Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 17:52:46 (5133)

2003-03-14 17:52:46# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[17:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hv. formaður heilbr.- og trn., Jónína Bjartmarz, hefur gert grein fyrir nál. heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lyfjalögum og læknalögum. Ég skrifaði undir nál. þetta með fyrirvara. Ástæðan fyrir því að ég skrifa undir með fyrirvara í stað þess að gera sérstakt nefndarálit er að í meðferð heilbr.- og trn. gjörbreyttist frv. Eftir þær breytingar er mun meira tillit tekið til persónuverndar, verndar einkalífs og friðhelgi einstaklingsins, en var í fyrra frv. Allt aðgengi að þessum lyfjagrunni hefur verið takmarkað. Af þeim sökum get ég skrifað undir nál. þetta með fyrirvara en er ekki með sér nefndarálit.

Ég legg hins vegar fram brtt. á þskj. 1385 og mun gera grein fyrir þeirri tillögu um leið og ég fer nokkrum orðum um frv.

Þetta frv. og tilkoma gagnagrunnsins kemur til af því að við búum yfir nýrri tækni til að gera gagnagrunna. Tölvutæknin gefur okkur ýmsa möguleika til hagræðis og til að flýta vinnslu á öllum sviðum, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Ástæðan fyrir því að þessi vinna fór í gang var aftur á móti sú að í þjóðfélaginu kom upp töluverð umræða um meint misferli bæði lækna og einstaklinga varðandi misnotkun á ávanabindandi lyfseðilsskyldum lyfjum, sem og lyfjum sem ekki eru lyfseðilsskyld en fólk sækir í til að komast í vímu eða nota með öðrum efnum. Umræðan í þjóðfélaginu varð það hávær að ástæða þótti til að kanna hvernig hægt væri að hafa hemil á þessu og draga úr ávísunum lækna á eftirritunarskyld lyf sem valda vímu og fíkn.

En það er ekki nóg að upp komi svona vandamál og að tæknin sé til staðar. Einnig var til staðar hjá Tryggingastofnun ríkisins tölfræðigrunnur. Þar er verið að byggja upp mikinn gagnagrunn þótt hann hafi verið lítið nýttur til þessa. Hann varð til með lögum sem samþykkt voru í fyrra um að allar lyfjaverslanir skyldu senda Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar um afgreiðslu lyfseðilsskyldra lyfja á rafrænu formi og upplýsingarnar færu dulkóðaðar til Tryggingastofnunar ríkisins. Þar eru þær geymdar. Það er nauðsynlegt að breyta umgjörð gagnagrunnsins sem þar er að byggjast upp þar sem mikið vantar á að sá grunnur sé heldur gagnvart Persónuvernd, m.a. er ekkert sagt til um hversu lengi eigi að geyma gögn í grunninum og hvernig eigi að eyða upplýsingum úr honum. Þar safnast upp mikill grunnur sem þarf skýran ramma.

Í frv. er unnið út frá niðurstöðu stýrihóps sem settur var á laggirnar til að vinna þarfagreiningu fyrir landlæknisembættið, Tryggingastofnun ríkisins og Lyfjastofnun. Frv. bar þess merki að litið hefði verið til grunnsins sem er að verða til hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þess vegna var kveðið á um það í frv. að Tryggingastofnun ríkisins hefði þennan grunn, bæri ábyrgð á honum og flokkuninni, að upplýsingarnar væru annaðhvort persónugreinanlegar eða ekki. Í vinnu heilbr.- og trn. er búið að gjörbreyta þessu. Þetta verða tveir grunnar. Sem fyrr koma gögnin frá lyfjaverslununum, þau eru dulkóðuð frá þeim til Tryggingastofnunar, hún vinnur úr þeim og setur í grunnana. Annar er alveg lokaður, þ.e. ekki hægt að fá þar upplýsingar um persónueinkenni eða auðkenni, hvorki nafn né kennitölu læknis eða sjúklinga. Þennan grunn á að nýta til að fá tölfræðilegar upplýsingar. En til að hægt sé að nota grunninn í vísindalegu skyni, til að heilbrigðisyfirvöld og aðrir sem á þurfa að halda geti nýtt hann, verða persónuauðkenni alltaf dulkóðuð á sama veg hjá hverjum og einum. Þetta er að hluta til veikleiki því þá er grunnurinn viðkvæmari fyrir því að hægt sé að komast inn í hann og rekjanlegri. Það er því margt að varast varðandi gagnagrunna.

