Raforkulög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 21:16:44 (5167)

2003-03-14 21:16:44# 128. lþ. 101.28 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[21:16]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni um raforkulög fór ég í gegnum þau atriði sem lutu í fyrsta lagi að markmiði og gildissviði laganna og í öðru lagi hver yrðu síðan afdrif þessara markmiða í meðferð frumvarpstextans. Í ljós kom, herra forseti, að markmiðin hljóðuðu upp á það, með leyfi forseta, í fyrsta lagi að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Í öðru lagi að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku. Í þriðja lagi að tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Og í fjórða lagi að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti. Þetta eru þau markmið sem sett voru í upphafi í þessum lagabálki. Þegar litið er síðan á afdrif þessara markmiða, má sjá hvernig þau verða í ákv. til brb. VII með frv. þar sem öllum þessum þrem síðasttöldu markmiðum er slegið á frest. Þeim markmiðum sem eiga að stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku og skipta landsmenn öllu máli er slegið á frest og eiga að fara í sérstaka nefnd. Og í öðru lagi, að tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda, því er líka slegið á frest og á að fara í sérstaka nefnd.

Þessum tveim veigamestu atriðum frv. sem því var ætlað að taka á er slegið á frest og það er sett í nefnd. Í texta með þessari nefndarskipan stendur, með leyfi forseta:

,,Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi.`` --- (Gripið fram í.) Það er spurning núna svona nokkrum klukkutímum fyrir kosningar, nokkrum klukkutímum áður en þing fer heim, hvaða þingflokkar það eru sem eiga að skipa þessa nefnd aðrir en þeir sem nú eru á Alþingi og gætu tekist á um þetta mál nú þegar. Og áfram vitna ég í ákv. til brb. VII: --- ,,Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti fimm fulltrúar frá Samorku, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum. Þá skal fjármálaráðherra skipa einn fulltrúa í nefndina og iðnaðarráðherra tvo og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar.``

Hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á það í umræðum í gær að við BSRB, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, þar sem langflestir starfsmenn þessara þjónustustofnana eiga aðild að, hefði hvorki verið haft samband um aðild að undirbúningi frv. né rætt við þau á meðan meðhöndlun frv. fór fram á Alþingi. Og í textanum er þess heldur ekki getið að þau skuli eiga aðild að þessari tillögugerð. En kveðið er á um hlutverk nefndarinnar í ákv. til brb. VII, með leyfi forseta:

,,Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings á raforku, þ.m.t. um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnunar skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá skal nefndin móta tillögur um uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku. Jafnframt skal nefndin móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna flutnings og dreifingar raforku.``

Herra forseti. Öll veigamestu atriðin sem lúta að dreifingu raforku út um byggðir landsins, gjaldskrár raforkunnar út um byggðir landsins, aðgerðir sem lúta að jöfnuði á raforkuverði út um byggðir landsins og til neytenda hvort sem eru einstaklingar, fyrirtæki eða annað, allar þessar aðgerðir eiga að bíða og fara í sérstaka nefnd. Nefnd sem á að vera samsett af fulltrúum allra þingflokka sem eru hér á Alþingi. Til hvers er verið að skipa nefnd þegar þingið er starfandi og þingið hafði þetta mál til meðferðar og gat kallað alla þá aðila sem hér er verið að fjalla um til sín og gert út um málið? Það er fullkomlega óábyrgt, herra forseti, að þingið afgreiði mál með þessum hætti. Og það er vanvirða við núverandi þing að treysta því ekki til að ljúka málinu, þessu veigamikla máli sem frv. á að fjalla um og á að taka á.

Einnig hefur komið fram hér í umræðunum, virðulegi forseti, að mikill ágreiningur ríkir einnig innan stjórnarflokkanna sem bera þó þetta mál fram. Við 1. umr. um málið á Alþingi tóku, að ég held, tveir hv. þm. Sjálfstfl. til máls um frv. Annar þeirra, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, lýsti fullkominni andstöðu við frv. og ítrekaði þá andstöðu sína í ræðu um frv. í gær. En hinn hv. þm. Sjálfstfl., Árni R. Árnason, ef ég fer rétt með, tók til máls við 1. umr. og taldi, að því er ég best man, að málið gæti haldið áfram í gegnum Alþingi.

