Forseti Íslands setur þingið

Þriðjudaginn 01. október 2002, kl. 14:07:40 (1)

2002-10-01 14:07:40# 128. lþ. 0.93 fundur 126#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 4. september 2002 var gefið út svofellt bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 1. október 2002.

Um leið og ég birti þetta, er öllum sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst klukkan 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 4. september 2002.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 1. október 2002.``

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett. Ég óska þingmönnum heilla í vandasömum verkum og vona að umræða og ákvarðanir á komandi vetri veiti þjóðinni farsæla leiðsögn.

Alþingi hefur löngum verið vettvangur átaka og uppgjörs um meginstefnu en einnig aflvaki sem sameinað hefur landsmenn til góðra verka. Hér hafa umboðsmenn fólksins beitt lýðræðislegu valdi sem þeir fengu í hendur, vegið og metið kostina á óvissum tímum.

Alþingi hefur umskapað atvinnulíf og samfélagsreglur og fest í sessi samvinnu okkar við aðrar þjóðir, lagt grundvöll að sjálfstæðinu og göngu þjóðarinnar frá fátækt til hagsældar. Alþingismenn hafa fyrr og síðar verið áhrifaríkir og verður svo vonandi enn um alla framtíð.

Í rauninni var árangur Íslendinga á nýliðinni öld einstakur og ástæðulaust að gera lítið úr honum þótt sjálfshól sé sjaldan talið til dyggða. Það var því fróðlegt að fá á vordögum tækifæri til að kynnast rannsóknum fræðimanna á árangri smáríkja á tímum vaxandi alþjóðavæðingar. Við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum var efnt til ráðstefnu um þetta efni og gegndi Ísland lykilhlutverki í samanburði og ályktunum.

Fyrrum töldu ýmsir að hagkvæmni stærðarinnar væri sú að smáríki stæðu ætíð höllum fæti, framrás sögunnar mundi knýja þau til að leita skjóls hjá öðrum ef tryggja ætti íbúunum hin bestu lífskjör. Eðli alþjóðavæðingar og markaðslögmála á okkar tímum væri óhagstætt smáríkjum sem ekki væru hluti stærri heildar.

Alþjóðastofnun Harvard-háskóla sem starfar innan vébanda þeirrar deildar sem kennd er við forseta Bandaríkjanna, John F. Kennedy, og helguð er sérstaklega stjórnunarfræðum hefur undanfarið beitt sér fyrir fjölþættum rannsóknum á árangri smárra ríkja og niðurstöðurnar voru sannarlega athyglisverðar. Þær sýndu að smáum ríkjum hafði að jafnaði vegnað betur en hinum stærri, einkum þegar horft var til ríkja í milliflokkum að íbúafjölda. Í smáum ríkjum reyndust búa kraftar sem nýttust þeim vel til að sækja fram á nýjum sviðum.

Íslandi var á þessari ráðstefnu í Harvard gert hátt undir höfði. Gögn og niðurstöður fræðimanna sýndu með sláandi hætti hvernig unnt er að ná árangri þrátt fyrir smæð og mótdrægar aðstæður á mörgum sviðum. Það var athyglisvert að kynnast því hvernig verk Íslendinga á liðinni öld og á okkar tímum voru vegin og metin í alþjóðlegum samanburði.

Umræða um stöðu þjóðar okkar með tilvísunum til alþjóðlegrar þróunar og reynslu annarra ríkja er verðugt viðfangsefni og ánægjulegt að innan Háskóla Íslands sé nú hugað að því að mynda sérstaka rannsóknastofnun sem helguð yrði umfjöllun um hin smærri ríki, bæði í Evrópu og utan hennar.

Það er hollt er vera hógvær og miklast ekki af eigin verkum. En það getur verið villandi og jafnvel hættulegt að gera of lítið úr þeim árangri sem Íslendingar hafa náð. Við mættum gera meira af því að gaumgæfa mat annarra á okkar stöðu, hvernig fræðimenn og áhrifafólk með mikla reynslu hvaðanæva úr veröldinni dæma þróun okkar litlu þjóðar.

Þegar hugað er að framtíðarsessi Íslendinga og tengslum okkar við önnur ríki er gott að hafa að veganesti djúpstæðan skilning á verkum þeirra sem skiluðu þjóðinni hagsæld og velferð, öflugu atvinnulífi, skapandi listum, menntun og vísindum, áföngum sem gáfu Íslendingum sæmdarorð meðal þjóða heims. Það er glæsileg arfleifð sem Alþingi hefur fengið í hendur og átt sinn ríka þátt í að skapa með farsælum verkum. Miklu skiptir um framtíðarheill að vel takist að ávaxta hana á komandi árum.

