Lýðheilsustöð

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 23:46:25 (5187)

2003-03-14 23:46:25# 128. lþ. 102.19 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv. 18/2003, Frsm. meiri hluta JBjart
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[23:46]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti hv. heilbr.- og trn. um frv. til laga um Lýðheilsustöð. Í nál. eru tilgreindir þeir gestir sem nefndin fékk á sinn fund og þeir sem skiluðu nefndinni umsögn um frumvarpið.

Í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði Lýðheilsustöð og er markmið hennar að efla lýðheilsu með því að viðhalda og bæta heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa í þjóðfélaginu með skipulegum og viðurkenndum aðferðum. Lýðheilsustöðinni er m.a. ætlað að efla og samræma lýðheilsustarf, annast fræðslu til almennings um heilbrigði og heilsueflingu í samstarfi og samvinnu við landlækni og aðra eftir því sem við á og styðja starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu. Lagt er til að áfengis- og vímuvarnaráð, manneldisráð, slysavarnaráð og tóbaksvarnanefnd starfi innan Lýðheilsustöðvar og verði sérfræðiráð hennar. Einnig er gert ráð fyrir að ýmis heilsueflingar- og forvarnaverkefni verði flutt til hennar, m.a. tannverndarráð, gigtarráð og Árvekni.

Við umfjöllun málsins var rætt nokkuð um hvaða áhrif Lýðheilsustöð hefði á þá starfsemi á sviði lýðheilsu sem fyrir er. Var þar einkum komið inn á skörun við verkefni landlæknisembættisins og heilsugæslunnar. Lögbundin hlutverk landlæknis eru ýmis, svo sem að vera ráðgjafi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, annast faglegt eftirlit með heilbrigðisstéttum og heilbrigðisstofnunum, faglegt eftirlit með lyfjanotkun, sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu, annast skýrslugerð um heilbrigðisþjónustu og bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna. Í þessu samhengi er jafnframt vert að geta um ný og þýðingarmikil verkefni landlæknis, svo sem ábyrgð hans á lyfjagagnagrunni samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum og læknalögum sem nefndin hefur nýlega afgreitt. Ekki er gert ráð fyrir að Lýðheilsustöð muni breyta að neinu leyti hlutverki landlæknis.

Meiri hlutinn vill taka fram að þó að ekki séu í lögum eða reglugerðum ákvæði um verkefni landlæknis á sviði forvarna og lýðheilsu hefur landlæknir einnig sinnt ýmsum verkefnum á þessu sviði og er gert ráð fyrir að svo verði áfram en að það verði gert í samráði og samvinnu við Lýðheilsustöð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir náinni samvinnu milli Lýðheilsustöðvar og landlæknis enda mun landlæknir sitja í landsnefnd um lýðheilsu skv. 4. gr. frv. og tilefna fulltrúa í sérfræðiráð þau sem starfa hjá Lýðheilsustöð skv. 5. gr. frv.

Við umfjöllun málsins var rætt um hlutverk fagráða þeirra sem starfa hjá landlæknisembættinu og sinna forvarnastarfi á hinum ýmsum sviðum og komist var að þeirri niðurstöðu að við mótun hlutverks Lýðheilsustöðvar verði skerpt á verkaskiptingu milli þessara aðila, annars vegar á hlutverkum fagráða sem starfa hjá landlækni og hins vegar þeim fagráðum sem munu starfa við Lýðheilsustöð.

Við umfjöllun málsins var líka rætt hvernig hlutverk Lýðheilsustöðvar skarast við verkefni heilsugæslunnar en hún á lögum samkvæmt að sinna heilsuvernd og forvörnum. Heilsugæslan í Reykjavík sinnir ráðgjafarþjónustu fyrir heilsugæslustöðvar á landsvísu, t.d. á sviði mæðraverndar og barnaverndar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að heilsugæslan muni eftir sem áður starfa að forvörnum á þessum sviðum og öðrum. Meiri hlutinn telur að með tilkomu Lýðheilsustöðvar eigi það starf að geta eflst. Til að mynda má gera ráð fyrir að Lýðheilsustöðin muni sjá um gerð kennslu- og fræðsluefnis sem hægt verður að nýta í heilsugæslunni og á öðrum heilbrigðisstofnunum.

Við umfjöllun um málið komu fram áhyggjur af því að Lýðheilsustöðin yrði til þess að draga úr starfsemi frjálsra félagasamtaka. Þó komu þau sjónarmið einnig fram að hún yrði til að efla og ýta undir starf þeirra en henni er m.a. ætlað að hafa samræmingar- og fræðsluhlutverk og styðja við frjáls félagasamtök og stofnanir. Meiri hlutinn treystir því að Lýðheilsustöðin leiði til þess að starfsemi frjálsra félagasamtaka eflist og áfram verði nýttur sá mikli auður sem felst í starfi þeirra.

Til umræðu kom hvernig rannsóknir tengjast hlutverki Lýðheilsustöðvar. Eitt af hlutverkum hennar verður að stuðla að eflingu kennslu og rannsókna á sviði lýðheilsu og samstarfi við háskóla og aðrar menntastofnanir. Niðurstöður rannsókna eru jafnan grundvöllur forvarnastarfs og mun Lýðheilsustöðin taka þátt í og stuðla að rannsóknum bæði innan stöðvarinnar og í samstarfi við aðra.

Meiri hlutinn lítur svo á að með frumvarpinu sé lagður grunnur að eflingu forvarnastarfs á mörgum mikilvægum sviðum lýðheilsumála og að með því að færa forvarnastarf undir eina stofnun geti stefnumótun og forgangsröðun verkefna orðið markvissari og fjárveitingar til forvarnastarfs nýst betur en nú er. Jafnframt telur meiri hlutinn að hlutverk og starf Lýðheilsustöðvar muni smám saman mótast frekar og þróast og mæta þeim þörfum sem fyrir starfsemi hennar eru. Hlutverk hennar er skilgreint vítt í frumvarpinu enda nær lýðheilsa yfir mjög breitt svið þar sem fátt er undanskilið í umhverfi og gjörðum almennings. Gert er ráð fyrir að fleiri þættir og fleiri fagráð muni koma inn í starfsemina en fyrsta skrefið, að mati meiri hlutans, er að koma stofnuninni á fót. Bendir meiri hlutinn t.d. á að ofeldi og sjúkdómar af þess völdum er vaxandi vandamál hér á landi eins og víðast annars staðar í hinum vestræna heimi. Við umfjöllun málsins kom m.a. fram að manneldisráð hefur engan markaðan tekjustofn eins og t.d. áfengis- og vímuvarnaráð hefur og tóbaksvarnanefnd og fyrir nefndinni var m.a. kynnt hugmynd sem meiri hlutanum, og nefndinni í það heila held ég að mér sé óhætt að segja, finnst vert að huga að, um að taka gjald á sölu gosdrykkja, svokallað tappagjald, sem rynni til eflingar starfsemi manneldisráðs.

Samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að forstjóri stýri Lýðheilsustöðinni og jafnframt að fjármálastjóri starfi við stofnunina. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til framangreindra verkefna verði færðar til stöðvarinnar en þær nema 165 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2002. Meiri hlutinn minnir á að hafa þurfi í huga við fjárveitingar til Lýðheilsustöðvar að hún fái nauðsynlegt fjármagn til að starfsemin geti vaxið og dafnað og sinnt því mikilvæga hlutverki sem henni er ætlað.

Meiri hluti heilbr.- og trn. leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir álitið rita auk frsm. hv. þm. Ásta Möller, Katrín Fjeldsted, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Ólafur Örn Haraldsson.