Við 2. umr. málsins hafa tveir hv. þm. Sjálfstfl. tekið til máls í umræðunni og báðir lýst sig fullkomlega andvíga frv. Það hefur enginn þingmaður Sjálfstfl. nú við 2. umr. málsins tekið til máls og lýst sig samþykkan málinu á einn eða annan hátt. Það lengsta sem umræðan komst var þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. sagði hér í dyragætt við hliðina á Alþingissalnum að menn mættu sjá afstöðu þingmanna með þögninni ef þeir tækju ekki til máls. Það var það lengsta sem hann komst í tjáningu um þetta mál af hálfu annarra þingmanna Sjálfstfl. (Gripið fram í: Að þegja málið í gegn.)

Mér finnst vera lágmarkskrafa að aðrir þingmenn Sjálfstfl., formaður eða varaformaður þingflokks Sjálfstfl. komi hér og lýsi skoðun sinni og afstöðu flokksins til málsins, þannig að við stöndum ekki uppi með umræðu um þetta mál og afgreiðslu á þann hátt að Sjálfstfl. sem á nú aðild að þessari ríkisstjórn og stendur þar að auki að frv., að það eina sem þeir gera hér eða þeir þingmenn sem taka til máls sé að lýsa andstöðu við frv. Því þetta er frv. sem í grundvallaratriðum er að breyta gerð íslensks raforkumarkaðar og skipan raforkumála og eignarhalds á raforkuverum. Ef það væri nú svo vel að verið væri að taka á þessum málum, taka á því hvernig standa skuli að verðlagningu og jöfnuði á verði á rafmagni í landinu, þá væri það vel. Við mundum kannski deila um að hvaða niðurstöðu menn kæmust, en þingið væri þá að taka afstöðu. Og ef hér væri verið að kveða á um hvernig standa skuli að flutningi og dreifingu raforku í landinu, þó svo að við hefðum skiptar skoðanir um það, þá væri þingið að taka afstöðu til þess. Nei, hér á að keyra frv. áfram, ef að líkum lætur, án þess að taka afstöðu til þessara veigamestu þátta fyrir hagsmuni hinna fjölmörgu notendur rafmagns í landinu.

Herra forseti. Ég ítreka það hér að fá að heyra frekari sjónarmið frá hinum stjórnarflokknum. Við þekkjum orðið stefnu Framsfl. sem stefnir að því að einkavæða allt, bæði laust og fast, einkavæða það og helst að koma því í sölu, selja það. Það er ráðherra Framsfl., hæstv. iðnrh., Valgerður Sverrisdóttir, sem ber ábyrgð á framlagningu þessa frv. þar sem allir hagsmunir dreifbýlisins, allir hagsmunir hinna almennu raforkunotenda vítt og breitt um landið eru látnir liggja upp í loft óafgreiddir.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mjög langa ræðu um þetta. Ég hélt tölu um þetta í gær þar sem ég rakti þessi atriði. En ég vísaði til ágætis nefndarálits hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar þar sem vísað er til þess að hér sé verið að innleiða evrópskar tilskipanir sem passa við þéttbýl svæði Evrópu, allt aðrar aðstæður en hér í fámennu, dreifbýlu og stóru landi, eins og segir í því nál.

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað heyra hvernig hv. formaður iðnn. ætlar að svara fyrir meðferð á málinu, hvort þetta sé mál Framsfl. eins. Er hv. formaður iðnn. í húsinu?

(Forseti (HBl): Nei.)

Má lesa afstöðu hv. formanns iðnn. til þessa málaflokks í því að hv. þm. telur ekki ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu sem snertir raforkumál fyrir allar hinar dreifðu byggðir landsins? Er það hugur Framsfl. sem birtist þar í, virðulegi forseti? Er hæstv. ráðherra iðnaðarmála hér nokkuð frekar?

(Forseti (HBl): Nei.)

Er það þá enn frekari árétting á stefnu framsóknarmanna gagnvart dreifbýlinu í raforkumálum? (Gripið fram í: Farin heim bara.) Ég held að þessi fjarvera hv. þingmanna Framsfl. sýni best þann hug sem þeir bera til raforkumála út um hinar dreifðu byggðir landsins, í dreifbýli og þéttbýli, sýni best hvaða hug þeir bera til þess.

[21:30]

Ég leyfi mér að vitna í nál. hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. þar sem hann segir að aðstæður hér séu allt aðrar en í Evrópu og því ástæðulaust að vera að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins hugsunarlaust og gagnrýnislaust inn í íslenskan veruleika. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hér eru hins vegar allt aðrar aðstæður og er 2. minni hluti þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hefði átt að sækja um undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins á þeirri forsendu að Ísland hefur sjálfstætt og einangrað raforkukerfi og vinnsla, dreifing og sala því óháð öðrum hlutum Evrópu. Það hefur sýnt sig að þau raforkukerfi sem ekki voru tengd innan Evrópusambandsins, t.d. á Spáni, hafa ekki notið verðlækkunar á rafmagni við þessar breytingar enda mun lítið hafa verið um flutningslínur milli Spánar og annarra landa í Evrópu. Þessi sérstaða Spánar hefur leitt til þess að rafmagn hefur heldur hækkað þar.

