Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 23:27:14 (5183)

2003-03-14 23:27:14# 128. lþ. 102.37 fundur 622. mál: #A sveitarstjórnarlög# (fjármálastjórn o.fl.) frv. 74/2003, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[23:27]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Gylfa Kristinsson og Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti og Þórð Skúlason og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að laga sveitarstjórnarlög að þeim breytingum sem orðið hafa á rekstrarumhverfi sveitarfélaga á síðustu árum. Í frumvarpinu er lagt til að skýrar verði kveðið á um valdframsal sveitarstjórnar, þagnarskyldu starfsmanna og ráðstafanir til að takmarka áhættu við meðferð fjármuna. Einnig er nánar kveðið á um skyldur sveitarstjórna til að afla álits sérfróðs aðila áður en ráðist er í tiltekna fjárfestingu eða staðfestir eru samningar um framkvæmdir eða þjónustu við íbúa sem hafa í för með sér langtímaskuldbindingu fyrir sveitarsjóð. Gildir þetta einnig um samninga um sölu og endurleigu tiltekinna eigna og skal í þeim tilvikum gera eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga viðvart um áformin.

Við umfjöllun málsins var rætt um þá breytingu sem lögð er til á 64. gr. laganna um að sveitarstjórn skuli gæta ábyrgðar í meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra. Um er að ræða meðferð almannafjár og mikilvægt að hægt sé að treysta því að varkárni verði gætt við val á ávöxtunarleiðum. Orðalagið sem lagt er til felur í sér að sveitarstjórn beri ábyrgð á því hvaða leið verði farin við ávöxtun fjármuna sveitarfélagsins. Í þessu sambandi minnir nefndin á að kaup á hlutabréfum í félögum sem ekki eru skráð í kauphöll geti ekki talist traust ávöxtun skv. 64. gr. Lítur nefndin svo á að ríkisskuldabréf séu eina fjárfestingin sem telja megi örugga en telur þó að veita verði sveitarfélögunum svigrúm til að leggja sjálfstætt mat á fjárfestingarkosti.

Ekki er lengur sjálfgefið að sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar eigi húsnæði þar sem fram fer opinber starfsemi á þeirra vegum. Nefndin leggur til að nýrri málsgrein verði bætt við 64. gr. laganna þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórn skuli á hverjum tíma tryggja umráðarétt yfir fasteignum sem eru nauðsynlegar til að lögboðin verkefni sveitarfélaga verði rækt. Ákvæðið er sett fram sem almenn regla sem sé til þess fallin að tryggja að samningar um sölu fasteigna sveitarfélags leiði ekki til þess að umráð yfir nauðsynlegum fasteignum vegna lögboðinna verkefna sveitarfélags falli niður. Það felur í sér að sveitarfélögunum beri að tryggja að þau hafi t.d. forkaupsrétt eða leigurétt að fasteignum til að nauðsynlegt starf á þeirra vegum geti farið fram ótruflað. Nefndin bendir einnig á að taki sveitarfélag húsnæði á leigu undir lögboðna starfsemi þess verður að gæta þess að leigusamningar feli í sér nægilega langan uppsagnarfrest til að ávallt sé svigrúm fyrir sveitarstjórn til að bregðast við ef útvega þarf nýtt húsnæði fyrir starfsemina.

Við umfjöllun um 7. gr. frumvarpsins var rætt um rétt ráðherra til að setja sveitarstjórnum skilyrði um ráðstöfun söluandvirðis eða ávöxtun þess telji eftirlitsnefnd að ráðstöfun sé líkleg til að hafa áhrif á fjárhag sveitarfélagsins þegar til lengri tíma er litið. Var minnt á sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaganna og bent á að eðlilegra væri að eftirlitsnefndin gerði tillögur til viðkomandi sveitarstjórnar um ráðstöfun söluandvirðis enda stjórni sveitarfélög almennt fjármálum sínum sjálf. Leggur nefndin til að greininni verði breytt til samræmis við framangreint en bendir á að skv. 102. gr. sveitarstjórnarlaga hefur ráðherra eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni lögbundnum skyldum sínum og getur jafnframt beitt þær viðurlögum ef hann telur svo ekki vera.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem koma fram í þingskjalinu.

Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. rita hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður og framsögumaður, Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Magnús Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Drífa Hjartardóttir, Jónína Bjartmarz og Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara.