Barnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 23:18:17 (5180)

2003-03-14 23:18:17# 128. lþ. 102.15 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv. 76/2003, PHB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[23:18]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í nál. allshn. segir m.a., með leyfi herra forseta:

,,Þrátt fyrir augljósa hagsmuni barns af því að vera feðrað hefur fram til þessa ekki þótt rétt að skylda móður til þess með beinum lagafyrirmælum en nú er talið tímabært að stíga það mikilvæga skref.``

Herra forseti. Ég fellst ekki á þessa fullyrðungu, að það séu augljósir hagsmunir barnsins að vera feðrað. Þetta er bara sagt sisona. Allt þetta frv. og nál. er gegnsýrt af þeirri hugsun að einhver ósýnileg tengsl séu á milli barna og kynforeldra þeirra, það séu einhver ósýnileg tengsl sem verði að rekja upp þannig að það er nánast eins og þetta sé unnið með hagsmuni erfðafræðifyrirtækja að leiðarljósi. Börn eru yfirleitt alltaf alin upp af einhverjum, hvort sem það eru afi eða amma, mamma eða pabbi eða fósturforeldrar eða foreldrar sem ættleiða þau, og það eru þau tengsl sem skipta máli, herra forseti, en ekki einhver kyntengsl eitthvað út í heim.

Þegar sagt er að það séu augljósir hagsmunir barns að vera feðrað er verið að segja við alla þá foreldra sem hafa ættleitt börn að það sé ekki það sama að eiga ættleitt barn eins og eigið barn vegna þess að það séu einhver ósýnileg tengsl á milli kynforeldris og barnsins. Ég mótmæli þessu. Þetta er ekki augljóst. Og það getur oft og tíðum skaðað barnið mjög mikið að vera feðrað, vegna þess að faðirinn er kannski ekki endilega merkilegur pappír.

Í 10. gr. frv. kemur fram, með leyfi forseta:

,,Stefnandi faðernismáls getur verið barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns.`` --- Bara hver sem er. Af hverju stendur ekki þarna, út af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar: Kona sem telur sig móður þess? Af hverju stendur þarna móðir barnsins, skilyrðislaust? Það er vegna þess að það er nefnilega munur á kynjunum þarna. Það vill svo til að annað kynið ber barnið í maga sér en hitt ekki. Faðirinn þarf ekki einu sinni að vita af því að hann eigi þetta barn.

Ég er ekki sáttur við þessa niðurstöðu. Ég held að það þurfi að hugleiða þetta miklu meira og þetta geti valdið töluverðum skaða, jafnvel ofsóknum á hendur konum sem ekki hafa feðrað börnin sín, því það getur nánast hver einasti karlmaður í bænum krafist barnsfaðernismáls ef vitað er að konan er með ófeðrað barn. Ég mun ekki greiða þessu atkvæði. Ég mun sitja hjá.