Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 14:05:52 (5102)

2003-03-14 14:05:52# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þetta mál mikið, en hafði í öllu falli hugsað mér að láta viðhorf mín koma fram áður en málið fengi endanlega afgreiðslu, ef það stendur virkilega til að keyra þetta umdeilda mál hér í gegn sem mér finnst nú óráðlegt og óskynsamlegt og hef eindregið mælt með því við aðstandendur málsins að það yrði ekki gert eða þá að gerðar yrðu á því þær breytingar sem einfalt væri að gera til að um það yrði allgóð sátt. Það liggur alveg fyrir hvaða ákvæði þessa máls eru þannig úr garði gerð að menn geti illa við þau unað og sjái í þeim hættur og í raun og veru afturför frá gildandi ástandi sem yrði engum til gagns og þá á náttúrlega ekki að vera að þrjóskast áfram með það, herra forseti, eins og hér er í rauninni verið að gera.

Þegar fyrst fór að heyrast af tilraunum til að breyta hafnalögum í þá veru að opna þar allar gáttir fyrir einkavæðingu og einkarekstri voru á ferðinni tiltölulega hráar nýfrjálshyggjuhugmyndir um að leggja slíka starfsemi undir vígvöll samkeppninnar og innleiða þar markaðsvæðingu sem að sjálfsögðu hefði haft þau áhrif sem allir menn sjá að rekstur þeirra hafna sem erfiðastar hafa aðstæðurnar hefði liðið fyrir það ástand og þær þá meira og minna heyrt sögunni til. Hafnir eru auðvitað hluti af hinu skipulagða samgöngukerfi í landinu og stoðkerfi við byggð og atvinnulíf sem í raun og veru fá ekki staðist á markaðslegum forsendum einum og sér. Það er algerlega borin von, aðstöðumunur hafnanna í landinu er svo gríðarlegur. Það hefur auðvitað löngum verið viðurkennt að himinn og haf er á milli aðstæðna þeirra hafna þar sem í aðalatriðum fer fram vöruinnflutningur og útflutningur með þeim miklu tekjum sem af því leiðir, og lítilla fiskihafna sem eru eftir sem áður og engu að síður lífæðar viðkomandi byggðarlaga en hafa auðvitað allt aðrar aðstæður við að glíma hvað varðar stofnkostnað og rekstur. Einkarekstur í hagnaðarskyni á því ósköp einfaldlega ekki heima á þessu sviði. Og það er grundvallarmisskilningur að vera að reyna að troða þeirri hugmyndafræði inn í alla skapaða hluti, en það er meinsemdin sem hér er við að glíma, það er draugurinn sem gengur ljósum logum í þessu máli.

Vissulega hefur frv. eins og það lítur nú út tekið nokkrum breytingum vegna þess að veruleikinn hefur haft einhver áhrif á hugmyndafræðina, en það er nú samt teorían sem blífur í aðalatriðum. (Gripið fram í: Ekki mikil.) Ekki mikil, allt of lítið. Nauðhyggjan, hráfrjálshyggjan er hér enn á ferðinni. Og það er náttúrlega alveg með eindæmum að menn skuli vera að reyna að troða þessu hér áfram vegna þess að þetta er ákaflega umdeilt og sætir mikilli gagnrýni og hefur mætt harðri andstöðu. Og sú andstaða er ekkert bundin við þá menn eina sem eru félagslega sinnaðir í pólitík. Raunsæir menn hvar í flokki sem þeir standa, t.d. á landsbyggðinni, sjá að þetta er algjört glapræði. Ég verð að segja alveg eins og er að ef maður vildi virkilega klekkja á frambjóðendum stjórnarflokkanna í kosningunum, þá mundi maður hjálpa þeim við að koma þessu máli hér í gegn alveg í hvelli og vekja síðan sem mesta athygli á því. En það væri bara ábyrgðarleysi, herra forseti, á þann hátt getum við ekki leyft okkur að hegða okkur. Þannig að við verðum að reyna að hafa vit fyrir þessum mönnum úr því þeir geta það ekki sjálfir. Það er algert glapræði að fara með þessar breytingar hér í gegn, algert.

