Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:05:00 (5091)

2003-03-14 12:05:00# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:05]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi nú aldrei orðað það þannig í ræðu minni að ríkisstjórnin væri alvond. Það gerði hv. þm. og ég skal svo sem ekkert gera lítið úr því.

Í ræðuhöldum sínum gerði hv. þm. lítið úr umsögnum, gerði lítið úr athugasemdum þeirra sem vinna við þetta frá degi til dags. Það mætti ímynda sér að þeir sem hafa sett fram þessi sjónarmið þekki ekkert til.

Við vitum það báðir, ég og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að gerðar hafa verið breytingar á frv. frá því í fyrra. Um það deilum við ekki. En það breytir ekki hinu að sömu grundvallarsjónarmið búa að baki og það breytir ekki því --- alveg sama hvernig við leggjum upp með það --- það breytir ekki því að við vitum hvernig þessar hafnir hafa orðið til. Við vitum að það að etja þeim út í þá samkeppni sem hér er verið að ræða um mun aðeins leiða til eins, þ.e. þess að sumar hafnir munu lifa og aðrar deyja. Það er eðli samkeppninnar. Ég held að við deilum ekki um þetta heldur. Þetta er óhjákvæmileg niðurstaða af því frv. sem við ræðum.

Auðvitað getur hv. þm. reynt að bera í bætifláka fyrir þær hugmyndir sem hann stendur fyrir og það er ofur eðlilegt. (Gripið fram í.) En það breytir ekki þessari staðreynd. (Samgrh.: Er þingmaðurinn á móti samkeppninni?)

Ef hæstv. samgrh., sem hér grípur fram í, hefði lesið t.d. nál. sem við lögðum fram þá er þeirri spurningu svarað mjög skýrt þar og ég hvet hæstv. ráðherra (Samgrh.: Ég er búinn ...) til þess að lesa nál. 1. minni hluta því þar kemur það mjög skýrt fram. (Samgrh.: Það var mjög fljótgert að lesa það.) Það kemur mjög skýrt fram, virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að vakin sé athygli á þessu. En ég hvet hæstv. ráðherra til þess að svara þessu. (Forseti hringir.) En, virðulegi forseti, er ekki andsvar við einn í einu eða hvernig er það? Er það ekki hugsað þannig?

(Forseti (HBl): Ég vona að hv. þingmaður þekki þingsköpin.)