Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 13:30:27 (5100)

2003-03-14 13:30:27# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[13:30]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Ég var staddur í miðri ræðu minni um frv. til hafnalaga og hafði þar fjallað um ýmsa þætti málsins, um þær staðhæfingar að mikið samráð hefði verið haft um smíði frv., um að þar væri að finna hinn sama rauða þráð og við fyndum í ýmsum öðrum kerfisbreytingum sem gerðar hefðu verið á almannaþjónustu og stofnunum sem sinntu henni. Ég vék að eftirlitsþættinum, hvað gerðist þegar stofnun er færð undan almannavaldi, hinu pólitíska valdi og sett á markað, annars vegar undir eftirlitsstofnanir og hins vegar Samkeppnisstofnun, hvernig þetta hefði gerst með Landssímann, sem var annars vegar færður undir Samkeppnisstofnun og hins vegar Fjarskiptastofnun, og hvernig þessi stofnun yrði færð undir Siglingastofnun Íslands annars vegar og hins vegar undir Samkeppnisstofnun. En ljóst er að við erum að fara með íslensku hafnirnar inn á markaðstorgið. Þetta er nokkuð sem við höfum gagnrýnt, og reyndar gagnrýnt þá miklu markaðsvæðingu innan almannaþjónustunnar sem hefur sett mjög svip á valdatíma Sjálfstfl. allar götur frá árinu 1991.

Samstarfsaðilar Sjálfstfl. hafa ekki látið sitt eftir liggja og ekki sést fyrir. Maður verður t.d. var við það núna að menn sjá margir eftir því að hafa stutt hugmyndir Framsfl. og sett þær í framkvæmd, að taka Leifsstöð, okkar helstu flugstöð, og einkavæða hana með manni og mús. Að mörgu leyti hefði verið æskilegra, ef menn væru á annað borð á þeirri skoðun að sú starfsemi sem fram fer í flughöfninni eigi að vera á markaði, að halda sjálfri flugstöðinni og byggingunni í eigu ríkisins og bjóða síðan út þá starfsemi sem þar fer fram innan dyra. Ég er ekki að mæla með slíku en það hefði verið svona ákveðin heil hugsun í því, í stað þess að bjóða alla flugstöðina út. Ég er aðeins að nefna þetta sem dæmi um einkavæðingu sem hér hefur verið framkvæmd nánast samkvæmt hugmyndafræði, pólitískri stefnu, alveg óháð því hvað borgar sig í hverju tilviki.

Nú erum við sem sagt komin með íslensku hafnirnar og það á að gera þær að hlutafélögum eða opna á þann möguleika að hafnirnar verði gerðar að hlutafélögum. Ákvæði þess efnis er í 8. gr. frv., en þar segir í 3. tölul., þar er kveðið á um rekstrarform hafnanna, með leyfi forseta:

,,Höfn má reka sem:

Hlutafélag, hvort sem það er í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélag, sameignarfélag eða sem einkaaðila í sjálfstæðum rekstri. Hafnir sem reknar eru samkvæmt þessum tölulið teljast ekki til opinbers rekstrar.``

Með öðrum orðum, við erum að taka hafnirnar út úr almannaþjónustunni, úr opinberum rekstri og færa þær yfir á markaðstorg. Ég held að þetta sé afskaplega vafasamur hlutur.

Hér var bent á við umræðuna fyrr í dag af hálfu þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem talað hafa, hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, að rekstrarfé hafnanna væri nú fengið með öðrum hætti en áður. Samkvæmt fjárlögum kemur framlag til hafnanna til með að minnka um einn milljarð. (Samgrh.: Ekki rekstrarfé.) Fjármunir sem renna til hafnanna, en ekki rekstrarfé, leiðréttir hæstv. samgrh. mig, en eftir því sem ég skil málið minnkar framlag til hafnanna um þessa upphæð, en í staðinn verður þetta fé innheimt af útgerðarfélögunum.