Það var þannig, herra forseti, að þegar nýfrjálshyggjuliðið tók völdin í landinu, þá var þetta ekki pólitík, alla vega ekki raunsæispólitík eins og það heitir. Þetta voru trúarbrögð, voru og eru ekkert annað en trúarbrögð, að reyna að þvinga þessi einkarekstrarsjónarmið inn í alla skapaða hluti. Og þegar menn þora ekki alla leið, þá ætla menn að fara svona fjallabaksleiðir eins og þetta frv. ber enn þá með sér, að þessu er svona smyglað með eins og gert er í 3. tölul. 8. gr. frv. Byrjað er á því að opna fyrir þetta, koma þessu af stað, síðan er treyst á það að skoðanabræður og -systur aðstandenda frv. einhvers staðar í landinu verði til þess að fara út í tilraunastarfsemi og þannig verði byrjað að brjóta þetta niður. Þetta hefur verið aðferðafræðin. Þetta er formúlan. Þetta var reynt í Hafnarfirði í skólamálunum með glæsilegum árangri eða hitt þó heldur. Eru ekki sjálfstæðismenn hreyknir af því? Eru ekki sjálfstæðismenn hreyknir af því hvernig til tókst í einkavæðingu og einkarekstri á grunnskóla í Hafnarfirði? Eru þeir það ekki? Eru framsóknarmenn ekki hrifnir af einkavædda hjúkrunarheimilinu, forréttindaheimilinu sem fær hærri daggjöld en öll hin hjúkrunarheimilin og er þar á ofan tryggt í bak og fyrir fyrir viðbótarlyfjakostnaði og öðru slíku? Sem sagt sérstakt forréttindafyrirbæri sem er bæði með belti og axlabönd, alveg gulltryggt í bak og fyrir þannig að reksturinn skili alltaf hagnaði og eigendurnir geti sogið arð út úr starfseminni. Grætt á gömlu fólki. Þetta er hugmyndafræðin. Hún er ekkert flóknari.

Hér er þetta prjónað saman með ákaflega sérstökum hætti, herra forseti. Það er markmið í sjálfu sér, það er keppikefli, til þess er farið í þennan pólitíska leiðangur, að koma því á einhvers staðar og með einhverjum ráðum að til verði einkavæddar hafnir, hlutafélög, háeff. Og helst verði þar einkaaðilar ráðandi í rekstrinum, gjarnan þó í skjóli af hinu opinbera. Því þetta er nefnilega pilsfaldakapítalismi ,,par exellence`` sem íhaldið er auðvitað að ástunda. Það er það. Ríkið á að vera svona til staðar og tryggja gróðann þannig hann sé algerlega öruggur, hægt sé að ganga að honum vísum og þá geta menn jafnvel haft þetta eins og með Sóltún eða fleiri slík fyrirbæri, að það nægi bara að skrifa undir pappírana. Gengu menn ekki um með Sóltúnssamninginn og buðu hann til sölu á mörg hundruð milljónir króna, ávísun á gróða framtíðarinnar í skjóli ríkisins? Og að heiðarlegir hægri menn skuli geta stutt þessa forsmán. Því þetta er auðvitað algjör afbökun á þessari hugmyndafræði ef hún er tekin alvarlega út af fyrir sig, (LB: Hvaða hafnir eiga að lifa af?) svona pilsfaldakapítalismi.

Það er auðvitað alveg augljóst mál, a.m.k. hvaða hafnir lifa ekki, það er alveg augljóst, það verða fiskihafnirnar og minni hafnirnar á landsbyggðinni og er nú nóg samt eins og vöruflutningar hafa þróast og færst af sjó upp á land og þar af leiðandi hefur auðvitað verulega dregið úr þeim tekjum sem þessar hafnir höfðu margar hverjar áður, svona til viðbótar við þær tekjur sem útgerð gaf, af vöruflutningum. Það er alveg nóg að glíma við það að jafna aðstöðumun og tekjumun hafnanna á þeim forsendum, þó ekki komi til þeirrar breytingar sem hér er verið að hugsa um.

