Raforkulög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 21:55:03 (5172)

2003-03-14 21:55:03# 128. lþ. 101.28 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[21:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst mál, og hæstv. ráðherra reynir í sjálfu sér ekki að bera á móti því, að það er verið að skilja þetta mál eftir. Menn eru einfaldlega ekki komnir með neina niðurstöðu, neina lausn, í þessu efni. Það hlýtur auðvitað að vera eina ástæðan fyrir því að menn ganga ekki frá þessu í lögunum um leið og þeir klára málið og þá allt í einum pakka. Og það er það sem er auðvitað svo ótrúverðugt af því að maður þekkir baklandið og veit hvers konar vandræðagangur hefur verið þar á ferðinni.

Jú, hæstv. ráðherra segir að það séu allir velviljaðir og hér hafi komið fram í umræðum að allir telji að það eigi að tryggja þessa verðjöfnun o.s.frv. En er viljinn nóg? Hefur það alltaf reynst vera þannig? Er víst að hagsmunaandstæðurnar og togstreitan í málinu verði minni eftir kosningar, heldur en núna og undangengna mánuði? Af hverju komust menn ekki í land með þetta? Verður ekki hæstv. ráðherra að skýra það út fyrir okkur? Bara tímaleysi, þrátt fyrir alla meðgöngu frv.? Nei, ætli það. Ætli það sé ekki eitthvað annað.

Síðan segir hæstv. ráðherra að einn megintilgangur þessa frv. sé að auka gagnsæi á raforkumarkaðnum. Við hefðum ekki þurft evrópska tilskipun, herra forseti, til þess að gera það sem væri langróttækasta aðgerðin á íslenskum orkumarkaði til að auka gagnsæi. Hún er að skilja á milli stóriðjunnar og almenna notendamarkaðarins, setja það í lög að framleiðsla fyrir stóriðju skuli vera í sjálfstæðum fyrirtækjum, kljúfa Landsvirkjun þá upp og láta nýju framkvæmdirnar vera í sjálfstæðum fyrirtækjum. Þá, og þá fyrst, geta menn upprætt þá rótgrónu tortryggni sem er ríkjandi í garð þess að almenningur sé og hafi í reynd verið að borga rafmagnið niður í stóriðjuna. Það er auðvitað það sem hann hefur gert. Og þess vegna er ekki hægt að skilja þarna á milli. Það væri aðgerð til að auka gagnsæi á íslenskum orkumarkaði, að losna við það samkrull, söluna á almenna notendamarkaðinn og til stóriðjunnar. En að innleiða þessa evrópsku tilskipun er mikil fjallabaksleið í þeim efnum.