Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 20:23:20 (12)

2002-10-02 20:23:20# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[20:23]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Það var merkur erlendur stjórnmálaleiðtogi sem á sl. sumri sagði eitthvað á þá leið: Stjórnmálamenn þess lands sem ráða við að bægja atvinnuleysi frá, sjá til þess að það sé þróttur og kraftur í atvinnulífinu, að umgjörð atvinnulífsins sé með þeim hætti að það blómstri, munu sjá sókn í sínu landi og munu sjá að fólkið hefur það gott.

Ég minni á að við Íslendingar höfum lifað sjö góð ár, uppgangsár. Þess vegna er það merkilegt að formaður Samfylkingarinnar skuli koma hér eins og af fjöllum.

Það er lítið að marka málflutning hv. þm. Í sumar boðaði hann stórstríð á Sjálfstfl. Næstsíðustu vikurnar hefur hann beint öllum sínum byssum að Framsfl. --- boðaði á hann tíu utandagskrárumræður hér í þinginu --- og nú minnist hann eingöngu á Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er merkilegur stjórnmálaleiðtogi sem svona hringlar til og frá. Maður veit ekki alltaf úr hvaða fjalli hann er að koma. En mér finnst alltaf sem ég sjái hann eftir ræðuflutninginn í hlutverki Jóns sterka, segja: Sáuð þið hvernig ég tók hann?

Þetta er nú staðan. Ef við horfum á síðustu sjö árin í farsælu samstarfi þessara stjórnarflokka getum við séð á línuritum hvernig fólkið var að fara frá Íslandi svo hundruðum skipti, yfirgefa Ísland vegna kreppu. Við sjáum svo aftur árið 1995 að súlan rís á nýjan leik og þrjú þúsund manns umfram brottflutta hafa flutt hingað til landsins. Það segir í rauninni allt um hvernig tekist hefur til í atvinnumálum Íslendinga á síðustu sjö árum.

Við framsóknarmenn tókum við ráðuneytum kratanna í kreppu. Hér var gríðarlegt atvinnuleysi. Hér var samdráttur. Hér var eilífur niðurskurður í heilbrigðismálum til fatlaðra og sjúkra. Það stefndi í óefni í íslensku samfélagi. Í farsælu samstarfi stjórnarflokkanna hefur þessum hlutum verið snúið þannig við að þróttur ríkir á Íslandi. Eins og ég sagði hafa sem betur fer flestir vinnu hér á landi. Þrjú þúsund manns hafa flutt til landsins á nýjan leik, í mörgum tilfellum menntað ungt fólk sem vildi setjast hér að og getur það nú vegna þróunarinnar í atvinnumálum.

Er þetta ríkisstjórn sem hefur tekist illa? Ég segi nei. Sannleikurinn er sá að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur á þessu tímabili hækkað um 25% og til aukningar samneyslunnar höfum við á nýjan leik getað varið 20% til viðbótar, sem eru gríðarlegir peningar, til hinna sjúku, til hinna fötluðu, til menntakerfisins o.s.frv. Þannig að ríkisstjórnin hefur verið á réttri leið. Hún hefur getað lækkað skattana á unga fólkið með háu skuldirnar, lækkað tekjuskattinn úr 42% niður í 38%. Haldið þið að ungt fólk muni ekki um þetta?

Enn fremur höfum við nú, til þess að efla fyrirtækin, lækkað skatta af fyrirtækjunum úr 30% niður í 18%. Þannig er íslenskt þjóðfélag á réttri leið. Við erum á góðri leið. Við höfum náð lífskjörum Íslendinga á nýjan leik í fremstu röð í veröldinni.

Tveir öflugir skipstjórar sitja í brúnni. Samhentir flokkar sem þar ríkja, starfa saman og sigla þjóðarfleyinu. Stundum gefa þeir í, stundum hægja þeir á og við sjáum, þrátt fyrir að við þurfum að taka á ýmsum verkefnum, að íslenska þjóðarskútan er á réttri leið.

Ég er ekki viss um að Íslendingar vilji fela hv. þm. og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni, að fara upp í brúna. Ég er ekki viss um að menn séu tilbúnir að skipta um flokka sem svo farsællega hafa siglt þjóðarfleyinu.

Ég vil minna hv. þingmann á, fyrst hann talar um matarverðið, hvaða flokkur barðist með kjafti og klóm fyrir matarskattinum. Eru menn búnir að gleyma því? Það var flokkur hv. þingmanns. Hann kom matarskattinum á. Hann barðist fyrir honum. (SJS: Með Framsókn.) Þannig að það er erfitt að nefna svona.