Herra forseti. 8. gr. er alveg ótrúleg smíð eins og hún er sett fram í frv. Ég segi nú ekki að höfundurinn eigi að fá nóbelsverðlaun fyrir hugkvæmni í fáránlegheitum, en ef þau væru til þá held ég að hér væri kominn sterkur kandídat. 3. tölul. 8. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hlutafélag,`` --- það er sem sagt eitt af þremur meginrekstrarformum hafna ef þessum mönnum verður að ósk sinni. Það má að vísu reka höfn í eigu sveitarfélags án sérstakrar hafnarstjórnar eða með hafnarstjórn. Það eru töluliðir 1 og 2 og þarf nú ekki endilega að vera að skipta því upp finnst mér. En 3. tölul. er svona:

,,Höfn má reka sem:

Hlutafélag, hvort sem það er í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélag, sameignarfélag eða sem einkaaðila í sjálfstæðum rekstri.`` --- Maður hefði nú kannski haldið að eitthvað af þessu væri sami hluturinn. --- ,,Hafnir sem reknar eru samkvæmt þessum tölulið [þ.e. 3. tölul. 8. gr.] teljast ekki til opinbers reksturs.``

[14:15]

Hvernig er hægt að segja þetta? Hvernig er hægt að mæla fyrir um það í lögum að hlutafélag, alfarið í eigu ríkis eða sveitarfélags, þ.e. opinberra aðila, skuli ekki teljast til opinbers rekstrar? Af hverju má það ekki teljast opinber rekstur? Af hverju má það ekki? Gengur þetta upp? Ég verð að segja alveg eins og er, að ég skil þetta ekki. Væntanlega eru þessar neglingar settar þarna inn til að hægt sé að undirstrika að menn séu lagðir af stað á braut einkavæðingarinnar. Þetta mun þá ekki teljast opinber rekstur. Þetta væri þá ekki almannaþjónusta. Þetta er ekki skylduverkefni opinberra aðila heldur rekstur í ágóðaskyni, eins og um venjulegan atvinnurekstur í hagnaðarskyni væri að ræða.

Herra forseti. Hér er farið aftan að hlutunum. Þetta framsal á rekstri hafna til einkaaðila, úr opinberum rekstri og opinberri þjónustu, er auðvitað alveg fráleitt miðað við eðli málsins. Mér sýnist að þetta væri að mörgu leyti einkavæðing undirstöðusamgöngukerfisins í landinu. Hver væri munurinn á að láta bara einkaaðila taka að sér að reka hluta vegakerfisins, flugvelli og annað í þeim dúr? Auðvitað er það draumurinn, að koma þessu öllu meira og minna þannig fyrir að menn geti farið að græða á því líka.

Hér er farin alröng leið, herra forseti. Ef menn sjá einhverja meinbugi á að reka hafnir sem hefðbundna þjónustustarfsemi sveitarfélaga eða ríkis ætti auðvitað að byrja á að setja um það lög að opinberir aðilar gætu veitt svona þjónustu í einhvers konar fyrirtækisformi, með ríkisfyrirtæki sem ekki væri almennt hlutafélag, ekki venjulegt hlutafélag. Slíka löggjöf vantar á Íslandi. Á hinum Norðurlöndunum hafa menn víða farið þá leið. Þeir hafa búið til rekstrarform sem byggir á sérlögum þar sem reksturinn er á mörkum hefðbundinnar almannaþjónustu og atvinnurekstrar. Það er hægt að færa yfir í fyrirtækjaform sem um gilda sérlög, um slíka starfsemi á höndum opinberra aðila. Ef hæstv. samgrh. væri að boða einhverjar grundvallarbreytingar af því tagi á lagaumhverfinu þá væri hægt að tala um þetta. Þá gætu menn tekist á um það og rætt: Er þetta útfærslan sem við viljum taka? Það er ekki hér. (Samgrh.: Þetta er liðin tíð. Landshafnirnar voru svona.)

Hér er sú nauðhyggja á ferðinni að troða hafnarstarfsemi inn í venjulegu hlutafélagalöggjöfina. Hún á ekkert erindi þangað. Það er alveg jafnfráleitt að fara með hafnirnar inn í þetta umhverfi og vatnsveitur. Menn lenda í bullandi vandamálum um leið, t.d. þegar kemur að því að skilgreina hvernig eigendur megi ástunda arðtöku úr rekstrinum. Það er það sem kemur næst. Bankar á dyrnar. Það er m.a. í vatnsveitufrumvarpinu. Þegar búið er að framselja almannaþjónustu í hendur einkaaðila þá vilja þeir fá að taka arð út úr þessu. Þar með er þetta ekki lengur þjónusta. Þar með stenst ekki lengur að líta á gjaldtökuna sem kostnaðar- eða þjónustugjöld. Þetta er orðið að skatti. Þetta verður aðferð til að afla tekna eða að hreinni innkomu einkaaðila í hagnaðarskyni.

