Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:55:11 (5128)

2003-03-14 16:55:11# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:55]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra sé á næstu grösum eftir að búið er að gera gangskör að því að hún sé viðstödd umræðuna. Ég þakka fyrir að hæstv. forseti hefur virt þær sjálfsögðu óskir að fundarhaldinu sé hagað þannig að umræðunni sé sómi sýndur. Ég held að hæstv. ráðherrar verði að leggja sitt af mörkum eins og aðrir ef takast á að ljúka þinghaldinu með skaplegum hætti.

Herra forseti. Ég hef aðeins farið yfir almennt samhengi þeirra virkjunaráfanga sem nú eru á teikniborðunum og hversu ógæfulega við erum á vegi stödd með alla þessa hluti. Ákvarðanir eru meira og minna teknar í öfugri röð. Út eru tíndir virkjunarkostir og settir til hliðar frá þeirri vinnu sem á að heita að sé í gangi að skoða, kortleggja og forgangsraða, ekki síst með tilliti til umhverfisáhrifa, virkjunarkostum í landinu. Ég sé ekki annað en að meira og minna sé verið að draga dár að allri þeirri vinnu eins og framgangsmátinn er. Þegar við skoðum málin, t.d. í ljósi þeirra hugmynda sem menn hafa verið að velta fyrir sér um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæða norðan jökla, kemur þetta fram. Það kemur fram í því að menn eru varla tilbúnir til að taka út einn einasta virkjunarkost sem þar skiptir nokkru máli. Svo geta menn ályktað út í loftið án þess að innstæður séu fyrir því. Ég held að mörgum fleirum en mér, herra forseti, muni bregða í brún er þeir fara að skoða þetta kort og sjá hvernig það mun líta út, hvernig slíkur þjóðgarður eða verndarsvæði yrði skorið sundur aftur og aftur af miðlunarlónum eða virkjunum, svo maður tali ekki um aðra hluti sem þar gætu þá komið til sögunnar í því sambandi, þ.e. vegalagningu, háspennulínur og aðra mannvirkjagerð.

Ef við byrjum austur á Hraunum, austur undir Lónsöræfum, þá hugsa menn að sjálfsögðu veitu þar og virkjun Jökulsár í Fljótsdal, miðað við þá útfærslu sem nú er uppi á teikniborðinu, með stíflu rétt neðan við Eyjabakka. Síðan kæmi þá Kárahnjúkavirkjun með hinu mikla Hálslóni og vegalögn þaðan út í byggð sem skæri möguleikana á svona þjóðgarði í sundur, algerlega í tvennt. Hann næði ekki saman fyrr en inni á jöklum. Fyrir austan eru svo vatnsföllin miklu, Kreppa og Jökulsá á Fjöllum. Hvað er þar á teikniborðunum? Það er að sjálfsögðu Arnardalslón sem virðist vera ofan á í hönnuninni fremur en uppistöðulón í Fagradal sem líka hefur svo sem sést. Þá verður að draga línurnar í vinkil inn fyrir það þannig að hægt sé að virkja Jökulsá á Fjöllum og Kreppu. Hvernig? Í tveimur þrepum. Fyrst með jarðgöngum yfir í Jökuldal og stövarhúsið þar. Síðan yrði væntanlega hinn gamli farvegur Jökulsár á Dal að mestu þurr, nema þá í einstaka haust, notaður sem skurður fyrir Jökulsá á Fjöllum dálítinn spöl niður eftir Jökuldal og þaðan kæmu önnur göng yfir í Fljótsdal og stöðvarhús skömmu utan við það sem nú á að rísa vegna Kárahnjúkavirkjunar. Við bætast í Löginn, samkvæmt þessum hugmyndum, Kreppa og Jöklsá á Fjöllum með öllu vatni sem í þær er komið norður við Arnardal. Þessar hugmyndir liggja fyrir. Ég er með þær í glænýjum skýrslum, greinargerðum frá helstu sérfræðingum okkar á þessu sviði í tengslum við þá vinnu sem yfir stendur og ég hef áður gert grein fyrir.

