:21# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[22:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að mikil samstaða er um það að reyna þá leið sem hér hefur verið gert ráð fyrir að fara, þ.e. að selja Sementsverksmiðjuna einkaaðilum og freista þess með þeim hætti að áfram verði framleitt sement á Íslandi og haldið uppi samkeppni um framboð á sementi á markaðnum á Íslandi.

Ég tel reyndar að málið sé langt frá því í hendi þó að menn hafi ákveðið að reyna þessa leið og vissulega hefði verið betra að stjórnvöld hefðu verið fyrr á ferðinni með málið og verið fljótari að taka ákvörðun um að reyna þessa leið en raun ber vitni. Það segir okkur auðvitað að ýmsir váboðar eru á leiðinni að það skuli hafa verið slíkur halli á verksmiðjunni sem verið hefur að undanförnu. Menn hafa jú gert ráð fyrir því að hallinn yrði kannski ekki svona slæmur í framtíðinni eða að þær aðstæður sem verksmiðjan yrði í yrðu kannski ekki eins slæmar og þær hafa verið undanfarið vegna þess að menn hafa ekki gert ráð fyrir því að samkeppnisverð á sementi yrði eins og það hefur verið. Aalborg Portland hefur selt sement á ótrúlega lágu verði á markaðnum og ég held að það séu fáir sem trúa því að það verð muni standa til boða um mjög langa framtíð. En hvaða verð verður á sementi í framtíðinni vitum við heldur ekki og þess vegna vitum við ekki hvort framleiðslukostnaðurinn sem er á sementi í þessari verksmiðju verður samkeppnishæfur við innflutning á sementi. Þetta ætla þeir að gera sem hafa áhuga á því að reyna sig við að reka verksmiðuna, freista þess að keppa við þá sem flytja inn. Ég er sammála því að það verði gert en ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að þeir sem ætla sér þetta muni vilja hafa ákveðinn björgunarbát til taks sem er sá að hætta framleiðslunni og flytja inn sement í staðinn ef framleiðslan stenst ekki það verð sem verður til lengdar á innfluttu sementi. Þetta er þess vegna tilraun og menn þurfa auðvitað að meðhöndla málið með það í huga að það sé ekki endilega víst að tilraunin takist. Þess vegna þarf að ganga frá málum gagnvart Akraneskaupstað þannig að menn hafi þar full tök á ef ekki verður framleitt sement í þessari verksmiðju. Það er óþolandi fyrir Akranesbæ að standa frammi fyrir því að þessi verksmiðja verði lokuð tímunum saman og að þeir sem hana eiga flytji inn sement en haldi því fram að þeir vilji hafa verksmiðjuna klára því það geti vel verið að hægt verði að framleiða sement aftur. Slík staða er ekki þolandi fyrir bæjarfélag eins og Akranes vegna staðsetningar verksmiðjunnar bókstaflega í hjarta bæjarins. Á stað eins og þessum mundi enginn láta sér til hugar koma að byggja verksmiðju af þessu tagi í dag þótt það hafi verið gert á sínum tíma. Þess vegna þarf að leggja vinnu í það að fara yfir málin með Akraneskaupstað og ganga þannig frá gagnvart þeim aðilum sem sýna áhuga á því að kaupa og reka verksmiðjuna þarna, að þar sé allt á hreinu, að allir viti nákvæmlega hvar þeir standa þegar þessi rekstur hefst í höndum þeirra sem munu fá verksmiðjuna til rekstrar.

[22:45]

Ríkið getur tryggt að hluta til þennan rekstur og það mun skipta verulegu máli ef ríkið lýsir sig jákvætt, að maður tali nú ekki um ef upp á samninga verður boðið um að eyða þarna úrgangsefnum í framtíðinni, ekki bara þeim úrgangsefnum, olíum og öðru slíku, sem hafa verið notuð í verksmiðjunni í staðinn fyrir olíu og kol heldur öðrum úrgangsefnum sem við höfum ekki enn farið að nýta okkur á Íslandi en verulega mikið fellur til af. Það hefur komið fram að menn telja raunhæft að gera ráð fyrir því að það eldsneyti sem verði notað í verksmiðjunni geti verið allt að rúmlega að 3/4 úrgangsefni og ekki þurfi þá innflutta olíu til þess að brenna í verksmiðjunni nema að 25% eða eitthvað á því bili. Þá sjá menn að eftir miklu er að slægjast bæði hvað varðar þau markmið að eyða úrgangsefnum og draga þannig úr mengun og vandamálum sem fylgja því að eyða slíkum efnum og líka að nýta þá orku sem þarna er.

Það er t.d. meiri orka fólgin í plasti eins og rúllubaggaplasti og öðru slíku en olíu. Eins er það með dekkin undir bílunum okkar. Það er meiri kraftur í þeim til brennslu heldur en í olíu þannig að þar eru á ferðinni veruleg verðmæti sem fara forgörðum á meðan þessi úrgangsefni eru ekki nýtt.