Auðvitað á, herra forseti, að henda þessum 3. tölul. út. Með smávægilegum lagfæringum öðrum á þessu frv., t.d. með því að henda einnig út ákvæðum 14. gr. um ríkisstyrki, hinni skrýtnu fimm ára aðlögun sem menn fái að halda sínum styrkjum. Að þessu loknu væri þetta frv. út af fyrir sig í aðalatriðum ásættanlegt. Væntanlega væri hyggilegt að skoða einnig ákvæði 17. gr. um þá gríðarlegu sundurliðuðu gjaldtöku sem þar er á ferðinni og vandséð er að eigi mikið erindi í starfrækslu minni hafna, þar sem menn reyna að hafa þetta einfaldara í sniðum. Ég sé ekki að það sé skilvirkt fyrir Grímseyjarhöfn að innheimta 15 mismunandi gjöld eða hvað þetta nú er.

Herra forseti. Það er að okkar mati óásættanlegt að afgreiða þetta mál eins og það er í pottinn búið og furðulegt að ráðherra og þingmenn úr landsbyggðakjördæmum skuli bera þetta hér á borð. Það er alveg furðulegt að menn skuli ekki hafa annað þarfara við tíma sinn að gera en að nuddast áfram með þetta. Þegar boðið hefur verið upp á tiltölulega einfaldar lagfæringar á málinu til að taka það hér í gegn þá verður enn illskiljanlegra hverju þessi þrjóska sætir.

Af okkar hálfu, herra forseti, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, kemur ekki til greina að gefa eftir í slagsmálunum um þessa grundvallarvíglínu í málinu. Þetta snýst um það. Svo geta menn sagt að þetta muni allt gerast svo rólega, menn fari varlega í sakirnar o.s.frv. En við þekkjum það öll, sem höfum lengi tekið þátt í pólitík, að hin eiginlegu slagsmál um svona mál fara fram þegar tekist er á um grundvallarvíglínuna í málinu. Ef menn tapa þar verður hitt bara undanhald. Hvernig hefur farið með gjaldtöku t.d. í almannaþjónustunni, heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu? Nákvæmlega eins og menn spáðu fyrir. Grundvallarátökin fóru fram þegar gjaldtakan var innleidd. Þá sögðu menn að vísu: Þetta er svo lítið. Það munar engan um þetta. Við förum svo hægt í sakirnar. Svo komu menn ári síðar og hækkuðu þetta aðeins, ári síðar hækkuðu þeir þetta enn meira og færa víglínuna utar og utar. Áður en varir er mjög erfitt að fóta sig og stöðva sig af eftir að einu sinni er farið út á svona óheillabraut.

Við skulum ræða þetta, herra forseti, eins og þetta er. Við tökumst hér á um hvort eigi að leggja af stað í leiðangur sem vísar í áttina að einkavæðingu á þessum rekstri og að færa hann yfir í hefðbundið viðskiptaumhverfi og samkeppnisumhverfi venjulegs atvinnulífs, venjulegs atvinnurekstrar þar sem upp koma kröfur um arð af starfseminni o.s.frv.

Í staðinn ætti að setja sérlög um þetta og skilgreina sem hluta af hinu opinbera samgöngukerfi, sem almannaþjónustu, almannahagsmuni, byggðapólitíska hagsmuni, samgöngupólitíska hagsmuni og stuðning við atvinnulífið vítt og breitt. Frá því mætti ganga með því lagaumhverfi. Þannig á að gera þetta en ekki svona.