[18:00]

Hinn grunnurinn, sem er þá svokallaður lyfjagagnagrunnur og er alveg greinanlegur hvað varðar sjúklinga, lækna og lyf, er í vörslu landlæknisembættisins þó svo að tæknilega sé hann vistaður hjá Tryggingastofnun. Þar eru bara tölvurnar, eins og krakkarnir segja. Í stað þess að Tryggingastofnun hafi umsjón er það landlæknir einn sem hefur umsjón með þessum persónugreinanlega grunni, eða lyfjagrunni, og frá því er þannig gengið að hver stofnun fyrir sig kemst ekki inn í þann grunn nema með fyrir fram skilgreindum ákvæðum og tilgangi og það er landlæknir einn sem getur leyft aðgang að honum. Okkur ber ekki alveg saman um hversu langt á að teygja sig í því að bæði Tryggingastofnun og landlæknir geti nýtt þennan persónugreinanlega grunn.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum allan varann á gagnvart miklum og stórum gagnagrunnum sem snúa að einstaklingum og upplýsingum um líf þeirra og kjör eins og lyfjagagnagrunnurinn verður því fátt er mikilvægara en upplýsingar um lyf sem maður tekur. Lyfin gefa líka vísbendingu um sjúkdóma. Þarna erum við í raun að safna verðmætum sem a.m.k. lyfjafyrirtækin, framleiðendurnir, mundu gjarnan vilja komast í til þess að geta skoðað vel hvernig læknar ávísa. Sérstaklega mundu tryggingafyrirtæki gjarnan vilja komast í svona grunna til þess að átta sig á heilsufari þeirra sem tryggja sig hjá þeim. Ég nefni bara þarna tvo aðila sem mundu borga mikið fyrir að komast inn í þessa grunna. Það er alveg vitað af þessari löngun þarna úti í þjóðfélaginu, hún er ekki bara hér, hún er alls staðar. Þess vegna er svo mikilvægt að öryggið sé með öllum ráðum, hvað varðar gerð grunnanna og þennan tæknilega búnað, látið sitja fyrir og það þá á kostnað þess að geta fengið upplýsingar ef það þarf að þýða það. Þeir sem þekkja vel til í þessum tölvuheimi og eru sérfræðingar á þessu sviði segja einfaldlega að það sem hægt sé að byggja upp í tölvum sé hægt að brjóta niður og komast inn í.

Ef við gerum ráð fyrir því að frá þessum grunnum sé gengið með eins tryggilegum hætti og hægt er eru samt margir sem koma að vinnunni, eins og bara þessu ferli hjá Tryggingastofnun ríkisins sem tekur við lyfseðlunum frá lyfjaverslununum, og þar er þá kannski fyrsti veiki hlekkurinn. Ég nefni þarfagreininguna. Þegar verið er að smíða grunn eins og þennan lyfjagrunn, sem á að uppfylla þarfir þriggja ólíkra stofnana, er krafan um að komast inn í hann meiri en ef landlæknir einn hefði þarfagreiningu sína og þyrfti að komast inn í hann, eða Tryggingastofnun með sína þarfagreiningu þyrfti ein að komast inn í hann. Við erum að viðurkenna fleiri þarfir en kannski nauðsynlegt er til þess að komast inn í þennan persónugreinanlega grunn.

Ég fer þá aðeins yfir það sem ég tel helstu galla þessa frv. þrátt fyrir þær góðu breytingar sem hafa verið gerðar. Þetta er og verður stór og mikill gagnagrunnur og hann geymir meiri upplýsingar en nauðsynlegar eru fyrir hverja stofnun, eins og ég sagði áðan. Hann nær yfir og geymir upplýsingar um allar afgreiðslur lyfseðilsskyldra lyfja, og það er til þess að uppfylla m.a. þarfir þessara mismunandi stofnana. Tryggingastofnun ríkisins fær upplýsingar um lyfjanotkun sem stofnunin tekur ekki þátt í að greiða. Og hvers vegna á hún að fá þær? Tryggingastofnun getur í dag fengið upplýsingar um lyfjaávísanir lækna til að kanna lyfjaávísanavenjur þeirra, vegna eftirlits með lyfjakostnaði. Hún fær hins vegar ekki upplýsingar um sjúklingana.

