Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:02:57 (5090)

2003-03-14 12:02:57# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:02]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega með ólíkindum að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skuli vera með þennan málflutning. Ég held að honum hafi orðið mismæli á þegar hann sagði að nú væri verið að snúa frá ríkisstyrkjum sem aðaltekjum hafnanna yfir í aflagjald. Aflagjaldið hefur alltaf verið við lýði. Það er verið að hækka það um 0,78%. Er ekki eðlilegt að þeir sem kaupa þjónustu hjá höfnum borgi sem næst sanngjarnt kostnaðarlega fyrir þá þjónustu sem þeir fá?

Ég vil benda á annað. Ég kallaði fram í fyrir þingmanninum, og bið hann afsökunar á því, vegna þess að hann ætlaði ekki að gera það sem skiptir öllu máli. Það eru sífelldar tilvitnanir til bréfa frá því í ársbyrjun 2002. Hv. þingmenn, takið þið eftir þegar hv. þm. Jón Bjarnason kemur hér á eftir og flytur sitt minnihlutaálit. Þá mun það speglast í öllu hans máli að hann er að vitna til bréfa frá því í ársbyrjun 2002. Gjörbreyting hefur orðið á þessu frv. Bara af því að hv. þm. nefndi Grindavík þá ætla ég að nefna hér nokkrar tölur.

Á árunum 2003--2006 verður þar unnið við viðlegumannvirki fyrir 196 milljónir. Aðrar framkvæmdir eru upp á 80 milljónir. Samtals erum við hér að tala um 665 millj. kr. framkvæmd í Grindavík. Ríkisstyrkurinn verður 438 milljónir. Það eru 100 milljónir á þessu tímabili sem menn þurfa jú að finna flöt á. En hér er talað eins og verið sé að klippa á lífskeðju hinna dreifðu byggða og að ríkisstjórnin sé alvond. Sagt er að það eigi að loka höfnum og að yfirvofandi séu stórkostlegir búferlaflutningar fólksins í hinum dreifðu byggðum til Reykjavíkur.

Þetta er svo rangur málflutningur að það tekur engu tali, hv. þingmaður.