Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 23:29:39 (5029)

2003-03-13 23:29:39# 128. lþ. 100.33 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, GE
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[23:29]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegi forseti. Mér er enginn hlátur í hug þegar verið er að fjalla um þetta mál. Mér finnst þetta ekki vera gamanmál og allra síst til að fjalla um það á þann veg. Um er að ræða fyrirtæki þar sem fjölmargir menn hafa starfað í gegnum árin. Sá sem hér stendur vann í þessu fyrirtæki í 30 ár og ég get ekki sagt að ég geti tekið undir neitt sem þýðir gamanmál í kringum þetta og er ég þó ekki þunglyndur.

[23:30]

Sannfæring mín er sú að starfsemi Sementsverksmiðjunnar hafi alla tíð verið til hagsældar fyrir alla Íslendinga. Við framleiðslu og afgreiðslu sements frá Sementsverksmiðjunni hafa fjölmargir mætir menn unnið frá upphafi. Elstu starfsmenn eiga þar 47--48 ár að baki, frá byggingartíma, og sá sem var með lengstan starfsaldur hætti störfum seint á síðasta hausti. Því fólki sem hefur gefið þessu fyrirtæki alla sína starfsævi er margt heilagt í því.

Ég var, eins og ég sagði áður, starfsmaður í þessu umrædda fyrirtæki í 30 ár, allt frá því að ég hóf störf og lauk síðan iðnnámi og ferðaðist á vegum fyrirtækisins, flutti erindi, m.a. erlendis, sem ég gæti hæglega flutt hér, til þess að kynna fólki hvað verið var að gera, (ÁRJ: Segðu okkur frá því.) bæði á dönsku og ensku, hv. þm. Hjálmar Árnason. Það fjallaði um fyrirbyggjandi viðhald og starfsemi í svona fyrirtæki sem þótti vera dæmigert fyrir önnur og stærri fyrirtæki um á hvern hátt mætti ná fram hagkvæmni í rekstri. Ég var með í því að vinna að byggingarframkvæmdum, allt frá því að vera með í framleiðsluferli og viðhaldi véla og búnaðar og endaði með því að setja upp viðhaldsstýrikerfi á þann máta sem nýttur er í sementsverksmiðjum og er best þekktur og virtur, sem byggist á því að viðhaldi er stýrt. Það er hugmynd byggð á þekkingu, reynslu og færni fjölmargra úr sementsiðnaði víða að úr heiminum. Þetta eru að sjálfsögðu bara atriði sem flögra upp í hugann þegar maður veltir fyrir sér breytingum á háttum í rekstri þessa fyrirtækis sem við erum að fjalla um. Í ræðu sem ég flutti við upphaf málsins gerði ég grein fyrir ýmsum meginatriðum, m.a. því að ég stæði með þessari aðgerð. Ég rakti þá að samkeppnisaðstæður hafa skapað allt annað umhverfi en þegar sá sem hér stendur lagðist eindregið gegn því að veitt væri heimild til að selja meira en 25% hlut í fyrirtækinu.

Sementsframleiðsla er ein elsta efnisframleiðslugrein sem menn hafa fengist við. Það eru aldir síðan menn fundu það út að bindiefni sem varð til úr blöndu af kalki, kísilsteinefnum og gifsi hentaði vel til þess að binda saman hin svokölluðu íblöndunarefni sem notuð eru til steypuframleiðslu. Íblöndunarefnin samanstanda af sandi, möl, sementi og vatni í meginatriðum. (ÁRJ: ... steypuskemmdir.)

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir var að ræða um það sem hún hefur enga þekkingu á, þ.e. steypuskemmdir sem komu fram og var talið að sementi væri um að kenna. Það er ástæða til að leiðrétta þetta hér og koma því inn í þingsöguna að þessar steypuskemmdir komu fram vegna þess að farið var að nota óþvegin sjávarefni í blöndu á sementi. Þetta þekki ég miklu betur en hv. þingmaður og get fullyrt og staðið við það. Það kom síðan í ljós að þegar þessi steypuefni komust í snertingu við mikið súrefni eins og gerist þegar rignir urðu til útfellingar, fyrst og fremst vegna þeirra íblöndunarefna sem notuð voru í steypuna. Það er ágætt að fá tækifæri til þess að leiðrétta þennan landlæga misskilning. Sementið íslenska stenst fyllilega samanburð við aðrar sementsgerðir og aðra sementsframleiðslu í heiminum. Ef eitthvað er er það betra að gæðum, enda styðst ég þarna við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sem hefur gert úttekt og rannsóknir á íslensku sementi frá upphafi vega, þ.e. síðan Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins var sett á laggirnar.

