Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:36:34 (5163)

2003-03-14 20:36:34# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:36]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um um það frv. til fjáraukalaga sem við erum að ræða og sem að megni til og eingöngu snýst um það sem hér hefur verið sett inn í til þess að gefa í atvinnumálum, þ.e. þá 4,7 milljarða sem komu og eyða á, í samgrn. 3 milljörðum, í menntmn. 1 milljarði og iðnrn. 700 millj.

Auðvitað er fagnaðarefni að þetta skuli gert en það má eiginlega segja líka þó ég ætli ekki beint að gagnrýna ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að hafa hljóð í þingsalnum og halda sína fundi utan salarins ef nauðsynlegt er.)

Ég vil ekki beint gagnrýna það en ég vildi hafa sagt það samt í þingræðu að þessi innspýting í hagkerfið, að gefa peninga til framkvæmda, er sett inn til þess að skapa atvinnu og minnka atvinnuleysi fram að þeim tíma þegar hin miklu og góðu verk fyrir austan hefjast, þ.e. af fullum krafti við byggingu Kárahnjúka og álvers. Það sem ég vildi segja er að auðvitað hefði verið betri bragur á því ef þetta hefði verið undirbúið í lengri tíma af hæstv. ríkisstjórn, að byrjað hefði verið á því kannski 6--10 mánuðum fyrr að áætla að það þyrfti að gera þetta á þessum tíma vegna þess að það er nú svo einu sinni, herra forseti, að það á að vera og ætti að vera bæði auðveldara og er nauðsynlegt að hafa betri heildarsýn í einhverjum stofnunum ríkisins yfir fyrirhugaðar framkvæmdir ríkisins, sveitarfélaga, einkaaðila, stórfyrirtækja og annarra til þess að vega og meta það sem fram undan er í framkvæmdum, til að vega og meta atvinnuástand og hvað verður um að vera hjá einstökum verktakahópum, einstökum atvinnuhópum.

Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að það kom fram hjá okkar ágæta fyrrverandi vegamálastjóra, Helga Hallgrímssyni, að hann hefði heyrt minnst á þessa innspýtingu til vegaframkvæmda á sama tíma og aðrir landsmenn í fréttum fjölmiðla. Auðvitað hefði þetta þurft meiri undirbúning. Það hefði verið betra af ríkisstjórnin hefði gefið stofnunum sínum upplýsingar fyrr, í þessu tilviki að ráðuneyti samgöngumála hefði haft samband fyrr við Vegagerðina og undirbúningur hefði verið settur í gang vegna þess að margar þeirra ágætu framkvæmda sem við ætlum að fara í hefjast kannski ekki fyrr en eftir 12 eða jafnvel 18 mánuði vegna þess að undirbúningur er ekki kominn nógu vel á veg.

Eðlilega hefur verið tekist á og sitt sýnist hverjum, þingmannahópum hinna ýmsu kjördæma. Mönnum finnist að meira ætti að vera í sínu kjördæmi og að meira vanti. En þar með er ekki sagt að of mikið sé hjá öðrum. Það vil ég ítreka og segja að ákaflega mikilvægt er að hafa þetta í huga. En auðvitað vilja allir fá meira í sitt kjördæmi í þau mál sem viðkomandi þingmenn þekkja manna best. Þeir eru í raun sérfræðingar á sínu sviði og í sínum kjördæmum og það er ekkert óeðlilegt við það. Það er mjög eðlilegt að skiptar skoðanir séu um það og menn vilji fá meira í sín kjördæmi.

Til dæmis er það þannig að auðvitað höfum við landsbyggðarþingmenn það í huga að meira þarf til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu í umferðarmálum vegna geysimikillar umferðar sem er fylgjandi hinni stórkostlega miklu fjölgun bifreiða okkar Íslendinga og hefur áður verið rætt um það hér hvað gerst hefur í þeim málum undanfarin þrjú til fimm ár. Það hefur orðið sprenging í bílaeign landsmanna. Hér snýst þetta um öryggismál. Hér á höfuðborgarsvæðinu snúast vegaframkvæmdir um að gera vegi öruggari, gera gatnamót öruggari, reisa göngubrýr o.s.frv. Jafnframt snýst þetta um það að á ákveðnum tímum dags skapast vandamál vegna mikillar umferðar og umferð gengur hægt. Það er bara allt of mikil traffík, ef ég nota það ljóta orð. Auðvitað er eðlilegt að þingmenn höfuðborgarsvæðisins vilji berjast fyrir því að auka öryggi í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu þannig að það dragi úr umferðarteppu og að sjálfsögðu erum við landsbyggðarþingmenn sammála þessu vegna þess að þetta er það sem allir verða að hafa í huga og vitaskuld er þetta mjög arðbært.

