Orkustofnun

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 11:01:01 (5075)

2003-03-14 11:01:01# 128. lþ. 101.9 fundur 544. mál: #A Orkustofnun# (heildarlög) frv. 87/2003, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[11:01]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan þegar ég hóf mál mitt um Íslenskar orkurannsóknir er erfitt að skilja þetta tvennt að, þ.e. annars vegar Orkustofnun og hins vegar hina nýju stofnun sem á að heita Íslenskar orkurannsóknir. Það er erfitt vegna þess að við fjöllum um hvernig fyrirhugað er að skipta Orkustofnun, fyrirtæki sem við höfum þekkt um nokkra hríð, upp vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu.

Orkustofnun hafa verið falin mörg ný hlutverk á síðustu árum. Því er talin ástæða til að taka rannsóknahlutann undan stofnuninni til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem gæti falist í því að rannsóknasvið stofnunarinnar veiti þjónustu á ákveðnu stigi og komi að mótun verkefna sem orkumálasviðið gæti á seinni stigum þurft að veita stjórnvöldum umsögn um. Það má segja, herra forseti, að það sé til fyrirmyndar að fara að eins og hér er gert, þ.e. að skipa nefnd með valinkunnum einstaklingum til þess að sortera þetta þannig að sem flestir geti verið sáttir þó að eitthvað sæti gagnrýni. Menn hafa kannski ekki trú á rekstrarforminu, alla vega ekki um lengri tíma eins og ég gat um áðan varðandi Íslenskar orkurannsóknir.

Það sætir einnig tíðindum, auk þess að rannsóknasviðið, einkum jarðhitarannsóknirnar, eru færðar undan Orkustofnun. Á sama tíma er verið að setja Orkusjóð aftur undir Orkustofnun. En eins og menn þekkja var fyrir örfáum árum brugðið á það ráð að taka Orkusjóð undan Orkustofnun og skipa framkvæmdastjóra yfir sjóðnum. Á þeim tíma þótti ástæða til að ætla að hagsmunaárekstrar gætu orðið á milli sjóðsins og stofnunarinnar. Eðlilegt þótti að Orkusjóðurinn væri þannig sjálfstæðari við hlið stofnunarinnar. Nú hefur það orðið niðurstaðan í allri þessari endurskoðun að Orkusjóður eigi heima í skjóli Orkustofnunar. Þar af leiðandi er frv. á þann veg að Orkusjóður verði þar og Orkustofnun annist daglega umsýslu hans.

Iðnn. gerir smávægilegar brtt. við þau ákvæði um Orkusjóð sem eru í frv., raðar greinum upp og undirstrikar tiltekna hluti sem framsögumaður nál. iðnn. rakti hér í gær. Ég ætla ekki að fara frekar yfir það.

Eins og ég gat um áðan er þetta frv., rétt eins og frv. um Íslenskar orkurannsóknir, niðurstaða eða úrvinnsla úr niðurstöðum nefndar sem hæstv. iðnrh. skipaði á árinu 2001 til að fara yfir þessi mál. Nefndin var undir forustu Páls Hreinssonar prófessors. Í erindisbréfi þessarar nefndar, það er kannski gott að fara yfir það til að menn átti sig á því nákvæmlega hvert hlutverk nefnarinnar var, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Orkustofnun hefur verið falið aukið stjórnsýsluhlutverk með lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

Í frumvarpi til raforkulaga sem ráðherra hefur lagt fram til kynningar á Alþingi og ráðherra mun leggja fram á ný á komandi haustþingi er gert ráð fyrir að stjórnsýsluhlutverk Orkustofnunar aukist enn til muna. Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýsluhlutverki sem stofnuninni hefur verið falið og hlutverki hennar samkvæmt frumvarpi til raforkulaga og koma með tillögur um framtíðarskipulag stofnunarinnar. Nefndin skal meta hvernig hið aukna stjórnsýsluhlutverk samræmist núverandi skipulagi og hvort og þá hvernig þörf sé að breyta eða aðlaga skipulagið að breyttu hlutverki.