Það er hlutverk Tryggingastofnunar að fylgjast með lyfjakostnaði en fram að þessu hefur Tryggingastofnun ekki verið að kanna lyfjanotkun einstakra lækna, heldur hefur það verið á ábyrgð landlæknisembættisins. Þróun lyfjaávísana, þ.e. á hvaða lyf innan sama lyfjaflokks er ávísað, ódýrustu lyfin eða þau dýrustu, er nokkuð sem Tryggingastofnun hefur auðvitað áhuga á, en landlæknir hefur borið þá ábyrgð að gefa læknum klínískar leiðbeiningar til þess að velja rétt lyf og þau ódýrustu sem gefa jafngóða verkun og önnur. Dýrustu lyfin eru ekkert alltaf best og þetta er á ábyrgð landlæknisembættisins. Ég sé ekki að Tryggingastofnun þurfi að hafa þennan aðgang að persónugreinanlega grunninum.

Hvað á hún svo að gera með þessar upplýsingar? Hvernig á hún að hafa aðgang að læknunum? Það hlýtur þá að vera í gegnum landlækni. Og hann á að fá leyfi til þess að hafa aðgang að lyfjagrunninum, m.a. til að hafa almennt eftirlit með ávísunum lækna á lyf og fylgjast með þróun lyfjanotkunar samkvæmt 19. gr. læknalaga. Honum ber að gera það í dag. Hann gerir það í dag. Hann gerir það með því að fylgjast með sölu lyfja og með klínískum rannsóknum á lyfjanotkun. Mér finnst vera fulllangt gengið að landlæknisembættið fái opna heimild til að fylgja eftir þessum þætti sem honum ber skylda til samkvæmt læknalögum, með því að komast inn í grunninn þótt þetta sé þarna. Hann hefur aðrar leiðir og það er mjög viðkvæmt fyrir marga að þetta ákvæði sé þarna inni, ekkert síður vegna sjónarmiða mannverndar en sjónarmiða læknastéttarinnar sem er alfarið á móti því að þessi grunnur sé svona opinn. Læknafélagið segir hins vegar: ,,Landlæknir hefur og á að hafa þetta eftirlit``, en hann á að gera það með öðrum hætti. Hann hefur margar leiðir aðrar en þá að nota persónugreinanlega grunninn.

Þetta er það tvennt sem mér finnst ganga of langt miðað við þó allar þær ágætu breytingar sem búið er að gera á þessu, koma upp tveimur ólíkum grunnum. Persónuvernd hefur farið yfir þetta og gefið okkur góð ráð. Síðan verður það hlutverk Persónuverndar að fylgjast með að farið sé að öllum leikreglum og alls öryggis gætt. En þó að Persónuvernd hafi lagt blessun sína yfir frv. eins og það lítur út í dag má segja að tillaga þeirra hefði verið á allt annan hátt, þetta hefðu verið sérhæfðir grunnar fyrir hvert embætti fyrir sig sem hefði þá aðgang eingöngu að þeim upplýsingum sem hver stofnun þyrfti á að halda, og grunnarnir þannig upp byggðir. Það hefði verið fyrsta val til þess að vera ekki að byggja upp svo stóra grunna sem hugsanlega væri hægt í framtíðinni að tengja við aðra, eins og gagnagrunn eða hugsanlega grunn sem kæmi einhvern tíma í framtíðinni um heilsufarsupplýsingar almennt frá læknum þar sem allt væri skráð inn í miðlægan grunn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Þetta er sá vari sem ég hef á. Ég treysti því að vel verði með grunnana farið. Og ég treysti landlæknisembættinu til þess að fara vel með ábyrgð sína hvað varðar það að opna grunninn fyrir persónugreinanlega grunninn eða lyfjagrunninn og fara þar eftir mjög ströngum reglum. En ég tel að það sé of greiður aðgangur þarna að of miklum upplýsingum fyrir Tryggingastofnun og landlækni sem engin þörf er fyrir.

Því legg ég til að þeir liðir sem snúa að Tryggingastofnun og landlæknisembættinu falli brott og að c-liður 27. gr. hljóði þá þannig: Landlæknir starfrækir lyfjagagnagrunn um afgreiðslu lyfja vegna eftirlits með ávana- og fíknilyfjum. Síðan falli hinar greinarnar brott.