En ekki er nóg með það. Skjálfandafljót, það á nú heldur betur að reyna að tappa af því. Þar hafa menn lengi talað um Ísólfsvatnsvirkjun en hér eru á teikniborðunum virkjanir sem koma miklu sunnar. Þær eru þarna enn þá. Menn vilja halda þeim til haga og passa upp á þær. Ef menn eru að tala um einhverja þjóðgarða eða verndarsvæði fyrir norðan verða þeir líka gæta þess að teikna línuna þannig að vestan að hún sveigi nægjanlega austarlega til að virkjunarmöguleikar, a.m.k. í Neðra-Skjálfandafljóti ef ekki í Efra-Skjálfandafljóti líka með uppistöðulónum alveg upp undir Vonarskarði, geti verið með í púkkinu.

Þetta eru ekki einhverjir draumórar. Þetta eru teikningar á blaði sem sérfræðingar eru að senda inn í vinnu rammaáætlunar. Þetta er svona. (Iðnrh.: Rammaáætlun tekur á öllu.) Rammaáætlun tekur á öllu já. En eigum við þá ekki líka að ræða þetta eins og það er? Þessi virkjunarplön eru þarna. Og er það eitthvað skrýtið? Nei. Það gengur auðvitað hratt á stóru virkjunarkostina ef svo heldur sem horfir. Það eru ekki til margar Þjórsár og það eru ekki til margar Jökulsár á Dal, ekki margar Jökulsár á Fjöllum og ekki mörg Skjálfandafljót. Þetta eru stóru vatnsföllin sem mundu leggja til obbann af orku fallvatnanna ef virkjuð verða. Það er fljótlegt að átta sig á því. Við sjáum það t.d. bara á aflinu í Kárahnjúkavirkjun einni, hversu stóran hluta hún leggur til af þessum 25--30 teravattstundum sem talað er um að hægt að virkja í heild.

[17:00]

Og það er ekki nóg að gert að hugsa sér að taka þessi vatnsföll. Auðvitað eru menn svo með á teikniborðinu jökulvötnin í Skagafirði, að sjálfsögðu eru þau hérna, norðaustan Hofsjökuls. Þar kæmu fyrstu uppistöðulónin vegna virkjunar Austari-Jökulsár í Skagafirði, að sjálfsögðu, og við gætum þar af leiðandi verið með þá stöðu að ef maður stæði á norðanverðum eða miðjum Tungnafellsjökli, þá sæi maður uppistöðulón eiginlega á alla vegu. Maður sér þaðan auðvitað niður í lónin við Þjórsárver, niður á Hágöngumiðlun, maður sæi þessi miðlunarlón efst með Skjálfandafljóti, maður sæi væntanlega miðlunarlón við Skatastaðavirkjun og maður sæi jafnvel enn lengra austur á góðum degi, norður í Arnardal eða austur í Hálslón. Það verða ekki sjö kirkjur sem menn sjá, eins og sagt er að sjáist af ónefndum fjöllum heldur sjö uppistöðulón væntanlega. Og það er ekki nóg að gert að fara með fallvötnin í þessum þætti þannig að öll stóru fallvötnin sem falla til norðurs frá Vatnajökli og Hofsjökli yrðu þá fullvirkjuð með uppistöðulónum inni á hálendinu, heldur á líka að fara í jarðhitann. Menn telja að sjálfsögðu að það þurfi að hafa jarðhitann í huga og passa sig á því að lenda ekki með þjóðgarð eða verndarsvæði þannig að menn þrengi of mikið að sér í þeim efnum. Nei, nú er reyndar sagt að Landsvirkjun hafi mikinn áhuga á jarðhitanum við Hágöngur og mæni á hann vonaraugum, ætli sér jafnvel að bora þar. Síðan er talað um jarðhitann í Köldukvíslarbotnum skammt sunnan Vonarskarðs og það segir hér í einum af þessum textum að þá styttist nú leiðin að sunnan til Vonarskarðs til muna. Og hvað er í Vonarskarði? Jú, þar er líka háhiti. Og að sjálfsögðu vilja menn hafa það sem möguleika að nýta hann og þá verður gaman að fara Vonarskarð með uppistöðulón við báða enda og gufuaflsvirkjanir af og til á leiðinni.