Um hvað eru hlutafélagalögin? Eru þau um skyldur viðkomandi rekstrar við almenning? Við byggð? Er eitthvað um það í hlutafélagalögunum? Hefur hæstv. samgrh. rekist á það? Hann kann samkeppnislögin og hlutafélagalögin betur en ég ef svo er. Nei, hlutafélagalögin eru auðvitað rammi um einkarekstur í ágóðaskyni. Þar er fyrst og fremst settur lagarammi til að tryggja hagsmuni eigenda, tryggja að hluthafar séu varðir og geti alltaf fengið arð sinn o.s.frv. Það er eðlilegt út af fyrir sig vegna þess að grundvallarnálgunin þar er löggjöf sem tryggir starfsgrundvöll, verndar eigendur og hluthafa í hlutafélögum á allt öðrum forsendum en þeim sem eiga að vera í forgrunni þegar rætt er um undirstöðuþætti af þessu tagi, uppbyggingu og rekstur samgöngukerfis, þjónustustarfsemi, sem er ekki rekin sjálfrar sín vegna, heldur vegna þess hlutverks sem hún á að þjóna í samfélaginu, fyrir atvinnulífið, byggðina og fyrir annan atvinnurekstur sem á þeirri aðstöðu byggir. Það á að halda þessum samskiptum hreinum.

Þannig er þetta, herra forseti, í grundvallaratriðum og röng nálgun sem þarna er á ferðinni. Nú er það að vísu svo að það hefur sljákkað heilmikið í frjálshyggjumönnunum og einkavæðingarsinnum. Það hefur gert það. Menn eru ekki jafnupprifnir og þeir voru þegar best lét, þegar menn voru eins og kálfar á vori, nýkomnir út úr fjósinu vegna þess að nú gætu þeir farið að innleiða thatcherismann á Íslandi, árið 1991 og á árunum þar á eftir. Þá voru menn eins og kálfar á vori, nýsloppnir út úr frjálshyggjufjósinu, (HBl: Hvaða vor var það?) Það var vorið 1991, hv. þm. og herra forseti.

Það var vorið 1991 að hleypt var út úr frjálshyggjufjósinu. Stuttbuxnadrengirnir voru orðnir langstaðnir á básunum og kunnu sér ekki læti þegar þeir komu út í vorið. Þá var lagt af stað í hinn glæsta leiðangur og átti ekki að viðhafa neina hálfvelgju. Nú hafa menn rekið sig á mörg horn. Það hefur ekki allt gengið eins glæsilega og til stóð. Við erum einmitt að ræða málin að viðstöddum einum hæstv. ráðherra sem veit vel að ekki hefur allt reynst jafnglæsilegt og til stóð. Má maður nefna á nafn Landssímann? Má maður nefna hann á nafn? Er það virkilega þannig að menn geta ekkert lært? Geta menn ekkert lært, herra forseti, af óförum sínum og annarra? Svo virðist ekki vera. Menn eru enn að nudda með þetta þótt búið sé að pakka þessu inn í siffon og þetta sé bara 3. tölul. 8. gr., ekki boðorðið sjálft. Ekki áttunda boðorðið, ómengað og hrátt.

Þannig, herra forseti, liggja þessi mál. Við skulum ekki láta smyglgóss af þessu tagi fljóta með í þessu frumvarpi. Hreinsum þetta bara út og fáum einfalda afgreiðslu á því hver vilji meiri hluta þingmanna er í þessum efnum. Ég trúi ekki að sjálfstæðismenn, t.d. af landsbyggðinni, séu ekki með böggum hildar yfir þessum ósköpum. Maður er að vísu farinn að trúa flestu upp á framsóknarmenn en einhvern tímann hefði þetta staðið eitthvað í þeim, að láta hafa sig í að styðja stjórnarfrumvarp, frá samstarfsflokknum að vísu, um einkavæðingu hafna. Þeir styðja að því að afkoma og rekstraröryggi minni hafna vítt og breitt um landið fari allt upp í vindinn. Menn hafa reynt að róa lífróður að því að laga þetta eitthvað til frá fyrstu hugmyndum sem voru hrá nýfrjálshyggja þar sem átti í raun að afskrifa möguleika minni hafna til að komast af. Ég þykist muna rétt að þar hafi verið tillögur um að taka ríkisstyrkina af við uppbyggingu og stofnkostnað í þessum höfnum. Hvernig haldið þið að það hefði farið á auga lifandi bragði? Við vitum það öll. (Samgrh.: Það hlýtur að vera frv. frá annarri ríkisstjórn sem þú ert að tala um.) Um þetta eru til ýmsar hugmyndir og má fara yfir það allt ef hæstv. samgrh. vill við gott tækifæri. Mér fyndist upplagt að taka þetta mál á dagskrá í nótt og ég skal ræða það, t.d. milli tvö og fjögur, og vera þá með öll plögg í höndunum um fyrstu hugmyndirnar. Ég þykist muna nokkuð rétt að þær voru býsna groddalegar hvað þetta varðar enda fengu þær ekki góðar viðtökur. Það varð víst brátt um fyrstu uppköstin sem sett voru fram, um þessa nýfrjálshyggjuvæðingu í höfnunum.

