Svar við fyrirspurn um fæðingarorlof

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 10:31:53 (5067)

2003-03-14 10:31:53# 128. lþ. 101.91 fundur 508#B svar við fyrirspurn um fæðingarorlof# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[10:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í svari félmrh. til mín í vikunni um fæðingarorlof kveður hæstv. ráðherra upp úr með það með ítarlegum rökstuðningi að Fæðingarorlofssjóður eigi að greiða orlofsgreiðslur með síðustu greiðslu í fæðingarorlofi. Það er ástæða til að þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar.

Mikilvægt er áður en þing fer heim að fá nánari vitneskju um það hvernig ráðherrann ætlar að standa að framkvæmdinni. Það er engum vafa undirorpið í mínum huga, og hef ég látið fleiri en einn lögfræðing skoða það, að eftir að þessi úrskurður ráðherra liggur fyrir er ekki hægt að komast hjá því að greiða öllum þeim sem tekið hafa fæðingarorlof frá gildistöku nýju laganna orlofsgreiðslur afturvirkt.

Ég vil spyrja ráðherrann sérstaklega hvort ekki sé tryggt að allir foreldrar sem hafa verið í fæðingarorlofi frá gildistöku laganna og ekki hafa fengið orlof fái þær greiðslur úr orlofssjóði. Jafnframt spyr ég hvenær megi vænta þess að Tryggingastofnun ríkisins fái þær leiðbeiningar um framkvæmdina sem hún hefur kallað eftir, m.a. hvernig háttað verði greiðslum orlofslauna vegna áranna 2001 og 2002 en ráðherra hefur opinberlega lofað skjótu svari við þessari beiðni Tryggingastofnunar. Ég spyr hæstv. ráðherra einnig um það hvort Fæðingarorlofssjóður sé að óbreyttu í stakk búinn til að taka á sig þessar greiðslur.