Það er ekki nóg með að framleitt hafi verið úrvalssement í Sementsverksmiðjunni, heldur er fyrirtækið eitt af þeim sem hafa verið í mjög góðu viðhaldi alla tíð. Þeir meistarar sem lögðu grunn að viðhaldsstjórnun gerðu það þannig að það var sem þeir ættu fyrirtækið sjálfir.

Það er auðvitað ástæða til, virðulegur forseti, að ræða um breytingar og hagræðingar sem orðið hafa á starfstímanum. Það er getið um það í því frv. sem hér er lagt fram að um mikla hagræðingu hafi verið að ræða á byggingartíma fyrirtækisins. Þess er getið að starfsmönnum hafi fækkað úr 185 niður í 70--80. Þessi framsetning byggist á mjög mikilli vanþekkingu. Þessi starfsmannafjöldi var í fyrirtækinu vegna þess að menn voru ráðnir til uppbyggingarstarfs þegar verið var að byggja og breyta Sementsverksmiðjunni í fyrirtæki sem framleiddi sementsgjall með kolabrennslu, myndaði gas með kolabrennslu í stað gass með olíu. Strax þegar því var lokið fækkaði fólki þarna en menn hafa einhverja ánægju af því að reyna að setja það upp sem svo að einhver gífurleg hagræðing hafi farið fram. Sú hagræðing sem um er að ræða fór fyrst fram þegar menn tóku tölvustýringu í notkun, þá var hægt að fjarstýra frá einum stað, fylgjast með og hafa vöktun, og þá var hægt að fækka fólki. Þannig varð sú hagræðing sem menn hafa verið að fjalla um.

Virðulegur forseti. Komið er að afgreiðslu þessa máls frá Alþingi. Meðan Sementsverksmiðjan var ein hér á markaði stóð ég, eins og ég sagði áður, að því að Sementsverksmiðjan yrði að mestu leyti í eigu ríkisins en síðustu tvö árin hefur ríkt hér hörð samkeppni við Aalborg Portland, fyrirtæki sem undirritaður var í framhaldsnámi hjá. Sennilega get ég státað af því að vera einn af fáum sem hafa fengið sérhæfingu í vélaviðhaldi fyrir sementsverksmiðjur. Aalborg Portland er í eigu F.L. Smidth og það sem er undarlegt við það er að F.L. Smidth hefur verið helsti ráðgjafi og umboðsaðili Sementsverksmiðjunnar frá upphafi vega. Mér er til efs, virðulegur forseti, að það standist samkeppnislög að fyrirtækið Aalborg Portland sem núna ræðst af hörku gegn Sementsverksmiðjunni sé í eigu helsta ráðgjafa og umboðsaðila Sementsverksmiðjunnar. Því miður hefur ekki verið leyst úr þessum málum og ég sé ekki fram á að það verði gert. Þess vegna vil ég segja það, virðulegur forseti, að ég vona að sú þekking, reynsla og færni sem býr í starfsfólki Sementsverksmiðjunnar verði nýtt af nýjum eigendum til framleiðslu á gæðavöru eins og íslenska sementið hefur reynst vera. Nú vísa ég aftur til rannsóknarniðurstöðu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.

Sementsgjall er brennt við 1.250--1.300 gráðu hita og það er hægt að auka hitann í gjallofninum eða sementsofninum upp í 1.400--1.450 gráður að algjöru hámarki. Það sem gerist er að ekki er hægt að fara mikið hærra áður en þarf að skipta um einangrunarstein sem er þá langtum dýrari en það sem notað hefur verið. Þessi hiti gerir það að verkum að sementsverksmiðjur, ekki síst þessi, eru hæfasta einingin til að eyða úrgangsefnum, bæði með tilliti til þess að þarna er um mikinn hita að ræða og síðan þarf háan skorstein eins og skorsteininn á Akranesi. Hann er 67 m hár og hentar þess vegna mjög vel til að eyða úrgangsefnum.

Ég hef þá trú að hægt sé að grípa til sérframleiðslu á sementi í þessari verksmiðju ef menn vildu leita eftir því. Ég er ekki viss um að menn hafi skoðað þá hluti eins og skyldi á starfstíma fyrirtækisins. Það var í eina tíð framleitt svokallað Faxasement, sérstaklega sýruþolið sem hentaði mjög vel í súran jarðveg. Það var mikið notað á árum áður og dugði vel. Síðan er framleitt þarna hefðbundið Portlandssement og hraðsement. Allt sement er framleitt að mestum hluta úr íslenskum hráefnum. Þess vegna hlýtur Sementsverksmiðjan miðað við allar þekktar staðreyndir að eiga framtíðarmöguleika.