Þetta er framtíðarsýnin sem er til á teikniborðum varðandi framkvæmdir á miðhálendi Íslands. Svo tala menn um möguleikana á að varðveita stór ósnortin víðerni, stofna þjóðgarða á heimsvísu o.s.frv. Ekki ef þessi virtustu plön öll ganga eftir þar sem enginn einasti virkjunarkostur nema kannski Kverkfjöll verður undan skilinn. Það ber að vísu að taka það fram að í þessum textum hef ég ekki rekist á að menn væru sérstaklega að gera ráð fyrir gufuaflsvirkjun í Kverkfjöllum. Kannski hefur mér yfirsést það en það er a.m.k. ekki sérstaklega strikað inn á þetta svæði.

Ég held, herra forseti, að það sé alveg ástæða til að ræða þessa hluti bara ósköp einfaldlega eins og þeir eru. Þegar við horfumst í augu við það að hvorki friðlandið í Kringilsárrana né friðlandið í Þjórsárverum né friðland að fjallabaki átti að verða nein fyrirstaða að mati þeirra afla sem ásælast virkjunarkostina, þá er ástæða til að spyrja ýmissa spurninga. Það er þá kannski þannig eins og minn gamli lærimeistari forðum sagði, Sigurður Þórarinsson, að sennilega yrði Gullfoss látinn í friði úr þessu og mögulega Dettifoss en hann var ekki viss um að það yrði meira og þekkti býsna vel til hugrenninga ýmissa aðila á þeim slóðum.

Það síðasta, herra forseti, sem ég ætlaði aðeins að gera að umtalsefni og tengist þessum virkjunarmálum er staðan austan við Kárahnjúka. Þar hafa verið að koma fram hlutir sem auðvitað er hreint með ólíkindum að við þingmenn skulum fyrst vera að fá í hendur nú eftir krókaleiðum, eftir að formlegri afgreiðslu þeirra mála hér er lokið. Og það á erindi inn í þingtíðindin þótt það hafi kannski ekki mikinn annan tilgang en að koma því þangað að fara aðeins yfir það hversu hroðvirknislega þar virðist vera að ýmsum hlutum unnið og hversu oft það hefur gerst að mönnum hefur beinlínis verið neitað um upplýsingar og gögn sem málum tengjast eins og t.d. bréfaskriftir íslenskra stjórnvalda við Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins sem þingmönnum var meinað um og áttu þá að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni hér um þetta mál og svo núna upplýsingar sem hafa lekið út, komið fram um skýrslu eða samantekt sem sérfræðingur á sviði jarðvísinda hjá Orkustofnun, Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur, tók saman fyrir meira en ári og voru a.m.k. teknar það alvarlega að orkumálastjóri sá ástæðu til að boða til fundar og láta Landsvirkjun fá málið til skoðunar. Það var síðan afgreitt þannig að enn annar jarðvísindamaður gagnmerkur, Freysteinn Sigmundsson, forstjóri Norrænu eldfjallastöðvarinnar, tók eitthvað saman fyrir Landsvirkjun og skilaði áliti þar sem ekki er nú mjög afdráttarlaust tekið til orða. Notuð eru orðin að ,,búast megi við þessu`` og ,,hitt verði að telja ólíklegt`` og það er látið nægja gagnvart þeim athugunum Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings sem settar eru fram í samantekt hans um áhrif þessarar miklu mannvirkjagerðar, þessa gríðarlega mikla þunga eða fargs sem þarna verður sett á jarðskorpuna með stærstu jarðvegsstíflu Vestur-Evrópu, ef ég veit rétt, ef byggð verður, Kárahnjúkastíflan, og síðan þessu uppistöðulóni með auðvitað gríðarlegu vatnsmagni sem leggst þarna eins og farg á jarðskorpuna og fergir hana niður rétt eins og um væri að ræða jökulmyndun á fjalli.

