Vatnsveitur sveitarfélaga

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 21:04:15 (5166)

2003-03-14 21:04:15# 128. lþ. 101.24 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[21:04]

Frsm. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hafði ekki alveg áttað mig á því að þetta mál væri að koma á dagskrá og það væri orðið eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar að afgreiða á þessum síðustu klukkutímum þinghaldsins sem okkur var búið að tjá að yrðu. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er að mínu mati einhver allra óþarfasti málatilbúnaður sem hér hefur lengi verið uppi þ.e. að ætla að fara að troða þessu frv. á einkavæðingu á kalda vatninu ofan í okkur, í gegnum þingið. Því það er það sem hér á að fara að gera. Að gera það að gróðaveitu í landinu að sjá mönnum fyrir neysluvatni. Þá er fátt orðið eftir heilagt. (ÖS: Nema ...) Fátt orðið eftir heilagt, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það er með ólíkindum að formaður Samfylkingarinnar skuli vera hér gleiðbrosandi úti í sal í ljósi þeirrar furðulegu niðurstöðu að þingmenn flokksins, Samfylkingarinnar í félmn. skrifa upp á þessi ósköp. (Gripið fram í: Og R-listinn sem þú styður.) Ég er ekki kjósandi R-listans, ég er svo hamingjusamur að vera í framboði og búsettur norður í landi þannig að ég kýs mér aðra sveitarstjórn. Það verð ég að segja, herra forseti, að ég held að formaður Samfylkingarinnar ætti að hemja gleði sína því að mér finnst vera ákaflega lítill sósíalismi í þessu frv., ákaflega lítil jafnaðarstefna í því. Bara ákaflega lítil. (Gripið fram í: Bara engin.) Ég veit að vísu að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er óskaplega hallur undir Tony Blair þó hann sverji hann af sér svona þegar verst gengur hjá Blair og flýr þá yfir til Frakklands, hoppar yfir Ermarsundið og leitar þá skjóls hjá frönskum krötum sem eru þó hótinu skárri þá stundina. En ef það er eitthvað sem er frægt að endemum, herra forseti, þá er það einkavæðing veitnanna í Bretlandi þar sem hv. þm. stærir sig stundum af að þekkja til, enda breskmenntaður og einhvern tíma stóðu menn í ræðustól á Alþingi og ræddu hvað það væri miklu merkilegra að vera doktor frá breskum háskólum heldur en öðrum háskólum. (ÖS: Það var bara einn sem gerði það.)

Herra forseti. Þangað er aldeils hægt að sækja reynsluna um það hvernig menn fóru út úr því þegar ofstækið bar menn svo algerlega ofurliði að menn ruku í það að einkavæða veiturnar í Bretlandi, svæðisbundnar veitur hjá sveitarfélögum eða ákveðnum svæðum, t.d. í Yorkshire. Þetta voru kannski veitur í misgóðu ástandi. Á hverju höfðu nýju eigendurnir áhuga? Aðeins á einum hlut, að græða, og þeir gerðu það ótæpilega þannig að menn sátu uppi með þessa náttúrlegu einokun sem kaldavatnsveitur eru auðvitað kannski umfram flest annað því ekki er reiknað með því að menn grafi upp götur í þorpum til þess að leggja margar vatnslagnir hlið við hlið inn í húsin til þess að geta keppt um það að selja mönnum vatn. Nei, auðvitað er það ekki þannig og nánast alls staðar á byggðu bóli er um eitt lagnakerfi að ræða. Og það er ekki auðvelt að koma við samkeppni á því, herra forseti, enda varð niðurstaðan sú að menn misfóru alveg stórlega með þessa aðstöðu sem þeir komust í, okruðu á vatninu, hirtu mikið fé út úr rekstrinum til að braska með jafnvel í fjarlægum heimsálfum. Menn lentu í því að ,,vatnsveitan`` þeirra var í eigu félags sem var í miklum fjárfestingum í fjarlægum heimsálfum og fluttu arðinn þangað. Það sem þá gerðist var að menn hættu að halda vatnsveitunum við. Menn mokuðu bara gróðanum til sín og fólk fékk sáralitla aðstoð þó að lagnirnar væru farnar að leka hjá þeim og annað í þeim dúr ósköp einfaldlega vegna þess að menn eru algerlega undir það seldir að kaupa viðskiptin af þeim eina aðila sem á vatnslögnina inn í húsið hjá þeim.