Alþingi hefur að undanförnu unnið að því að draga úr umsvifum hins opinbera og liðka fyrir leikreglum markaðar og samkeppni. Líkt og í mörgum nágrannalöndum hefur verið leitast við að draga úr mætti almannavaldsins og vísað til þess að löggjöfin skuli einkum miðast við að ákvarða leikvöll atvinnulífsins. Að öðru leyti muni úrslitin ráðast á markaðstorgi og af alþjóðastraumum í efnahagsmálum.

Þessar nýju leikreglur kunna að eiga þátt í breyttum hlutföllum auðs og áhrifa sem í æ ríkara mæli setja svip á samfélagið og gætu smátt og smátt skapað ástand sem hæpið er að samrýmist því sem upphaflega var ætlun þeirra sem lögin settu.

Við höfum að undanförnu orðið vitni að því að prestar hafa í kirkjum landsins fellt þunga dóma um að auðsöfnun, græðgi og miskunnarleysi setji í vaxandi mæli svip á samfélagið og áhrifamenn á Alþingi hafa einnig í sumarræðum kveðið fast að orði um þróunina. Verða þau ummæli væntanlega efniviður í vetrarannir.

Frjáls markaður og lýðræðislegt samfélag eru samnefnari þeirrar skipunar sem flestir telja hið besta form sem völ er á. En þessi tvíþætta þjóðfélagssýn er fléttuð úr mörgum ólíkum þáttum og vandasamt að ná því jafnvægi sem að er stefnt.

Atburðarásin á markaðstorgi kann að leiða til slíkrar samþjöppunar auðs og eigna að veruleg áhrif hafi á hið lýðræðislega vald sem byggja ber á jöfnum rétti allra einstaklinga. Sé fjármagni veitt ótæpilega inn í íslenska hversdagsveröld kann að verða mikið flóð, þjóðfélagið orðið ólgusjór þar sem hefðbundnar hömlur fara á flot og völd og áhrif verða af öðrum toga en samstaða var um hér áður fyrr. Skilin milli markaðar og stjórnmála eru sjaldan eins skýr í veruleika og í kenningunni.

Við Íslendingar göngum nú í gegnum breytingaskeið sem að hluta er knúið áfram með ákvörðunum Alþingis en sækir einnig efnivið í hið opna alþjóðlega hagkerfi sem við verðum í vaxandi mæli hluti af.

Ærið margt sem þessu fylgir eru framfaraspor sem í senn auka velferð landsins og hagsæld fjölskyldnanna, bæta kjör og veita nýju fólki tækifæri til að sýna hvað í því býr. En við sjáum einnig blikur á lofti sem vekja spurningar um hvernig við varðveitum áfram ýmsa grunnþætti sem gefið hafa íslensku samfélagi sérstakt gildi, jafnræðið og samheldnina.

Við höfum notið þess að hér hefur þróast opið og lýðræðislegt þjóðfélag þar sem viðunandi jafnvægi hefur ríkt þegar til lengdar lætur og hvorki óhóflegur auður né annarleg áhrif hafa skákað þeim rétti sem umboðið frá fólkinu veitir. Hér hefur ríkt samstaða um samfélagsgerð sem við höfum talið þjóna best hagsmunum lands og þjóðar, verið á vissan hátt grundvöllur að sjálfstæðisvitund okkar Íslendinga.

Er þessi samfélagsgerð nú að breytast? Er veruleikinn sem okkur birtist í samræmi við anda laganna sem veittu hinum nýju leikreglum formlegt gildi? Slíkum spurningum er á engan hátt auðvelt að svara en þær munu brenna á hverjum þeim sem býður sig fram sem fulltrúi fólksins.

Alþingi er kjarninn í lýðræðisskipan Íslendinga og hér á að ríkja sá eindregni vilji sem endurspeglar þjóðarhug. Það er mikið í húfi að okkur takist að nýta í anda íslenskra hefða þau tækifæri sem breytingarnar fela í sér en ekki síður að ávaxta vel arfleifðina sem fyrri kynslóðir færðu okkur og byggja á árangrinum sem orðið hefur fræðimönnum tilefni til að álykta um atorkuna sem býr í smærri ríkjum. Sú ábyrgð sem á Alþingi hvílir er því áfram mikil.

Ég óska alþingismönnum á ný velfarnaðar í vandasömum verkum á komandi vetri og bið þingheim að rísa úr sætum og minnast fósturjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég Pál Pétursson, 2. þm. Norðurl. v., að ganga til forsetastóls.