Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 15:53:14 (5111)

2003-03-14 15:53:14# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja það við hv. þm. að ég hef ekki verið að gera úrskurð hæstv. setts umhvrh. Jóns Kristjánssonar tortryggilegan í máli mínu. Ég hef hins vegar gert að umtalsefni ákveðin atriði í honum sem mér finnst vera á reiki. Það er fyrst og fremst það hvort hugmynd Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsens sé í raun og veru bindandi sem útfærsluleið vegna þess að úrskurðurinn tekur mið af þeirri leið. Og það er ljóst núna að Landsvirkjun telur sig ekki bundna af hugmyndum verkfræðiskrifstofunnar, og það er þar sem ég held að veiki punkturinn í þessu öllu sé. Ég er því ekki að gera úrskurðinn tortryggilegan.

Ég minni á að ég fagnaði því að hæstv. umhvrh. Jón Kristjánsson skyldi taka þetta lón út úr friðlandinu og ég fagnaði því að hann skyldi fara að alþjóðalögum eða alþjóðasamningum sem við erum skuldbundin, þó svo að manni finnist auðvitað, herra forseti, að það eigi ekki að segja ráðherrum að þeir þurfi að fara að lögum. Í mínum huga hefur friðlýsing ákveðið lagagildi vegna þess að það þarf framkvæmdarvaldið til að koma með breytingar á slíku og mér hefur alltaf fundist friðlýsing vera fremur heilög heldur en hitt, þannig að ég hef gagnrýnt stjórnvöld fyrir að láta sér detta það í hug að fara með virkjunarframkvæmdir inn í friðlöndin. Þess vegna fagnaði ég því í úrskurði hæstv. ráðherra að það skyldi þó alveg tryggt.

Það sem mér finnst gott að heyra frá hv. þm. er það að iðnn. taki heils hugar undir með meiri hluta umhvn. Þá er það alveg ljóst að iðnn. lítur svo á að þær leiðir sem tilgreindar eru í fskj. III séu ekki bindandi á nokkurn hátt, hún er sem sagt ekki að leggja blessun sína yfir þær hugmyndir sem Landsvirkjun er með hér á blaði. Og þá vil ég bara vona að Landsvirkjun taki það til sín á þeim nótum að hún líti ekki á afgreiðslu þessa máls hér sem einhvers konar blessun á þær hugmyndir sem koma fram í fskj. III.