Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 23:23:01 (5026)

2003-03-13 23:23:01# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[23:23]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson svaraði sér eiginlega sjálfur þegar hann sagði að líklega væri sölutilkynningin komin vegna þess að verksmiðjan væri alveg komin í þrot og sýndi þar með hug eigandans til hennar á undanförnum mánuðum. Hv. þm. svaraði sér best sjálfur með því sem hann sagði í andsvari sínu. Já, og það var einmitt það sem starfsmenn Sementsverksmiðjunnar sögðu. Þeir sögðu að það gæti varla versnað þó að nýr eigandi kæmi að þannig að hv. þm. svaraði sér sjálfur í þessu máli.

Ég leyfi mér að inna hv. þm. eftir því ... (Gripið fram í.) Hv. formaður iðnn. ætti nú að huga að því með hvaða hætti auglýsingin fór út um sölu verksmiðjunnar á meðan hann var enn með málið í höndum. En það sem ég ætlaði að inna hv. þm. Guðjón Guðmundsson eftir var --- hvað ef við hefðum sett lágmarksverð eða tryggt eitthvað stöðu verksmiðjunnar meðan þetta mál stendur yfir? Eða hvernig eigum við að standa að málarekstri, hvernig eigum við að fá skaðabætur ef innflutningsaðilinn, sem hv. þm. minntist á að hefði beitt hér meintum samkeppnisbrögðum, verður síðan uppvís að því, ef hann reynist nú sannur að því og bótaskyldur? Hvernig förum við að því að innheimta þær bætur? Ég hefði talið afar mikilvægt að íslenska ríkið sé ekki að taka áhættu með því að standa á rétti sínum gagnvart verksmiðjunni og möguleikum hennar.