Það vill svo til, herra forseti, að Íslendingar þekkja ágætlega af sambúð við jökla og ísaldir flotjafnvægi jarðskorpunnar og hreyfingar þess og hvernig það bregst við. Ekki þarf að fara lengra en austur í Hornafjörð og ræða þar aðeins við heimamenn og þeir vita allt um þetta. Þar sem þeir bundu báta sína fyrir innan við 100 árum ganga þeir nú þurrum fótum og beita kúm vegna þess að landið hefur risið svo mjög vegna hörfunar Vatnajökuls. Þarna eru á ferðinni jarðskorpuhreyfingar sem geta auðveldlega numið tugum sentimetra og jafnvel metrum. Hér er að vísu nokkuð sérstakt fyrirbæri á ferð þar sem fyrst kemur þetta farg stíflunnar og síðan þungi lónsins þegar það verður fyllt upp en síðan er það tæmt og fyllt á víxl sem þýðir að farg er að leggjast á jarðskorpuna eða léttast af henni og það getur leitt til annars konar hluta en þegar hægt og rólega er um einsleita hreyfingu að ræða í aðra hvora áttina. Þá er stundum talað um að þetta geti strokkað hin mjúku berglög eða hálfbráðnu berglög undir sjálfri skorpunni og haft í för með sér ýmis áhrif á flotjafnvægið og jafnvel á eldvirkni og sprungur á svæðinu. Þetta hefði að sjálfsögðu, herra forseti, þurft að rannsaka og athuga miklum mun betur en gert var. Ekki þarf nema alveg ryðgaða lágmarksþekkingu á þessum hlutum til þess að átta sig á því að það er ekkert æskilegt að glíma við flókin úrlausnarefni af þessu tagi á handahlaupum eins og auðvitað allur undirbúningur þessarar mannvirkjagerðar og rannsóknar hefur verið, ósköp einfaldlega vegna þess að menn sneru sér ekkert að þessu af neinni alvöru fyrr en Eyjabakkadæmið hrundi. Þá var farið að líta á Kárahnjúka og þó að búnar væru að vera ýmsar almennar undirbúningsrannsóknir á þessu svæði í heild sinni í tengslum við ýmis virkjunaráfornm síðustu 30 ár, þá fóru raunverulegar markmiðsmiðaðar rannsóknir sem tengdust gerð Kárahnjúkavirkjunar sem slíkrar fyrst í gang þegar augu manna beindust að henni eftir að hætt hafði verið við virkjun á Eyjabökkum. Þarna hefðu menn auðvitað þurft að fara út í miklu ítarlegri rannsóknir, boranir jafnvel og ýmiss konar jarðeðlisfræðilegar rannsóknir sem ekki verður séð að hafi farið þarna fram og það er kannski lýsandi fyrir stöðuna að helstu upplýsingar um þessa hluti sem maður fær í hendur er ekki að finna í matsskýrslunni. Það er frá áhugaaðilum eins og Guðmundi Sigvaldasyni jarðfræðingi og svo Grími Björnssyni þar sem menn taka sér það fyrir hendur sjálfir að skoða þessa hluti og það eru þá framkvæmdaraðilarnir eða rannsóknaraðilarnir sem bregðast við frumkvæði slíkra manna og fara þá eitthvað að reyna að svara fyrir hlutina. Þannig birtist þetta nú. Ég hygg að því verði ekki á móti mælt.

Ég fór einmitt í gegnum þessa jarðfræðilegu og jarðeðlisfræðilegu kafla matsskýrslunnar og þeir eru satt best að segja ákaflega rýrir í roðinu. Ég hygg að við gætum fengið allar sömu upplýsingar bara með því að lesa nokkrar blaðsíður í jarðfræði Þorleifs Einarssonar þar sem farið er almennum orðum yfir það að þarna sé um eldvirkt svæði að ræða og móbergshryggi o.s.frv. Mikið meira er það nú ekki sem sett var inn í þá skýrslu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ætlunin að afgreiða þetta mál með sömu léttúð og mér finnst hæstv. ráðherra hafa gert í viðtölum við fjölmiðla eftir að þessar upplýsingar urðu opinberar. Ég vitna m.a. til opins bréfs til ráðherra frá fjórum einstaklingum sem birtist í Morgunblaðinu í gær, þeim Viðari Hreinssyni, Ragnheiði Margréti Guðmundsdóttur, Þorleifi Haukssyni og Guðmundi Páli Ólafssyni. Þar er spurt alveg beinharðra spurninga. Er sem sagt ætlunin að ýta þessu bara til hliðar eins og öllu öðru sem flokka mætti undir gagnrýni eða efasemdir um réttmæti þessara framkvæmda? Og er þó ekkert lítið undir þegar þessir þættir koma upp á borðið því þar erum við kannski einfaldlega að fjalla um áreiðanleika eða áhættu framkvæmdarinnar sem slíkrar í heild sinni, að hún geti bara orðið ónýt eða hrunið og auðvitað þá með skelfilegum afleiðingum. Maður vill helst ekki tala mikið um það upphátt því að maður verður sjálfsagt sakaður um hræðsluáróður og einhverjar óguðlegar hugsanir ef maður fer að ræða um mögulegt stíflurof eða annað í þeim dúr en auðvitað er það hlutur sem menn verða að taka mjög alvarlega. Það er möguleiki á einhverju slíku.

