Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 14:36:41 (5105)

2003-03-14 14:36:41# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[14:36]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar eins og ríkið reki íslenskar hafnir. Það er alveg grundvallarmisskilningur. Ríkið er ekki að einkavæða hafnir þó gert sé ráð fyrir því að í lögum sé heimild til þess að hafnir séu starfræktar sem hlutafélög. Það eru sveitarfélögin í landinu sem fara með þessi mál. Ég hélt að hv. þm. ætti að vita það afskaplega vel. Landshafnirnar voru hér í eina tíð reknar algerlega á ábyrgð ríkisins. Fallið var frá þeirri starfsemi. Ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þekkir það mætavel. Það eru því sveitarfélögin sem fara með rekstur hafnanna. Leiðin sem við veljum hér er sú að þar sem það á við getur átt sér stað samkeppni þar sem samkeppni er raunveruleg. En þar sem eru litlar hafnir sem í raun og veru geta ekki tekið þátt í neinni samkeppni, þá gerir frv. ráð fyrir að til komi ríkisstyrkir til þess að tryggja framtíð þeirra hafna. Allt annað sem látið er í veðri vaka er útúrsnúningur og ranghugmyndir manna.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór mjög vandlega yfir þetta mál í morgun. Ég er í mörgum atriðum sammála honum um það að við verðum að tryggja og passa það að litlu hafnirnar í samkeppnisumhverfi verði ekki píndar með einhvers konar yfirbjóðanlegum aðgerðum, eins og hann orðaði það, til þess að missa af stuðningi. Frumvarpið gerir einmitt ráð fyrir því að við höfum fullt vald á því að tryggja þann stuðning. Ég er sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni að því leyti að það þarf að gera. Og við gerum það í þessu frv., við tryggjum stuðning til þeirra hafna sem á stuðningnum þurfa að halda og það er grundvallaratriði.