Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:51:34 (5144)

2003-03-14 18:51:34# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv., aðeins örfá orð.

Ég vil taka undir margt sem fram kom í máli hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur og segja að fyrir fáeinum árum hefði ég ekki haft nokkrar einustu efasemdir um mikilvægi þess og ágæti að safna saman upplýsingum um heilsufar og lyfjanotkun og viljað safna því undir einn hatt undir handarjaðri heilbrigðiskerfisins. Ég hef nú orðið vaxandi efasemdir um þetta. Hvers vegna? Vegna þess að við erum að færa okkur inn í gerbreytta veröld. Í heimi þar sem allt er tryggt, þar sem við höfum tryggingar í almannatryggingum fyrst og fremst, frjálsan og jafnan aðgang að heilbrigðisstofnunum o.s.frv. þá eru þessar hættur ekki eins miklar og í þeim heimi sem við erum að færa okkur inn í, þar sem fólk tryggir sig hjá tryggingafélögum, þar sem heilsufar og upplýsingar um heilsufar einstaklingsins eru orðnar að verslunarvöru í sjálfu sér, þar sem fólk fær mismunandi tryggingar eftir því hvert heilsufarið er.

Ég skrifaði einhvern tímann blaðagrein í kjölfar þess að inn um bréfalúguna heima hjá mér kom dreifibréf undir heitinu Sumargjöf þar sem ég var hvattur til þess að gefa einhverjum sem mér þætti vænt um tryggingu hjá tryggingafyrirtæki sem tryggði heilsufar einstaklinganna. Allt átti þetta að vera á mjög hagstæðum kjörum. En það voru settir ákveðnir fyrirvarar og fyrirvararnir voru þeir að viðkomandi hefði ekki átt við erfiða sjúkdóma að stríða og það sem meira er, hann yrði að geta staðfest að hið sama ætti við um aðstandendur. Síðan voru taldir upp ýmsir sjúkdómar sem skertu möguleika viðkomandi á að fá þessa tryggingu. Þetta eru bara staðreyndir. Þetta er hin nýja veröld. Þarna verða upplýsingarnar um einstaklinginn að verslunarvöru, verðmæti í sjálfu sér.

Við kynntumst þessu náttúrlega í umræðunni hér um miðlægan gagnagrunn og Íslenska erfðagreiningu sem á sínum tíma falbauð upplýsingar sem fyrirtækið hugðist komast yfir, tryggingafyrirtækjum, sendi út tilboð til erlendra tryggingafyrirtækja og sagðist hafa komist yfir þjóð sem væri kjörin til rannsókna. Ég man eftir því að í heilbr.- og trn. þingsins var um það rætt að fyrirtækið vildi fá aðgang að upplýsingum um lyfjanotkun, um ávísanir á lyf og ekki nóg með það heldur einnig á neyslu lyfja í apótekum. Með öðrum orðum þá var ekki nóg með að viðkomandi vildi vita hvað hefði verið ávísað á einstaklinginn heldur líka fá vissu fyrir því hvort hann hefði örugglega skóflað pillunum niður. Þetta er sá heimur sem við erum að færa okkur inn í og það er þess vegna sem maður hefur þessar efasemdir.

En ástæðan fyrir því að ég vildi hafa þessar upplýsingar allar inni í heilbrigðiskerfinu sem ég bar fullkomið traust til var náttúrlega sú að af því hlýst margvíslegt hagræði og trygging og öryggi fyrir einstaklinginn því ef hann slasast á einum stað og upplýsingarnar um hann eru á öðrum þá er mjög mikilvægt að fá aðgang að þessum upplýsingum. Þetta eru svona mótsagnirnar í þessu kerfi öllu.

Það er þess vegna sem ég tek undir þau varnaðarorð sem hér komu fram hjá hv. þm. og ég lýsti samstöðu með hér í upphafi. En aðkoma okkar í Vinstri hreyfingunni -- framboði að þessu frv. var skilyrtur stuðningur, en skilyrtur við þessi atriði. Hv. þm. Þuríður Backman hefur lagt fram brtt. við frv. til þess að draga úr þessari miðstýringu og hugsanlegu aðgengi að upplýsingunum.

Þetta eru svona varnaðarorð sem ég vildi hafa uppi. Ég vildi gera grein fyrir þeirri mótsagnakenndu afstöðu sem er örugglega að berjast um í huga okkar allra í ljósi þess að við erum að færa okkur inn í breyttan heim þar sem ástæða er til að sýna mikla varúð.