Sérstaklega skal nefndin athuga hvort nauðsynlegt sé að aðskilja orkumálahluta stofnunarinnar frá orkurannsóknahluta hennar, að hluta eða öllu leyti. Ef svo er skal nefndin koma með tillögur um í hvaða formi orkurannsóknahlutinn skuli rekinn í framtíðinni.``

Herra forseti. Þetta gekk eftir eins og ég rakti áðan í umfjöllun um frv. sem var á dagskrá hér á undan þ.e. frv. um Íslenskar orkurannsóknir.

Það hefur komið fram að rannsóknasviðið, sem enn er hluti Orkustofnunar, keppir á samkeppnismarkaði. Enda þótt keppinautarnir séu enn þá bæði fáir og smáir er ákaflega líklegt að þróunin verði svipuð og orðið hefur á vatnsorkusviðinu, þ.e. að einkamarkaðurinn, jarðfræðistofur og verkfræðistofur og aðrir, hasli sér í auknum mæli völl á jarðhitasviðinu og þannig verði sú samkeppni sem þegar örlar á virkari en hún er núna. Það er, herra forseti, m.a. ástæða þess að ákveðið var að skipta þessu upp.

Orkustofnun hefur auðvitað gegnt ýmsum nauðsynlegum og merkilegum hlutverkum. Eitt af því sem Orkustofnun hefur innan vébanda sinna og menn veltu fyrir sér hvort ætti að taka út úr stofnuninni, jafnvel gera að sjálfstæðri stofnun, eru Vatnamælingar. Vatnamælingar sinna rekstri vatnshæðarmælakerfisins, bæði þess sem ríkið kostar auk ýmissa mælistöðva sem kostaðar eru af öðrum. Það eru einkum orkufyrirtækin, fyrst og fremst Landsvirkjun, sem hefur verið mikilvirkust í virkjunum hér á landi, sem hafa falið vatnamælingum Orkustofnunar rekstur mæla, þá nær einvörðungu á vatnasvæðum sem þau hafa þegar fengið umráð yfir. Þar fyrir utan stunda vatnamælingar jöklarannsóknir, aurburðarrannsóknir og grunnvatnsrannsóknir. Vatnamælingar hafa líka haslað sér völl í flóðavöktun sem að stærstum hluta hafa verið kostaðar af Vegagerðinni en einnig af sérstökum tímabundnum fjárveitingum í kjölfar Skeiðarárhlaups.

Það telst til nýmæla að vatnamælingar hafa boðið í verkefni erlendis, þar á meðal þrjú verkefni í Mósambík. Það er svo, herra forseti, að þetta svið Orkustofnunar er sjálfbært. Vatnamælingar eru sjálfbærar. Þar vinnur á þriðja tug einstaklinga við þau verkefni sem ég hef rakið. Þetta verkefni er sjálfbært og niðurstaða þeirra sem fóru yfir málið var að ekki væri ástæða til þess að ætla að um samkeppni yrði að ræða á þessu sviði og því væri í lagi að vatnamælingar yrðu áfram hluti Orkustofnunar. Það var einnig vilji starfsmanna.

Eins og ég gat um áðan hefur orkumálasvið Orkustofnunar skipst í tvo meginhluta, þ.e. annars vegar orkumálasvið og Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Á orkumálasviðinu eru síðan tvær deildir, orkubúskapardeild og auðlindadeild, sem auðvitað hafa með sér mikla samvinnu. Orkustofnun er býsna stór stofnun, herra forseti. Hún hefur þó kannski ekki vaxið sérstaklega mikið og hefur verið verðlaunuð fyrir góða stjórnsýslu. En aðalhlutverk auðlindadeildarinnar hefur verið að ráðstafa fé ríkisins til orkurannsókna. Rannsóknaverkefnin eru skilgreind og samið um framkvæmd þeirra, ýmist við rannsóknahluta Orkustofnunar eða við aðra aðila. Rannsóknir og þjónusta hefur verið keypt af öðrum aðilum. Síðan eru þessar niðurstöður lagðar til grundvallar þegar stofnunin þarf að gefa stjórnvöldum ráð.