Ég vil segja hér, af því að Vinstri grænir kalla hér fram í, að það er skemmtilegur flokkur. Vinstri grænir eru staðfastir. Við vitum hvar við höfum þá. Þeir eru alltaf á móti. Ég man þó eftir því að það gerðist á síðasta þingi að þeir studdu eitt frumvarp. Það var girðingarfrumvarpið sem ég flutti, enda alræmdir þvergirðingar.

Ágætu Íslendingar. Tækifærin eru mörg og við þurfum að huga að mörgum nýjum atriðum. Við sjáum víða nýja sprota. Ég vil minna á það merkilega kvikmyndavor sem nú ríkir á Íslandi. Stjórnarflokkarnir urðu sammála um að efla kvikmyndagerð, styrkja Kvikmyndasjóð og veita erlendum aðilum skattaívilnanir til að koma hér til landsins og vinna þessi verk. Við sjáum mikinn þrótt í þessari nýsköpun. Ég nefni þetta sem dæmi um svo margt annað sem við höfum verið að gera í atvinnulífinu á síðustu árum.

[20:30]

Hvað landbúnaðarmálin varðar þá eru þar auðvitað eilíf verkefni við að glíma. En samt eru bjartir tímar. Mér hefur fundist samstaða íslensku þjóðarinnar vera mikil um íslenskan landbúnað síðastliðin fjögur ár. Ég nefni t.d. að ég hef upplifað það í kringum kúariðuumræðu í Evrópu að allir vildu Lilju kveðið hafa, allir vildu neyta íslenskra afurða umfram annarra. Hjá mér sat ungt fólk á skrifstofu minni í morgun, úr háskólanum, sem er að fara að vinna að lokaritgerð. Áhugi háskólans og þeirra beindist að því að gera verkefni um íslenskan landbúnað, útrás hans sem hágæðavöru. Hingað kom bandarískur ráðherra, heilbrigðisráðherra, og vakti athygli á mjólkinni og gæðum hennar. Ég þarf ekki hér að ræða um hestinn. Þrátt fyrir mörg vandamál sem landbúnaðurinn glímir við þá er því sóknarhugur þar eins og annars staðar í íslensku þjóðfélagi.

Framsóknarflokkurinn hefur tekið að sér byggðamálin. Alþingi hefur samþykkt fjögurra ára áætlun um byggðamál sem byggir á því að bæta lífsskilyrði og starfsskilyrði á landsbyggðinni. Þar ber þó hæst að stjórnarflokkarnir hafa orðið sammála um að láta einn milljarð í nýsköpun í atvinnulífi landsbyggðarinnar á næstu árum.

Ég er þeirrar skoðunar að landsbyggðin sé að rísa til nýrrar sóknar á mörgum stöðum. Ég sé fyrir mér höfuðstaði, fimm til sex stóra höfuðstaði með bakland sem ná saman þannig og þar verði öll þjónusta ríkisins og atvinnulífsins til staðar. Þannig styrkjum við að þar verði skólar og menntasetur og öll þjónusta. Þannig má áfram telja. Ég tel að samgöngurnar skipti þar mestu máli og gert hefur verið stórkostlegt átak í þeim.

Ágætu Íslendingar. Ég er í engum vafa um að þessir stjórnarflokkar eru, þegar þeir ganga inn í lokavetur, að skila af sér öflugu búi, betra þjóðfélagi en þeir tóku við. Og við sjáum það í augum fólksins þar sem við förum um að það trúir á framtíðina og vill lifa í þessu landi og vinna sín verk. Það er gott sumar að baki. Það rignir að vísu. Ég get auðvitað sagt eins og presturinn fyrir norðan: ,,Þar sem tveir vatnsdropar koma saman, þar er rigning.`` En ágætu Íslendingar. Við framsóknarmenn erum annað aflið í þessari ríkisstjórn. Við trúum á fólkið og kraft fyrirtækjanna. Við trúum að í hönd fari önnur góð sjö ár. Númer eitt, tvö og þrjú verður kraftur í atvinnulífinu. Stöndum vörð um að efla það til að það geti borgað hærri laun og unga fólkið fái störf hér.

Ég segi að lokum eins og skáldið: ,,Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd, þá ertu á framtíðar vegi.``

Ísland morgundagsins er land tækifæranna. Vilji er allt sem þarf. Framsóknarflokkurinn leggur verk sín í dóm kjósenda óhræddur eftir fjögurra ára farsælt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn á þessu kjörtímabili. --- Góðar stundir.