Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:47:27 (5141)

2003-03-14 18:47:27# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara að segja að ég deili ekki þessum áhyggjum hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur. Auðvitað verðum við alltaf að fara mjög varlega með upplýsingar eins og þessar. En eins og komið hefur fram í máli mínu þá tel ég mjög mikilvægt fyrir stjórnvöld að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem þeim eru veittar með þessum grunnum og ég tel að ekki sé verið að fara inn á persónuverndina með þessu. Ég held að við séum búin að ná utan um það með breytingunum sem komu fram í nefndinni, að þarna sé verið að ógna verndinni á nokkurn hátt. Auðvitað má kannski segja að aldrei sé hægt að útiloka algjörlega að þarna náist einhverjar persónulegar upplýsingar út. En ég held að við séum búin að tryggja það eins vel og hægt er að þarna sé ekki hætta á ferðinni varðandi persónuverndina. Þess vegna skrifa ég undir þetta mál án fyrirvara.

Vissulega er hverjum og einum sjálfsagt að efast um það. En ég held að við séum búin að ná þessu nokkuð vel eins og við gerum og ég tel stjórnvöldum nauðsynlegt að hafa aðgang að þessum upplýsingum því án þeirra fer allur kostnaður við lyf og þátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði úr böndunum nema menn hafi einhver verkfæri til að taka á því. Því held ég við höfum náð með þessu frv.