Eldi nytjastofna sjávar

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:49:38 (5164)

2003-03-14 20:49:38# 128. lþ. 101.16 fundur 680. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# (yfirstjórn fisksjúkdómamála, EES-reglur) frv. 73/2003, Frsm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:49]

Frsm. sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sem liggur frammi á þskj. 1368, þetta er nefndarálit hv. sjútvn. við 680. mál þingsins, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33 16. apríl 2002, um eldi nytjastofna sjávar. Á þskj. kemur fram að nefndin fékk á sinn fund fulltrúa sjútvrn. en tilgangur frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á markaðssetningu fiskeldistegunda og -afurða, sem íslensk stjórnvöld skuldbundu sig til með undirritun EES-samningsins. Eitt meginmarkmið tilskipunarinnar er að samræma eftirlit og kveður hún á um nánari skilgreiningu þeirra heilbrigðisskilyrða sem þarf að uppfylla svo milliríkjaviðskipti geti átt sér stað með lifandi eldisdýr innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins. Meginreglan samkvæmt tilskipuninni er sú að inn- og útflutningur fyrrgreindra afurða innan EES er heimill, enda sé heilbrigði dýra og afurða vottað af opinberum eftirlitsaðilum, hérlendis af embætti yfirdýralæknis.

Það skiptir miklu máli, herra forseti, að það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að sem sakir standa eru engar reglur í gildi um innflutning á dýrum þar sem bráðabirgðaákvæði laga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, sem kvað á um að sjávarútvegsráðherra skyldi veita leyfi, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, fyrir innflutningi lifandi fiska, skrápdýra, liðdýra eða lindýra sem lifa í söltu vatni gilti einungis til 31. desember 2002. Með innleiðingu tilskipunarinnar samkvæmt frumvarpinu fæst nauðsynlegt stjórntæki eða lagaákvæði til að gæta þess að innflutningur á sjávardýrum til eldis verði í samræmi við reglur á Evrópska efnahagssvæðinu og að einungis verði flutt inn eldisdýr sem eru laus við sjúkdóma sem ekki fyrirfinnast hér á landi.

Það er því mikilvægt, herra forseti, að þetta frv. geti orðið að lögum. Til að tryggja óbreytt heilbrigðisástand hafa fisksjúkdómayfirvöld óskað eftir viðbótartryggingu gagnvart alvarlegustu sjúkdómum, en sú trygging kveður á um sérstakar heimildir stjórnvalda til að verjast smitsjúkdómum á öflugri hátt en ella og takmarka innflutning frá löndum þar sem þeir finnast. Eru því miklir hagsmunir í húfi fyrir heilbrigði íslenskra fiskstofna. Formleg staðfesting ESA þess efnis fæst þó ekki fyrr en eftir innleiðingu tilskipunarinnar.

Þá kom einnig fram að lögfesting tilskipunarinnar er til þess fallin að bæta stöðu útflutningsgreina, einkum þá úr eldis- og nytjastofnum sjávar, að með því að geta sýnt fram á að svæðið uppfylli EES-reglur og sé laust við sjúkdóma fáist gæðastimpill á útflutningsvörur.

Hv. nefnd telur málið mjög þarft og mælir með því að það verði samþykkt óbreytt.

En, herra forseti, að athugun nefndarinnar lokinni kom fram að gildistökuákvæðið í frv. er ekki það sem best á við og því hef ég flutt tillögu sem ég geri nú grein fyrir, með leyfi forseta, og liggur frammi á þskj. 1369 við sama mál þess efnis að 2. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

Lög þessi öðlast þegar gildi.