Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 17:18:48 (5130)

2003-03-14 17:18:48# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[17:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefðum við út af fyrir sig getað lesið sjálf. Þetta var bara orðrétt það sem kemur fram í þessari stuttu samantekt Freysteins Sigmundssonar og það sem við höfum verið að óska eftir er að þetta mál verði tekið alvarlegar en þetta.

Ég spurði hæstv. ráðherra t.d. --- ég er ekki að gera lítið úr þessum ágætu vísindamönnum en ég þykist alveg vita við hvaða aðstæður þeir hafi búið þegar þeir tóku þetta saman. Þeir voru ekki í færum til þess að fara út í ítarlegar rannsóknir eða láta sem sagt afla einhverra viðamikilla gagna, a.m.k. ekki feltrannsókna svo að mér sé kunnugt um. Og það er einmitt á það bent ef ég man rétt í greinargerð Gríms að það hefði auðvitað verið æskilegt að slíkra upplýsinga væri aflað með rannsóknum á svæðinu.

Síðan segir orðalagið sína sögu. Menn treysta sér ekki til að taka afdráttarlausar til orða en þarna er gert. Og er þetta nóg? Nægir það okkur að telja verði ólíklegt að þetta hafi slík áhrif? Sem sagt, hverjar eru þá líkurnar ef við værum að reyna að giska á þær, ef við værum að reyna að átta okkur á því hver áhættan væri? Er það 10%, 20% eða 30%? Ef þær eru minni en 30%, er þá hægt að taka svo til orða að það verði að telja það ólíklegt og er það nóg til að byggja þessa mestu framkvæmd Íslandssögunnar og alla þá áhættu sem því fylgir ef þarna færi eitthvað úrskeiðis? Það er ekki eins og það sé eitthvert smáræði í húfi. Þetta eru gríðarleg mannvirki, herra forseti, að setja á svona stað sem þarna er með þeim eiginleikum sem bergið hefur á þessum slóðum o.s.frv. Ég hef heyrt þær fregnir að mönnum hafi ekki gengið allt of vel á köflum í fyrstu sprengingunum þegar þeir voru að reyna að komast af stað inn í göng og annað í þeim dúr, fengið að kenna á því að bergið, a.m.k. efstu lögin þarna á svæðinu, er ekkert sérstaklega auðvelt viðureignar eins og það er gert og þarf ekki að koma neinum manni á óvart sem þekkir til þess hvernig svona jarðlög sem myndast við gos undir jöklum verða.