Aðdragandinn að þessu frv., herra forseti, er líka mjög merkilegur. Á borð okkar þingmanna komu eða voru sýnd og ég held flutt fyrir líklega tveimur vetrum einhver frumvarpsdrög, þau voru tvær línur ef ég man rétt eða tvær greinar. Talið var að einhver smáónákvæmni væri í orðalagi kannski sem varðaði það að stjórnir í sameinuðum fyrirtækjum þar sem vatnsveitur væru með, hefðu lögformlega rétta stöðu vegna þess að í lögum um vatnsveitur stendur í 2. gr.: ,,Sveitarstjórn fer með stjórn vatnsveitu í sveitarfélagi.`` Það er að vísu heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að hafa yfirumsjón með starfseminni o.s.frv. Þetta töldu menn að væru kannski á tæpu vaði þegar vatnsveita væri orðin sameinuð inn í fyrirtæki, t.d. hlutafélag hvers stjórn væri þá kosin eða valin með öðrum hætti. Hugmynd kom frá félmrh. um að breyta þessu með einföldu ákvæði og síðan var meiningin að setja inn ákvæði um það að sveitarfélög mættu þá þó um vatnsveitur væri að ræða inni í slíkum sameinuðum fyrirtækjum, taka einhvern arð af rekstri þeirra inn í sveitarsjóð. Þannig lagði þetta af stað. Og það stóð ekki til, herra forseti, að hrófla við 1. gr., eða 2. gr. að öðru leyti en því sem ég sagði, 3. gr. eða 4. gr. þar sem stendur í lögum að sveitarfélag sé eigandi vatnsveitu. Þannig er þetta í dag. Sveitarfélag er eigandi vatnsveitu þess og sér um lagningu allra vatnsæða hennar, aðalæða, dreifiæða og heimæða. Sveitarfélag annast og kostar viðhald vatnsæðanna. Síðan hafa verið í lögum og eru í lögum ákvæði um það að sveitarfélögum er að sjálfsögðu heimilt að taka vatnsgjald til þess að standa straum af kostnaði við vatnsöflun og vatnsdreifingu og gjaldið skal við það miðað að það ásamt öðrum tekjum sem veitan mögulega hefur standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Það er algerlega skýrt að um þjónustugjald er að ræða og ekki er ætlast til þess samkvæmt gildandi lögum að sveitarstjórnirnar séu að hala inn tekjur á því að veita þessa þjónustu. Síðan hafa verið þarna viðbótarákvæði sem er óþarfi að fara nánar út í, þ.e. um það hvernig þetta er auglýst, gjaldskrána og hlut annarra aðila í því, auglýsingum á gjalddaga og annað í þeim dúr. Svona er þetta sem sagt, herra forseti, og svona á þetta auðvitað að vera.

Hvernig nálgast menn þetta í hinum ágætu gildandi lögum um vatnsveitur sveitarfélaga? Þetta er skylduverkefni sveitarfélaganna. Í kaupstöðum og bæjum skal bæjarstjórn starfrækja vatnsveitu. Þetta er eitt af skylduverkefnum sveitarfélaganna. Þetta er almannaþjónusta, skylduverkefni sem sveitarfélögin eiga að sjá íbúum sínum, einstaklingum og atvinnulífi fyrir. Þetta er þjónusta, ekki tekjuuppspretta heldur er einungis heimilt að taka þau vatnsgjöld sem til þarf til þess að standa straum af rekstri vatnsveitunnar. Er eitthvað að þessu? Meiðir þetta einhvern hérna í salnum að hafa þetta svona? Ég óska eftir því að menn komi og geri grein fyrir því hvað er að slíku fyrirkomulagi. Hvað er að því fyrirkomulagi að rekstur vatnsveitna sé skilgreindur sem lögboðið skylduverkefni sveitarfélaga í landinu og þetta sé þjónusta sem ekki sé ætluð til sjálfstæðrar tekjuöflunar eða sem tekjuuppspretta fyrir sveitarfélögin? Það er frá þessu sem menn ætla að hverfa. Menn ætla að leggja út á braut einkavæðingar hefðbundins atvinnurekstrar í ágóðaskyni og menn ætla að opna dyrnar fyrir einkaaðila til að koma inn í þessa starfsemi og fara að hirða arð út úr rekstrinum, græða á kalda vatninu. Ég segi bara til hamingju. Ég óska framsóknarmönnum alveg sérstaklega til hamingju. Þeir eru að vísu allir fjarstaddir, herra forseti, tek ég eftir, en þeir skulu fá þessar hamingjuóskir samt. Ég óska Páli Péturssyni, fráfarandi félmrh., alveg sérstaklega til hamingju ef hann ætlar að hafa þetta sem sinn bautastein eftir langa dvöl á Alþingi, að ljúka verkum sínum með því að einkavæða kaldavatnsveiturnar í landinu eða opna dyrnar fyrir það í löggjöf. Það verður óbrotgjarn minnisvarði sem þessi fyrrum félagshyggjuforkólfur í vinstra armi Framsfl. ætlar þá að reisa sér.

Og ætli það geti ekki verið að einn og einn sjálfstæðismaður, hv. þm., sé jafnvel ekki svo forstokkaður og sanntrúaður í frjálshyggjunni að hann hafi efasemdir um þetta? En menn ætla að láta bjóða sér þetta samt. Eða hvað? Að það sé samt rétt að láta undan og leyfa mönnum að fara að græða og okra á kalda vatninu. Það er annað eins. Ja, ég ætla nú að fá mér, herra forseti, meðan það er ókeypis. (KVM: Þetta er vígt Gvendarbrunnavatn.) Já.

Herra forseti. Af einhverjum undarlegum ástæðum hefur þetta mál þróast þannig einhvers staðar í myrkviðum stjórnarsamstarfsins, inni í þeim myrku frumskógum, að þetta sakleysislega frv. sem í upphafi voru tvær línur og átti að lagfæra þetta tæknilega atriði um að staða stjórnanna í fyrirtækjum þar sem vatnsveitur væru komnar innan borðs gætu verið eitthvað hæpin, er allt í einu orðið að þessum ósköpum. Það er orðið að algerlega nýrri löggjöf um vatnsveitur sveitarfélaga, en það má samt ekki heita heildarendurskoðun laga. Og eins og formaður félmn. og frsm. sagði áðan er farin sú óhönduglega leið að þetta er flutt sem brtt. við gildandi lög en er nánast að öllu leyti nýtt frv. Og þegar við bætast brtt. meiri hlutans sem eru heilmikið skjal af því að frv. var til viðbótar ofan á allt annað svo illa unnið og hroðvirknislega að engu tali tekur, þá eru þetta orðin algerlega ný lög, enda um grundvallarbreytingu að ræða.

(Forseti (HBl): Á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?)

Þó nokkuð, herra forseti.

(Forseti (HBl): Þá vil ég biðja hann um að gera hlé á ræðu sinni.)

Já, ég hugsa að það væru nokkrar dagsláttur í fornu máli af orfaslætti ef ég hefði átt að klára það.