Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:57:36 (5145)

2003-03-14 18:57:36# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:57]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir orð hans. Það er einmitt vegna þessa breytta heims sem ég hef haft mínar efasemdir. Að sjálfsögðu viljum við tryggja okkar fólki bestu og öruggustu þjónustu sem hægt er að hugsa sér og bestu heilbrigðisþjónustu sem við getum mögulega veitt. En við getum ekki tryggt að þessar upplýsingar fari ekki á stjá og að þær séu ekki misnotaðar. Í heimi þar sem heilsufar og upplýsingar um heilsufar ganga kaupum og sölum er vafasamt að fara út í jafnvíðtæka upplýsingasöfnun og við höfum verið að gera að undanförnu.

Ég vil bara spyrja að einu. Hingað til hef ég ekki verið með beinar tilvitnanir í fólk í ræðustól í þau 12 ár sem ég hef setið á þingi. En hvers vegna er ég að fá upphringingar frá því fólki sem vinnur einmitt við viðkvæmustu upplýsingarnar? Það fólk er að fara fram á að ekki verði gengið svona langt.