Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:29:12 (5159)

2003-03-14 20:29:12# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Um hv. þm. Ögmund Jónasson vil ég bara segja eitt: ,,Þetta, sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann.`` Þingmaður úr hans flokki hefur í kvöld nefnt það að á næsta kjörtímabili muni falla til mikil verðmæti vegna stórframkvæmda. Við vitum hvaða stórframkvæmdir þetta eru. Það er álver og orkuvirki á Austurlandi og álver á Grundartanga. Þingflokkurinn sem þeir tilheyra er á móti þessum framkvæmdum. Samt finnst þeim ágætt að hugsa til þess að það verða til peningar vegna þeirra og þeir hafa meira að segja hugmyndir um hvernig eigi að verja þeim peningum.

Hitt vildi ég líka segja að atvinnustefna VG er um margt prýðileg. Í henni eru þættir sem eru ákaflega góðir. Til dæmis hefur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagt fram þingmál þar sem talað er um að styrkja og efla lítil og meðalstór fyrirtæki. Þegar formaður VG rökstuddi þá stefnu í ræðustól, hvert vísaði hann þá? Man hv. þm. Ögmundur Jónasson hvert formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framborðs vísaði? Hann vísaði til Evrópusambandsins. Hann sagði að þar hefði þetta lukkast svo vel. Eins og menn vita er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð líka á móti Evrópusambandinu, en sækir þó fyrirmyndir þangað.

Herra forseti. Til þess að hv. þm. velktist ekki í vafa um atvinnustefnu okkar í Samfylkingunni yrði ég líklegast að halda langa ræðu og hugsanlega mun ég gera það á eftir en eitt vil ég að sé alveg skýrt: Það er ekki partur af henni að vera á móti stóriðju. Við erum með stóriðju. Við erum með hátæknivæddri stóriðju. Við höfum alltaf verið það. En við viljum líka efla lítil fyrirtæki. Við höfum líka lagt fram tillögu um stofnstyrki til þess að taka utan um viðskiptahugmyndir sem ella er líklegt að mundu hverfa úr landi, og svo gæti ég áfram haldið. Nú er það svo að ef hv. þm. mundi einhvern tíma vilja koma til liðs við minn flokk held ég að hann mundi duga vel í slagnum um að styrkja atvinnulífið. Honum er margt vel gefið í þeim efnum.