Þegar Sementsverksmiðjan var stofnuð á árinu 1955 og hafin bygging fyrirtækisins sáu menn fyrir sér að þarna væri hagfelld leið til þess að koma í veg fyrir gjaldeyrisútstreymi, sem og varð og hefur verið þangað til á síðustu árum. Eins og við vitum hefur Aalborg Portland skilgreint íslenska sementsmarkaðinn sem heimamarkað sinn og það undarlega er að þessi sementsverksmiðja, Aalborg Portland, sem ég þekki mætavel til enda starfsmaður þar í liðlega eitt og hálft ár, flytur með sama skipinu sement til Færeyja. Þar er landað sementi og tonnið er selt nokkur þúsund krónum dýrara í Færeyjum en það sem flutt er áfram til Íslands og landað hér. Og það er alveg sama hvernig menn tala um hagkvæmni stærðar markaðarins, menn geta ekki sett þetta fram þannig. Ég er alveg sannfærður um að þar fer ég með rétt mál.

[23:45]

Ég hef miklar áhyggjur af því að ef sementsframleiðslu verður ekki haldið áfram í verksmiðjunni eins og hún er núna verði sementsiðnaður í þeirri mynd sem við þekkjum kominn á síðustu skrefin. En ég trúi því ekki að svo verði vegna þess að þetta hlýtur að vera einstaklega hagkvæmt fyrir hráefnissala svo sem Björgun hf. sem dælir upp kvartssandi úr Faxaflóa. Síðan er verið að flytja líparít talið í þúsundum tonna úr Hvalfirði til framleiðslu sements. Það hlýtur að vera þegar upp er staðið hagfelld og hagkvæm framleiðsla fyrir landsmenn þar sem gæðin eru fullkomin miðað við alla staðla sem þekktir eru við framleiðslu á sementi.

Hér hefur nokkuð verið rætt um ótímabæra auglýsingu sem þó er sett fram með fyrirvara um samþykkt Alþingis. Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að gera mikið úr því máli. Ég tel að það þurfi að ganga eins hratt til verks héðan frá og unnt er vegna þess að svo mikil óvissa er um rekstur þessa fyrirtækis og svo mikil óvissa er hjá starfsmönnum að henni þarf að ljúka. Ég get að vissu leyti tekið undir það að það hefði þurft að ganga hraðar til verks. Þó tek ég undir með hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni, að samskiptaleiðir voru einfaldaðar með því að skipa núverandi stjórnarformann. Ég hygg því að menn hafi farið þær leiðir sem þeir telja vera skynsamlegastar í þessu máli og af þeirri ástæðu hafi komið fram þessi auglýsing sem nokkuð hefur verið fjallað um að hafi verið ótímabær. En ég ætla ekki að taka undir neitt því um líkt.

Ég veit að starfsfólkið í Sementsverksmiðjunni hefur miklar áhyggjur sem eðlilegt er. Þarna er um að ræða 70 starfsmenn og það vill svo til að sá sem hér stendur þekkir hvern einasta starfsmann með nafni og hefur starfað með mörgum þeirra um langt árabil. Það vill svo til að sá sem hér stendur þekkir hvern einasta starfsmann Sementsverksmiðjunnar frá upphafi vega, bæði þá sem lífs eru og liðnir. Þetta mál er því miklu alvarlegra en svo fyrir mér en að ég geti tekið undir það að menn séu að gantast eitthvað yfir þessu, jafnvel þó að næturgalsi sé í mönnum.

Eins og ég sagði, virðulegur forseti, hef ég flutt nokkur erindi um rekstur viðhalds í svona fyrirtæki og mér er kunnugt um að það hefur verið tekið frá þessu fyrirtæki margt til fyrirmyndar, einmitt í þeirri sementsverksmiðju sem núna er að setja Sementsverksmiðjuna á Akranesi á hnén eða reyna að knýja hana til stöðvunar.

Það er mikill munur á umgengni í þessum stóru risaverksmiðjum þar sem keyrt er með lágmarksfjölda starfsfólks. Það breytir engu hvort ofninn framleiðir 3.500 tonn eða 300 tonn, það þarf ekkert fleiri menn. En það þarf meiri umhirðu. Þessir ofnar standa úti á víðavangi erlendis. Vegna veðurfarsaðstæðna þarf ekki að byggja yfir þá eins og þurfti hér. Því verður þetta allt saman ódýrara í rekstri. Ég gæti haldið áfram að rekja fjölmörg atriði sem gera það að verkum að margt er dýrara í svona lítilli verksmiðju en stórri. En það ætla ég ekki að gera. Meginefnið er þetta frv. sem við ræðum. Meginefnið er hvort rétt sé að selja fyrirtækið í hendur einstaklingum. Ég segi já við því, virðulegur forseti, vegna þess að ég tel að þeir séu hæfari til að berjast á þeim markaði sem er núna. Ég vona að orð mín reynist rétt. Þess vegna, virðulegur forseti, mun ég styðja frv. hæstv. iðnrh. eins og það er fram lagt.