Það er þarna sem ég vara við þegar á það er bent að staða hafnanna, sérstaklega allra smæstu hafnanna, veikist ekki. Því er haldið fram að staða þeirra veikist ekki, jafnvel þvert á móti að hagur þeirra styrkist og batni. Þá spyr ég á móti: Hvernig verður framtíðin hvað þetta snertir? Mun ríkinu líðast að mismuna höfnum á þennan hátt? Og hér minni ég á að við erum að færa þessa starfsemi út á markaðinn, breyta rekstrarforminu og færa hana út á markað og undir Samkeppnisstofnun. Ekki er mjög langt síðan að kært var til Samkeppnisstofnunar að sveitarfélag á Suðurnesjum, held ég að hafi verið, styrkti tjaldleigu, tjaldsvæði. Það voru aðilar í gistirekstri, hótelrekstri sem kærðu þetta. Að verið væri að mismuna aðilum sem sinntu þessari sömu þörf. Við þekkjum þetta líka úr sögu Símans eftir að hann var gerður að hlutafélagi og fleiri símafyrirtæki komu til sögunnar, þá var einnig kært. Og þetta er nokkuð sem menn hafa verið að horfa á gagnvart útvarpsstöðvum, t.d. Ríkisútvarpinu, ekki aðeins hér heldur annars staðar. Samkvæmt EES og Evrópurétti lúta ríkisútvarpsstöðvarnar sérákvæðum en eiga stöðugt í höggi við þessa sömu grunnhugsun, þessar sömu grunnreglur: Má mismuna?

Ég vék áðan að GATS-samningunum. Þar hefur einhver þriggja þjóðanna sem hafa reist kröfur á hendur okkur, Bandaríkjamenn, Indverjar eða Japanar, við fáum ekki sundurgreiningu opinberlega á því hver reisir hvaða kröfu, heldur er almennt gerð grein fyrir því núna á vefsíðu utanrrn., en einhver þessara þjóða hefur reist þá kröfu að útvarpsrekstur verði settur að fullu á markað. Og þá kemur til kasta þessara markaðslögmála. Við erum að vara við þessu, að taka grunnþjónustu í samfélaginu, samgöngurnar í þessu tilviki og færa þær yfir á markaðstorgið. Þetta teljum við vera mjög varhugavert skref.

Mér þætti vænt um að fá umræðu um þetta og svör við þessu frá fulltrúum stjórnarmeirihlutans. Ég hef beint þessari spurningu til formanns samgn., Guðmundar Hallvarðssonar, sem er ekki hér í salnum af óviðráðanlegum orsökum núna og fyllilega eðlilegum, en hér er hæstv. ráðherra á staðnum og ég geri ráð fyrir að umræða um þetta stórmál eigi eftir að standa hér eitthvað lengur í dag. Og áður en henni lýkur finnst mér nauðsynlegt að við fáum upplýsingar eða umræðu um þetta. Er þetta ekki nokkuð sem menn sjá ástæðu til að ræða? Getur það ekki gerst að hafnirnar, eftir að þær eru komnar inn á markað og færðar undir Samkeppnisstofnun, þurfi að sæta kærum af þessu tagi, að ríkið sé hreinlega að mismuna höfnum með því að gera þeim mishátt undir höfði? Þetta er nokkuð sem ég vík sérstaklega að í ljósi þess að ríkisstjórnin segist vera að bæta hag allra minnstu hafnanna. Og þá er þetta nokkuð sem mér finnst við eiga að fá umræðu um.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt í þessari lotu. Þetta er fyrri aðkoma mín að málinu við 2. umr. um þetta mikilvæga mál. En ég held að hyggilegt væri annaðhvort að slá því á frest að afgreiða málið eða, ef stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ráðherra eru reiðubúnir að beita sér fyrir því, að þessi umdeildustu ákvæði verði tekin út úr lögunum. Því ég efast ekkert um að það eru margir sem vilja gera breytingar á hafnalögum og við stöndum ekki í vegi fyrir því að þau séu færð til betri vegar og á þeim séu gerðar lagfæringar. En kemur til greina, og ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, að taka þessa umdeildustu þætti frv. út úr frv. og skilja þá þannig frá? Þetta er annað sem ég vildi fá að vita og hitt er hvort menn hafi ekki áhyggjur af því að þeir séu að veikja stöðu okkar þegar til lengri tíma er litið. --- Og hér var hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, en það vakti athygli mína við umræðuna hér á fyrri stigum að hann var mjög gagnrýninn á þetta frv. Það er því greinilegt að kurr og ólga er innan stjórnarliðsins líka út af frv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna í þessari lotu, en mun eflaust koma að henni síðar, en ég auglýsi eftir svörum hæstv. ráðherra við þessum spurningum.