Gleymum þá ekki, herra forseti, að við erum að ræða um einstæðar aðstæður í heiminum og ég leyfi mér nú reyndar að fullyrða algerlega einstæðar. Ég held að það sé hvergi nokkurs staðar í heiminum verið að reyna það sem þarna stendur til að gera og hefur svo sem að hluta til kannski verið gert áður á Íslandi með virkjunum jökulvatna á eldvirkum svæðum. En þarna fara saman allir þessir áhættuþættir sem hægt er að hnoða á einn blett á jarðkringlunni í raun og veru, allir ef maður lítur til náttúruhamfara sem geta haft áhrif á svona mannvirkjagerð. Þarna er í fyrsta lagi jökull á bak við með sínum dyntum, sem getur hlaupið fram, þar sem myndast geta stíflur, síðan hlaup o.s.frv. Þarna er í öðru lagi eldvirkni, þekkt undir jöklinum sem ein og sér getur valdið miklum hamfarahlaupum. Þarna er um að ræða eldvirkt svæði, Kárahnjúkar sem eldstöð eru væntanlega einhvers staðar á bilinu 10--100 þúsund ára gamlir. Þeir eru sem sagt mjög nýlegir, sennilega þegar maður lítur á það hversu lítið sorfnir þeir eru frá því mjög seint á síðasta jökulskeiði ísaldarinnar þannig að maður gæti leyft sér út frá því að giska á að þeir væru ekki meira en um 12--20 þúsund ára gamlir. Þá hefur orðið gríðarlegt gos á þessu svæði. Þarna eru mikil misgengi, þarna eru miklar sprungur, þarna er mikið brotaberg og ótraust berg, þarna eru jarðlög sem eru erfið til hefðbundinnar mannvirkjagerðir, þetta eru ekki jarðlög, a.m.k. þau sem liggja ofar og efst, sem menn mundu hlakka til að glíma við í jarðgangagerð og menn hafa líka spurt að því hvernig mun ganga að heilbora í slíkum jarðlögum. Menn hafa haft efasemdir um sjálfan grágrýtis- eða blágrýtisstaflann svo maður tali nú ekki um jarðlög sem eru enn yngri. Yfir þetta allt saman hefur verið ákaflega frjálslega skautað. Inn á þetta kemur Grímur Björnsson í greinargerð sinni og samantekt og það hefur orðið fátt um svör. Aðeins einu atriði hafa menn talið rétt að svara í þessu sambandi ef marka má viðbrögð Landsvirkjunar sem orkumálastjóri sá til að fengi samantektina og það er þetta með flotjafnvægi jarðskorpunnar og mögulega hættu því tengdu og þar er málið afgreitt þannig að líklegt sé að þetta verði af stærðargráðunni 30 sentimetrar, og að búast megi við því og telja verði ólíklegt --- það eru orðin sem notuð eru til að afgreiða þetta.

Herra forseti. Fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um þetta að segja og hvort til stendur að fara eitthvað rækilegar yfir þetta. Er t.d. hæstv. ráðherra tilbúin þó ekki væri nú nema í þessu eina tilviki og þetta eina skipti að bregðast þannig við að taka á sig rögg og segja: Ég mun láta leita til óháðra sérfræðinga, tveggja, þriggja valinkunnra manna og biðja þá að fara rækilega fyrir þennan þátt málsins. Þannig að menn hafi þá a.m.k. eitthvað í höndunum frá fleiri aðilum um þetta áður en allt verður farið þarna á fulla ferð þó að það virðist þegar vera farið að gerast, samanber fréttir af stórsprengingum og öðru slíku.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, herra forseti og gef hæstv. ráðherra kost á því að svara.