Eins og fram hefur komið hefur rammaáætlun tekið mikinn hluta af vinnu auðlindadeildarinnar við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þó að mikil vinna hafi verið sett í rammaáætlun hefur vinna við hana ekki gengið eins hratt og menn höfðu ætlað og óskað hefur verið eftir. Hér á hinu háa Alþingi hafa menn ítrekað kallað eftir rammaáætlun, bæði á síðasta þingi og þessu í umfjöllun um orkumálin og þær virkjanir sem ríkisstjórnin hefur sóst eftir að fá samþykki fyrir á hinu háa Alþingi. Fyrir ári var það Kárahnjúkavirkjun og í ár höfum við hins vegar fengist við, þó það sé ekki afgreitt enn, virkjanir á Nesjavöllum, í Svartsengi og Norðlingaölduveitu. Í framtíðinni munum við væntanlega sjá virkjanir neðar í Þjórsá sem þá verða hagkvæmar vegna Norðlingaölduveitu. Þær verða áreiðanlega að veruleika síðar en það verður í breyttu lagaumhverfi. Ákvörðun um leyfisveitingar til þeirra virkjana mun ekki fara í gegnum Alþingi, heldur mun iðnrh. veita þau leyfi.

Ég vék að Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem við höfum verið afar stolt af og notaður var sem eins konar módel þegar við sóttumst eftir forstöðu í sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem varð úr. Kennsla Jarðhitaskólans fer að mestu fram á Orkustofnun en að hluta fer hún auðvitað líka fram utan stofnunarinnar. Það kemur fram í upplýsingum um Orkustofnun að það séu einkum sérfræðingar á rannsóknasviði stofnunarinnar sem sinna kennslunni og Jarðhitaskólinn greiði fyrir þá þjónustu. Kostnaður við skólann skiptist þannig að um 85% eru greidd af fé utanrrn. til þróunaraðstoðar, um 10% koma frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna sjálfum en afgangurinn er tilfallandi tekjur stofnunarinnar. Það er ástæða til að geta þess, herra forseti, að nýverið hefur verið hafið meistaranám við skólann í tengslum við Háskóla Íslands. Í þessu námi hefur því verið áhugaverð þróun.

Sá sem stýrir þessari stofnun er titlaður orkumálastjóri. Hann er framkvæmdastjóri Orkustofnunar, eins og segir í orkulögum, heyrir undir iðnrh. og á því mun ekki verða breyting þótt lögum um stofnunina verði breytt.

Herra forseti. Það skiptir auðvitað máli þegar verið er að taka grónar stofnanir eins og Orkustofnun og skipta þeim upp. Það er gott ef það gerist með friðsamlegum hætti eins og hér hefur verið reynt. Það hefur verið reynt að vinna þessar breytingar í samvinnu við starfsmenn og sjá til að þeir væru sáttir við þau skref sem á að stíga. Þó að einhverjum kunni að finnast skrefin stutt að þessu sinni og óttist að herða þurfi gönguna fljótlega þá skiptir máli að slíkar breytingar verði í tiltölulega rólegu og yfirveguðu umhverfi. Öllum hlutum þarf að vera eðlilega fyrir komið.

Eftir að hafa skoðað þessi mál, þ.e. bæði frv. um Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir, er niðurstaða okkar, fulltrúa Samfylkingarinnar, að vel hafi verið að verki staðið og þar af leiðandi skrifum við undir nál. iðnn. um Orkustofnun án nokkurs fyrirvara. Það sýnir viðhorf okkar til þeirrar vinnu sem hér liggur að baki.