Eins og ég sagði áðan er ég ánægður með að um þetta skuli vera sú samstaða sem greinilega hefur komið fram á Alþingi. Við eigum eftir að sjá þegar á það reynir hvað menn vilja gefa mikið fyrir verksmiðjuna og það er kannski ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er að alvörutilraun verði gerð til þess að reka þessa verksmiðju til framtíðar. Við eigum auðvitað eftir að sjá viðbrögð þeirra sem núna flytja inn sement og hvort þeir ætla að halda áfram að bjóða upp á sement á því verði sem verið hefur um einhvern tíma. Það mun setja þá sem taka við þessum rekstri í vanda því að það er algjörlega ljóst að framleiðslukostnaður á sementi í verksmiðjunni núna er hærri en svo að hægt sé að keppa við það verð sem er í gangi. Ég geri því ráð fyrir því að sá tími sem þeir sem kaupa verksmiðjuna taka sér til þess að láta reyna á þennan rekstur muni ekki verða ótakmarkaður. Ég geri ráð fyrir að þeir sem ætla sér að gera þessa tilraun vilji samstarf við erlenda sementsframleiðendur. Það tel ég nauðsynlegt. Ég tel að enginn geti keypt þessa verksmiðju til þess að láta reyna á þetta af neinu viti, þ.e. að ekki sé hægt að gera það nema vera í samstarfi við erlenda framleiðendur sements vegna þess að auðvitað þarf þá baktryggingu að geta boðið innflutt sement ef rekstrarkostnaður framleiðslunnar hér verður hærri en það verð sem samkeppnisaðilar bjóða. Ég held að það sé þetta sem samkeppnisaðili verksmiðjunnar á markaðnum núna þurfi að sjá, hann þurfi að sjá alvörusamkeppni inn í langa framtíð og gera sér grein fyrir því að það verð sem hann býður verður að vera byggt á raunhæfu samkeppnisumhverfi inn í framtíðina. Þetta er ég að vona að gerist með þeim aðilum sem hafa sýnt áhuga á verksmiðjunni og að við fáum þess vegna alvörutilraun til að framleiða og þá flytja inn sement ef í harðbakkann slær sem er auðvitað hugsanlegt.

Ég veit að allir á Akranesi, bæði bæjafélagið, starfsmenn verksmiðjunnar og bæjarbúar, vilja mjög gjarnan að þessi tilraun takist. En ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir vilji líka að öryggisnetin séu í lagi hvað varðar verksmiðjuna og bæinn sjálfan ef það bregður til beggja vona með rekstur Sementsverksmiðjunnar í framtíðinni.

Ég ætla svo sem hvorki að halda hér langa ræðu né teygja lopann yfir þessu máli. Mér finnst að menn séu að gera tilraun sem full ástæða er til að gera. Það hefði átt að leggja af stað í þessa göngu fyrr. En það þýðir ekki að tala um að núna. Ég vona bara að þetta gangi vel og ég vona að ríkisstjórnin standi sig í því að vera tilbúin gagnvart þeim aðilum sem ætla sér í þennan rekstur með samning um förgun úrgangsefna þannig að þeir sem hafa áhuga á því að reyna þetta hafi í höndum sér þann stuðning sem hægt er að veita sem hefur þá rökstuðning í förgun þessara úrgangsefna því það mun sannarlega líka kosta fjármuni að gera það annars staðar. Við munum ekki sleppa undan því lengur að standa okkur í því að farga hjólbörðum, rúllubaggaplasti og öðru því um líku þannig að það má kosta eitthvað. Nú hefur reyndar verið komið á fót sjóði eða það er búið að samþykkja á Alþingi lög um gjald af slíkum efnum sem hægt er að nýta að einhverju leyti til þess að koma til móts við þá sem taka að sér að eyða þessum efnum. Ríkisstjórnin hefur því þá hluti í sínum höndum. Hún getur líka, að svo miklu leyti sem menn hafa ekki séð nákvæmlega fyrir hvernig þessi framtíð verður, auðvitað skrifað undir einhvers konar viljayfirlýsingu um samkomulag inn í framtíðina um að farga þessum efnum þannig að þetta fyrirtæki hafi þá þetta hlutverk í hendi sinni og menn muni geta aukið verkefni til þessa fyrirtækis á grundvelli slíks samkomulags á næstu árum. Ég held þess vegna að full ástæða sé til að reyna að styrkja möguleika þeirra sem taka við verksmiðjunni til að reka hana því að ég efast ekki um að menn þurfi á öllu sínu að halda til þess að þessi tilraun takist. Ég ætla svo að hafa það mín lokaorð að ég vona sannarlega að hún geri það.