Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 15:55:23 (5112)

2003-03-14 15:55:23# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að við hv. þm. skulum vera sammála í gleði okkar yfir úrskurði hæstv. setts umhvrh. (ÖS: Maður er bara snortinn.) Já, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson er snortinn, það gleður mig enn meira. En það er rétt sem hv. þm. nefndi að við meira en tökum undir sjónarmið meiri hluta umhvn., við gerum það að okkar áliti, það er fellt inn í nefndarálit okkar.

Hv. þm. spurði síðan og gagnrýndi okkur kannski í fyrri ræðu sinni fyrir það að hafa ekki tekið afstöðu til annarrar hvorrar skoðunarinnar. Það er ekki hlutverk okkar, þá værum við beinlínis að fara gegn úrskurðinum. Úrskurðurinn segir nefnilega að aðilar skuli hafa samráð og það samráðsferli er til staðar eins og margsinnis hefur verið nefnt.

Hv. þm. nefndi einnig línurnar og bað um afstöðu til þeirra. Okkur er það kunnugt og í vinnu nefndarinnar komu fram áhyggjur manna og undirskriftarlistarnir sem hv. þm. vék að. Nú kemur hluti af raforkuöfluninni annars vegar frá Nesjavöllum og hins vegar af Reykjanesi. En það er ekki svo að elektrónurnar sem verða til úti á Reykjanesi fari alla leið upp á Grundartanga. Það er ekki svo. Líklega mun megnið af þeim fara til Reykjavíkur og létta þar með álagi af raforkuflutningi annars staðar frá.

En það kom jafnframt fram í máli fulltrúa Landsvirkjunar að áætlanir þeirra eru einmitt að breyta línustæðunum eins og þau eru núna og færa þau frá byggð í tengslum við þá stækkun sem fyrirhuguð er á Grundartanga. En þá verður líka að segja að það kom mjög skýrt fram í máli fulltrúa sveitarstjórna, ekki síst þeirra í Skilmannahreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi, að þeir fagna þessum aðgerðum og styðja þær heils hugar. Og það er jú hið lýðræðiskjörna vald sem fer með sveitarfélagið sem sendir þau skýru skilaboð til iðnn. og þingheims.