Herra forseti. Hins vegar erum við að tala um jafnvel að byggja í fyrsta skipti vegi á nútímalegan hátt á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni. Á allt of mörgum svæðum á landsbyggðinni mundu vegir flokkast hjá öðrum þjóðum undir samgönguminjasafn. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan sunnanverða Austfirði. Við getum farið á norðausturhornið og við getum farið á ákveðið á svæði á Vestfjörðum. Ástandið á mörgum vegarköflum þar er náttúrlega engan veginn viðunandi og vegirnir þar mundu, eins og ég sagði áðan, hjá öðrum þjóðum flokkast sem samgönguminjasafn.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, um leið og ég legg áherslu á að við þurfum að ná sátt um skiptingu og framkvæmdir. Við þingmenn á hinu háa Alþingi getum tekist á um þau mál, haft ákveðnar skoðanir á hvað eigi að gera. En við verðum líka að virða skoðanir hvers annars og hafa í huga að þingmenn tala af sérþekkingu fyrir kjördæmi sín.

Til dæmis kemur það upp í huga minn nú vegna þess að ég er nýkominn frá Austurlandi að þar hefur verið opnað tilboð í gerð jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Vonandi fara þær framkvæmdir að hefjast núna næstu daga. Ég sá það fyrir austan að þar voru menn frá verktakanum sem bauð lægst, þ.e. Ístaki, þegar komnir austur að undirbúa þær framkvæmdir sem þar verða og merkilegt nokk, sem kom mér dálítið á óvart þó ég telji mig ýmislegt vita um jarðgangagerð, þar verða 70 manns að störfum allan sólarhringinn og vinna þar í miklum lotum. En 70 manns verða við þá vinnu. Auðvitað skapast töluvert með því. Þó að mönnum finnist kannski 70 manns lítið þegar atvinnulausir eru orðnir 6.500 en þá skulum við líka hafa það í huga að margs konar önnur þjónusta eflist á sama tíma. Þess vegna vil ég líka, herra forseti, þó að það komi í raun ekki þessu máli við vegna þess að það var í samgönguáætlun sem var verið að samþykkja, fagna því alveg sérstaklega að í gærmorgun --- já að mig minnir á fimmtudagsmorgun frekar en miðvikudag ---- fengu þeir verktakar sem höfðu tekið þátt í forvali vegna jarðganga útboðsgögn í hendur fyrir jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, svokölluð Héðinsfjarðargöng. Að það útboð skuli loksins vera komið fram er auðvitað sérstakt fagnaðarefni. Það tilboð á að opna í lok maí með verktíma í lok næsta árs. Ég vona svo sannarlega að það megi takast. Það verður auðvitað reynt að fá því verkefni flýtt þannig að hægt verði að byrja fyrr. Ég held að það eigi að skoða það mjög alvarlega að ef verktaki hefur möguleika á og vill byrja það verk fyrr þá eigi að sjálfsögðu að verða við því þar sem gott væri að það verk gæti hafist sem fyrst því að það spilar sannarlega inn í þau mál sem við erum að ræða, þ.e. að gefa svolítið í, bæta við inn í efnahagslífið, koma fleiri verkefnum í gang og skapa meiri vinnu fram að þeim tíma þegar hin miklu og góðu verk hefjast af fullum krafti fyrir austan, þegar háannatími framkvæmda verður þar. Auðvitað ber að fagna því alveg sérstaklega að á morgun, laugardaginn 15. mars, skuli eiga að skrifa undir þær framkvæmdir og verksamninga um byggingu álvers á Reyðarfirði. Það er sérstakt fagnaðarefni og ég er alveg viss um það, eins og ég hef sagt áður, að það á eftir að skila Íslendingum miklum og góðum tekjum.

Herra forseti. Ég vil líka segja það hér að það er vonum seinna að meiri peningur skuli koma frá sölu ríkiseigna eins og hér er verið að tala um. Þá er ég að tala um þær 700 millj. sem eiga að koma til byggðamála, sem eiga að fara til Byggðastofnunar til atvinnuátaks á landsbyggðinni. Eftir þessu hefur verið beðið allt þetta kjörtímabil. Stjórnarflokkarnir töluðu oft um að milljarður mundi koma til Byggðastofnunar vegna sölu ríkiseigna og fara til byggðamála. Því er ekki nema eðlilegt og kannski ágætt að það skuli takast svona korteri áður en þingi verður slitið eða 20 mínútum fyrir kosningar að efna þetta loforð.

Herra forseti. Ég fagna því sem hér er verið að gera þó að ég gagnrýni ákveðna hluti og hefði viljað sjá ýmislegt öðruvísi gert í þessu, þ.e. við undirbúning, þannig að framkvæmdir hefðu getað hafist sem fyrst vegna þess að við höfum þörf á því að nú árið 2003, á vordögum og fyrri part sumars, fari sem flest þessi verkefni í gang. Það er því meiri spurning hjá mér hvernig að þessu hefur verið staðið og hvernig eigi að standa að svona flýtiframkvæmdum og um röð framkvæmda kannski örlítið. Það er meira það heldur en að þessir peningar skuli hafa verið settir inn. Ég get ekki annað en lýst því yfir að ég fagna því. En ég hefði viljað sjá ýmislegt öðruvísi og betur og faglegar að staðið í undirbúningi.