Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:35:10 (5138)

2003-03-14 18:35:10# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:35]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka aftur fyrir þetta innlegg. Ég er enn þeirrar skoðunar þótt ég sé ekki tæknilega inni í þessum dulkóðunarbransa að vafi leiki á um það öryggi sem við mundum vilja hafa og ég er sérstaklega viðkvæm fyrir þessu vegna þess að við búum í svo litlu þjóðfélagi og það er svo auðvelt að ná til okkar ef fólk fær viðkvæmar upplýsingar um einkahagi okkar.

En ég vil benda á það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að mér finnst þetta frv. fyrst og fremst ganga út frá forsendum þarfa og hugsanlegra þarfa og mögulegra framtíðarþarfa stofnana en ekki hagsmuna eða þarfa sjúklinganna sjálfra. Og ég vil ekki tala um sjúklinga í þessu sambandi heldur einstaklinga því það fólk sem kaupir þau lyf sem verið er að ræða um er ekki endilega einu sinni skilgreint sem sjúklingar. Þetta eru bara borgarar þessa lands.