Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:09:29 (5093)

2003-03-14 12:09:29# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:09]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að skilja andsvar hv. þm. Við vitum það báðir að áfram verða tiltekin verkefni styrkhæf. Ég hef skilið hv. þm. þannig í þessum andsvörum tveimur að af því að ráðist verði í tiltekin verkefni, annars vegar í Grindavíkurhöfn og hins vegar í Vestmannaeyjahöfn og ríkisframlög verða sett fram vegna þeirra framkvæmda, þá sé ekkert að marka umsagnir þeirra og hugmyndir. Er það þannig að úr því að það eigi að leggja fram einhverja fjármuni til þessara hafna þá eigi þær ekkert að gera athugasemdir við þetta frv. eða hvernig á að skilja þennan málflutning? Það er náttúrlega alveg með hreinum ólíkindum hvernig þetta er lagt upp.

Síðan er hér komið og því haldið fram að þó að menn geri athugasemdir við grundvallarsjónarmið í frv. að hér sé verið með eitthvert pólitískt skítkast --- hv. þm. notaði reyndar ekki orðið skítkast. Það er það sem ég notaði --- en að verið sé að setja þetta í einhverja slíka umræðu. Auðvitað er hér stórpólitískt mál á ferðinni. Halda hv. þingmenn að það sé ekki stórpólitískt mál hvort hafnir lifi á landsbyggðinni eða hafnir deyi? Ég veit ekki í hvaða veröld hv. þingmenn búa. Það er alveg með hreinum ólíkindum hvernig málflutningurinn er hér, með hreinum ólíkindum. (GHall: Þú segir að þær muni ... deyja.)

Ég hef ekki sagt að þær muni allar deyja. Ég hef sagt að í samkeppninni muni alltaf einhverjar láta undan síga og einhverjar muni deyja. (Gripið fram í.) Hvað ætla hv. þingmenn að segja við þau byggðarlög þar sem hafnirnar munu ekki geta staðist þessa samkeppni? Hvað ætlið þið að segja við eigendur fasteigna þar? Hvernig ætlið þið að útskýra þetta fyrir fólki? Það væri fróðlegt að heyra eitthvað slíkt í stað þess að vísa hér í einhver framtíðarplön um einhver verkefni langt fram í tímann. Kannski væri nær að heyra einhver grundvallarsjónarmið um það hvernig þið ætlið að taka á því. (Forseti hringir.)

Það er alveg, virðulegi forseti, með ólíkindum hvernig menn leggja þetta upp og reyna að kasta ryki í augu þeirra sem eiga að vinna eftir þessu.

(Forseti (HBl): Ég vil minna á að það á að segja hv. þm. líka í frammíköllum.)