Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 20:46:39 (14)

2002-10-02 20:46:39# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, SvH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[20:46]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ef þannig væri ástatt á íslensku þjóðarskútunni að það væru tveir skipstjórar í brúnni væri það alveg ótækt ástand. Sem betur fer skjöplast landbrh. að þessu leyti því að þarna sitja skipstjórinn og hjálparkokkurinn saman.

Við höfum nú hlustað á stefnuræðu forsrh. Í henni er enga stefnumótun að finna, gum og skrum og glansmyndagerð, engar sérstakar ráðagerðir né úrlausnir boðaðar í hinum mikilvægustu málum eins og t.d. heilbrigðismálum. Þessi stefnuræða var með hinum rýrustu í roðinu sem ég man eftir. Og það er þagað þunnu hljóði um atvinnumálin eins og t.d. fiskveiðimálin og stjórnina á þeim.

Það er ekkert orð um stórmálið deCODE, það sem var síðasta verk á þingi er lauk í vor að veita þeim ábyrgð upp á 20 þúsund millj. kr., ekkert orð um það ágæta fyrirtæki, það gjaldþrota fyrirtæki eins og það blasir við. Ekkert orð um einkakvæðinguna, um ráðstöfun á eignum okkar Íslendinga allra. Þar sem forsrh. er nú vígt um skop hefði hann getað látið fylgja eins og eina skrýtlu úr einkavæðingarnefnd með ræðu sinni.

,,Íslendingar``, segir í ræðunni, með leyfi forseta, ,,skipa sér nú í röð fremstu þjóða að því er lífskjör varðar.``

Betur að satt væri og næði til alls landlýðsins. En er það svo? Er það rétt sem haldið hefur verið fram að allt að 20 þúsund íbúar þessa lands lifi undir fátæktarmörkum? Ég hef sannar spurnir af því að hundruð fjölskyldna hafi ekki haft efni á að kaupa skólalærdómsbækur fyrir börn sín þegar námið hófst á þessu hausti. Menn geta ímyndað sér hvaða háski kann að vera búinn ungdómi sem þannig er ástatt um. Og er þörf á því þegar þetta ríki er hið sjöunda auðugasta í heimi, að því sagt er?

Hvað segja þeir í mæðrastyrksnefnd eða hjá Hjálparstarfi kirkjunnar um ástandið að þessu leyti? Hvernig má það vera að þetta er látið viðgangast? Og hvernig er ástatt í heilbrigðismálunum, hjá hinum sjúku og hinum öldruðu? Það eru engar sérstakar ráðagerðir uppi í þeim efnum heldur fullyrt að það verði ekki hægt að eyða meira fjármagni í þessi mál.

Hér minntist forsrh. á kreppuna sem aldrei kom. Hagspekingar og forráðamenn fjármálafyrirtækja gera grín að því að þetta hafi skeð fyrir einstaka heppni og alls ekkert fyrir athafnir stjórnvalda. Það hafi verið heppni, glópalán og eins verðþróun erlendis sem hafi orsakað þetta. Og satt best að segja þá getum við t.d. tekið sem dæmi að gegn verðþróuninni, verðbólgunni, sem hóf göngu sína fyrir tveimur árum eða svo, aðhafðist ríkisstjórnin ekki neitt. Hvert er aðalvopn ríkisstjórnar á hverjum tíma þegar slíkt kemur upp á? Það er auðvitað að beita fjárlögunum. Útgjaldahlið fjárlaga hækkaði langt umfram verðlag öll þessi ár. Viðskiptajöfnuður er horfinn, er tilkynnt. Guð láti gott á vita. En á ekki að borga þá skuld sem safnaðist upp á næstliðnum árum? Hvað er hún mikil? 200 milljarðar króna, 200 þúsund milljónir. Og hvers vegna varð þessi halli til? Hvers vegna myndaðist þessi mikla skuld? Og það þarf vafalaust að greiða hana.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins orðaði það svo að góðærið hefði verið knúið áfram af stjórnvöldum með erlendri skuldasöfnun. Og það eru fleiri en íslenska ríkið sem safnað hafa óbærilegum skuldum, til að mynda sjávarútvegurinn. Það getur svo sem vel verið, þegar búið er að galopna íslenskt efnahagskerfi fyrir Unilever og þessum stóru og sterku í útgerð í útlöndum að þeir geri sér hægt um hönd og kaupi þetta upp og borgi menn frá skuldum sínum. Ég hef grun um að það séu menn í þessum hópi sem væru ekkert á móti því.

