Ávarp forseta

Þriðjudaginn 01. október 2002, kl. 14:22:37 (5)

2002-10-01 14:22:37# 128. lþ. 0.95 fundur 128#B ávarp forseta#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Forseti (Halldór Blöndal):

Hv. alþingismenn. Ég þakka hæstv. starfsaldursforseta, Páli Péturssyni, hlý orð í minn garð. Ég þakka alþingismönnum fyrir það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig á ný forseta Alþingis.

Á fundi forsætisnefndar í síðustu viku og á fundi mínum með formönnum þingflokka var samþykkt starfsáætlun fyrir þingið sem nú er að hefjast. Hún hefur verið prentuð og var send þingmönnum fyrr í dag. Samkvæmt henni lýkur þingstörfum um miðjan mars eða um átta vikum fyrir áætlaðan kjördag 10. maí. Er það svipaður tími frá þinglokum til kjördags og var fyrir fjórum árum, árið 1999.

Það má öllum vera ljóst að ekki má dragast að frumvörp séu lögð fram ef unnt á að vera að fá þau afgreidd fyrir þingfrestun í mars. Í þingsköpum segir að þingmál skuli lögð fram áður en sex mánuðir eru liðnir frá þingsetningu. Að þessu sinni stendur þingið ekki svo lengi. Ég vænti þess að með samkomulagi við hæstv. ríkisstjórn og þingflokka megi finna annan frest til framlagningar mála að þessu sinni.

Síðastliðinn föstudag var þjónustubygging fyrir vestan þinghúsið, Skálinn, tekin formlega í notkun. Fæst þar langþráð úrbót í húsnæðismálum Alþingis. Eins og ég sagði við vígsluathöfnina mun það flestra manna mál að vel hafi tekist til og að Skálinn falli vel að umhverfi sínu og Alþingishúsinu sem skipar háan sess í hugum Íslendinga. Ég vil við þetta tækifæri færa öllum þeim sem að því verki komu þakkir fyrir gott starf.

Síðastliðinn laugardag var almenningi gefinn kostur á að ganga um Skálann og Alþingishúsið. Í ljós kom að mikill áhugi var meðal almennings að sjá og fylgjast með því sem hér hefur verið gert. Tæplega 4.000 manns komu þennan dag í húsakynni Alþingis. Flestir gestanna létu í ljós ánægju með hversu vel hafði tekist til um framkvæmdina, og margir létu þau orð falla að Skálinn færi vel við hlið hins gamla og virðulega Alþingishúss.

Ráðist hefur verið í nauðsynlegar breytingar á fyrstu og annarri hæð þinghússins til þess að tenging þess við Skálann sé sem greiðust og nýtist sem best. Í næsta áfanga er óhjákvæmilegt að ráðast í umfangsmiklar endurbætur og viðhald á Alþingishúsinu til þess að það skemmist ekki og er unnið að áætlun um þá framkvæmd. Síðan liggja fyrir margvíslegar endurbætur aðrar sem ekki eru eins aðkallandi sem meðal annars miða að því færa salarkynni til upprunalegs horfs. Jafnframt liggur fyrir að koma fyrir lyftu milli annarrar og þriðju hæðar til þess að fatlaðir geti komist á áheyrendapalla.

Á þessu ári veitti Alþingi styrk til þess að kosta myndskreytingu á heildarútgáfu á verkum Snorra Sturlusonar. Vel hefur verið staðið að þessu verki. Verður efnt til kynningarfundar á útgáfunni í Skálanum á fimmtudag þar sem úrval mynda úr bókunum Snorra-Eddu, Eglu og Heimskringlu verða til sýnis.

Ég vænti góðs samstarfs við ríkisstjórn og alþingismenn á þessum síðasta vetri kjörtímabilsins.

Ég endurtek þakkir mínar til þingheims fyrir að endurkjósa mig forseta Alþingis. Ég vona að mér takist að eiga gott samstarf við hv. þingmenn.

Ég vil svo geta þess að gestum við þingsetninguna er boðið til Skála að þiggja þar veitingar, svo og til þess að skoða þær framkvæmdir sem lauk í síðustu viku. En þingmenn ganga nú til þingflokksfunda.