Virðisaukaskattur

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 11:33:17 (5085)

2003-03-14 11:33:17# 128. lþ. 101.19 fundur 669. mál: #A virðisaukaskattur# (hafnir, hópferðabifreiðar) frv. 77/2003, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[11:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til tvær aðskildar breytingar á lögunum. Í fyrsta lagi er lagt til að hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags, eins og þær eru nánar skilgreindar í frumvarpi til hafnalaga sem nú liggur fyrir þinginu, verði virðisaukaskattsskyldar en það er ein meginforsenda þeirrar nýju skipanar hafnamála sem lögð er til í frumvarpinu. Í annan stað er lagt til að gildandi heimild samkvæmt ákvæði til bráðabirgða X í lögunum um virðisaukaskatt, sem fjallar um heimild til endurgreiðslu 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003, verði framlengd til 31. desember 2005.

Undir nál. rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson, Hjálmar Árnason, Adolf H. Berndsen og Jóhann Ársælsson.

Hv. þm. Árni R. Árnason og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.