Herra forseti. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna í ræðu forsrh. orðrétt, þar sem hann segir:

,,Á undanförnum árum hefur samráð ríkisvaldsins við heildarsamtök aldraðra verið að aukast. Talsmenn aldraðra hafa þó fundið að því að þótt samráð hafi vissulega aukist hafi þeir iðulega komið of seint að ákvarðanaferlinu og á stundum nánast staðið frammi fyrir gerðum hlut. Nú hefur verið sett í gang djörf tilraun til að bæta úr þessu þannig að forustumenn landssamtaka aldraðra og ríkisvaldsins verði samferða í undirbúningsvinnunni. Ekki verði tjaldað til einnar nætur, heldur reynt að setja fram sáttargjörð í samningsformi sem varðar veginn næstu árin. Ég er ekki í vafa um``, sagði forsrh., ,,að báðir aðilar ganga til þessa samstarfs af fullum heilindum.``

Fyrir tveimur árum mælti forsrh. svo í stefnuræðu sinni, með leyfi forseta:

,,Þess hefur verið gætt að kaupmáttaraukningin nái einnig til þeirra sem ekki semja um kjör sín, svo sem aldraðra og öryrkja og hafa öll þau skref sem ríkisstjórnin hefur stigið undirstrikað þann vilja hennar að varðveita og efla kaupmátt þessara hópa ...``

Nú skulum við sjá hvað Ólafur Ólafsson, fyrrv. landlæknir og formaður Félags eldri borgara, hefur um þetta að segja, um samskipti ríkisvaldsins og Félags eldri borgara eða eldri borgara almennt. Hann segir svo, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra kom á fót samráðsnefnd um málefni aldraðra og kynnti nefndina sérstaklega í áramótaræðu sinni um áramótin 1998--1999. Í henni eiga sæti frá ríkisstjórninni, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, heilbrigðismálaráðherra, sem er formaður, auk forsætisráðherra sem situr einn fund á ári, af þremur. Lofað var samráði. En ekkert stóðst. Aðeins hafa verið haldnir tveir fundir og þeim síðari lauk með tilskipun en sá stjórnarstíll færist mjög í vöxt.``

Þar hafa menn órækan vitnisburð fyrrv. landlæknis og formanns Félags eldri borgara. Hann segir enn fremur svo: ,,og er svo komið að stjórnvöld virða eftirlaunafólk ekki svars, stjórna með tilskipunum og standa ekki við orð sín.``

Og Ólafur Ólafsson endar grein sína á þessu:

,,Allar götur reiknuðum við með því að okkur yrði ekki sýnd lítilsvirðing og yfirgangur.``

Hvernig skyldi nú á því standa að nú, þegar dregur að áramótunum 2002/2003, að þá skuli rokið upp til handa og fóta og þessari samráðsnefnd komið á fót? Sagan auðvitað endurtekur sig og það má mikið vera ef aldraðir sjá ekki í gegnum þennan blekkingavef, svo augljós sem hann er.

Ólafur Ólafsson segir í grein sinni að kjör ellilífeyrisþega hafi verið freklega skert, sem allir vita, og það eru brigð stjórnvalda því að loforð voru gefin um allt annað í upphafi þessa kjörtímabils. Skattleysismörkin hafa lækkað en ekki hækkað, eins og lofað var. Skattar hafa stórhækkað, lyfjakostnaður stórhækkað, fasteignaskattur samkvæmt nýju fasteignamati stórhækkað. Hlutfall grunnlífeyris og tekjutryggingar af almennum verkamannalaunum lækkað, þrátt fyrir ítrekuð loforð stjórnvalda um að ,,eftirlaun skuli hækka í takt við launaþróun``.

En það eru sem sé að koma kosningar og það kann vel að vera að upp á ýmsu verði fitjað, t.d. eins og síðast þegar stórmálið fiskveiðistjórnin var haft í fyrirúmi af hálfu stjórnvalda. Kannski þeir taki nú til við blekkingavefinn þann aftur ef þeim finnst þörf vera á.

Ég gat þess að heilbrigðismál hefðu ekki verið mikið rædd hér í framsögu forsrh. og ekki væri margt þar að finna sem bitastætt væri. Það er talað um þar að þýðingarlaust sé að heimta meiri peninga til þess arna, það þurfi að grafast fyrir vandann. En hvað hafa menn verið að gera á næstliðnum tíu árum eða svo? Hafa þeir látið allt reka á reiðanum? Og ef ekki má veita frekari fjármuni til þess arna hvernig ætla þá menn að fara að með þær stórskuldir sem safnast hafa upp?

En heilbrigðismálin hafa verið leyst. Ungliðarnir í Sjálfstfl. eru búnir að leysa heilbrigðismálin. Og af því sem ræðutími minn nú er úti geymi ég mér það að vitna til þess, en það er alveg skýr afstaða sem þar er tekin af arftökum forsrh. og ráðamanna Sjálfstfl. nú um stundir.