Það er mat flestra orkufyrirtækja hér á landi að verði þetta frumvarp að lögum hafi það í för með sér umtalsverðan nýjan kostnað og muni það valda hækkun raforkuverðs en ekki lækkun eins og ýmsir aðilar hafa haldið fram. Þessi kostnaðarauki stafar m.a. af auknum kostnaði vegna mælinga, eftirlits og uppgjörs og arðsemiskröfu vegna flutnings- og dreifikerfa.``

Já, herra forseti, arðsemiskröfu sem þeir aðilar sem gert er ráð fyrir að verði eignar- og/eða rekstraraðilar að kerfinu gera til þess sem neytandinn verður síðan að borga.

Og áfram í nál. hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar stendur, með leyfi forseta:

,,Því er haldið fram að leitað verði allra leiða til þess að minnka þennan kostnað og hefur meiri hlutinn með breytingartillögum sínum gert ráðstafanir til að lágmarka þennan kostnaðarauka. Það er þó mat 2. minni hluta að verði þetta frumvarp að lögum muni það leiða til hækkaðs orkuverðs í landinu og því getur hann ekki stutt frumvarpið.``

Herra forseti. Það er dapurlegt til þess að vita ef þetta eiga að vera ein síðustu verk gamla félagshyggjuflokksins, Framsfl., nú fyrir alþingiskosningar, áður en hann hverfur úr ríkisstjórn, að einkavæða og hlutafélagavæða raforkukerfið í landinu, þar sem arðsemiskrafa eigendanna til eigin fjár mun ráða verði og öðrum skilyrðum í dreifingu og aðgengi almennings.

Ég ítreka, herra forseti, að við höfum heyrt sjónarmið Framsfl. Við heyrðum hæstv. iðnrh. lýsa þeirri skoðun sinni hér í gær, við heyrðum hug hæstv. ráðherra. Hv. formaður iðnn. lýsti því einnig. En nú ber svo vel í veiði að formaður þingflokks framsóknarmanna er kominn í salinn (Gripið fram í: Og farinn aftur.) og farinn aftur, vill sjálfsagt ekkert við þetta kannast, að Framsfl. hans eigi aðild að þessu máli sem við nú ræðum með þeim dapurleika sem birtist hér inni á þingi.

Herra forseti. Ég ítreka að það er fullkomlega óþinghæft að afgreiða þetta mál eins og hér er lagt til. Meginmarkmið, meginhlutverk, meginverkefni frv. sem það átti að taka á, er skilið eftir. Skipa á nefnd sem á að taka þessa meginþætti til skoðunar. Frá því á að víkja að þingið axli þá ábyrgð sem því ber að gera og sett er á laggirnar sérstök nefnd. Henni eru svo jafnframt sett þau skilyrði að vera búin að skila af sér eigi síðar en 31. desember 2003, annars koma allar þessar lagagreinar til framkvæmda með fullum þunga eins og þar er gert ráð fyrir.

Hér kemur hæstv. iðnrh. í þingsalinn og met ég það hvað hæstv. ráðherra hefur brugðist fljótt við þegar málið kom á dagskrá.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef hér sagt: Finnst hæstv. ráðherra það þinglega boðlegt í fyrsta lagi að leggja frv. fram með þeim hætti sem hér er gert, að skilja alla meginþætti þess eftir til vinnslu sérstakrar nefndar sem þingið á þá að eiga aðild að og í höfuðdráttum eða að meginhluta að stýra? Hvers vegna er ekki tekið á þessum málum nú á þinginu eins og ætti að gera? Finnst hæstv. ráðherra það þingtækt að skila málinu út af þingi með þeim hætti að allir þeir þættir sem lúta að dreifingu, flutningskerfi, verði og verðjöfnun út um allt land, séu látnir óafgreiddir og í uppnámi?

Og ég ítreka það, herra forseti, að hér hafa aðeins tveir hv. þm. Sjálfstfl. talað við 2. umr. og báðir hafa lýst sig andvíga frv. eins og það liggur fyrir. Það væri þess vegna fróðlegt að heyra skoðun annarra hv. þm. Sjálfstfl. í þessu greinilega mjög svo umdeilda máli, eða er þetta bara hæstv. ráðherra og þingflokkur Framsfl. sem er að keyra þetta mál í gegn?