Hér hefur að vísu margt þokast í áttina vegna þess að veruleikinn hefur náð að síast inn og haft einhver pínulítil áhrif. Pínulítil, en allt of lítil enn þá. Menn eru enn of firrtir og of uppteknir af teoríunum. Þeir of lítið í takt við hinn íslenska veruleika eins og hann er.

Ætli það sé nú ekki þannig, herra forseti, að ástandið og horfurnar í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir að séu þannig að hann megi vart við því á allra næstu árum að þjónustuaðstaðan í höfnum landsins stórversni? Má útvegurinn við því að hinn opinberi stuðningur og jöfnun sem tryggir að þessi þjónusta sé veitt alls staðar sem á þarf að halda, sé víkjandi og mönnum jafnvel gert erfiðara um vik en nú er, t.d. að sameina kraftana í stórum hafnasamlögum. Það getur tvímælalaust verið til bóta og er kannski ein skásta leiðin í sumum tilvikum til að mæta þeim miklu breytingum sem hafnirnar takast á við. Tekjur þeirra taka grundvallarbreytingum með gjörbreyttu flutningamunstri í landinu.

Tekjur sem áður dreifðust á margar hafnir eru kannski meira og minna horfnar en ein höfnin situr eftir með alla vöruumferð í heilum landshlutana. Hinar fá ekki neitt af þeim tekjum nema þær séu sameinaðar í samlög. Mér sýnist þetta geta komið illa niður á þeim, að vísu fá þær hafnir fimm ára aðlögunartíma. Þetta er ekki gáfulegur frágangur. Þetta er alveg fráleitt, herra forseti.

Ég held menn hafi annað þarfara að gera en að standa í þessu. Menn ættu frekar að snúa sér að því að taka á málefnum þess atvinnulífs sem þó er enn til staðar og á löppunum á landsbyggðinni, ekki veitir af. Þetta er ekki innlegg í að bæta starfsskilyrði sjávarútvegs eða flutningastarfsemi á ströndinni eða annarra framtíðarmöguleika sem góð hafnaraðstaða í hverju byggðarlagi er lífsnauðsynlegur hluti af. Hvernig í ósköpunum eiga menn að sækja fram í nýjum greinum ef þeir hafa ekki hafnaraðstöðu? Í mörgum tilvikum er um líf eða dauða að tefla, t.d. fyrir byggðarlög sem ætla að vera með í framtíðinni í veiðum og vinnslu uppsjávarfiska. Hafnirnar verða að mæta kröfum tímans, stækkandi skipum, meiri djúpristu og öðru slíku. Halda menn að fámenn byggðarlög ráði við þær risaframkvæmdir sem slíkt getur kallað á, fámennir 300--500 manna sveitarsjóðir? Við skulum ekki gleyma hinu að þetta getur verið undirstaða gríðarlegrar verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið.

Menn þurfa líka að huga að því: Hverju gætu menn verið að glata með því að þessi grundvallarþjónusta væri ekki til staðar hringinn í kringum landið og svari á hverjum tíma kröfum tímans? Það er kannski bara pínulítill grjótgarður til að verja smábátahöfn á einum stað en dýpkun fyrir mörg hundruð millj. til að hafnirnar taki nýjustu loðnuskipin á öðrum stað. Við þessar fjölbreytilegur aðstæður þurfum við að glíma og þeim þörfum þurfum við að mæta. Þar af leiðandi er algerlega fráleitt að troða þessu inn í hinn íslenska veruleika, að einkavæða hafnirnar. Það er furðulegt að jafnlífsreyndur maður og hv. þm. Halldór Blöndal skuli leggja nafn sitt við þessi ósköp, þessa forsmán. (HBl: Hún var nú einkavædd höfnin á Hvalstöðinni.) Já, þú veist nú hvernig hún er komin í dag.