Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:24:49 (5123)

2003-03-14 16:24:49# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Í þessum umræðum hefur úrskurðinn um Norðlingaölduveitu borið á góma. Ég vildi skýra nokkur lykilatriði sem sá úrskurður byggðist á af minni hálfu.

Í fyrsta lagi að varðveita grunnvatnsstöðu veranna og líffræðilega fjölbreytni og að uppistöðulónið næði ekki inn í verin.

Í öðru lagi að veitt yrði vatni úr setlóninu til að halda grunnvatnsstöðunni.

Í þriðja lagi er það sem hér hefur verið rætt um, þ.e. hæð lónsins. Allir útreikningar sem þessi úrskurður byggðist voru miðaðir við 566 m. Það eru tölulegar forsendur úrskurðarins. Hins vegar er úrskurðurinn orðaður þannig að lónið eigi að fara út fyrir friðlandið og það eigi að útfæra, eins og hefur fram komið, í samvinnu við heimamenn, Umhverfisstofnun og Landsvirkjun. Þessir aðilar skulu sjá um útfærslu á lóninu. Samkvæmt orðanna hljóðan væri hægt að fara upp í 568,5 m en hins vegar lít ég svo á að um þetta verði að ná samkomulagi. Það er grundvallaratriði.

Ég vil leggja mikla áherslu á að ég tel að hægt sé að ná sátt um þetta mál. Lónhæðin 566 m var grundvöllur úrskurðarins og ásættanleg að mínu mati. En úrskurðurinn var þannig orðaður að ef um það næðist samkomulag væri hægt að fara upp að friðlandsmörkunum í 568,5 m.